Skilaði Hannesi í rútu eldsnemma í morgun og á leiðinni heim á Cowley Road var einhver búinn að gefa dúfunum sinn brauðskammt fyrir utan heilsugæslustöðina. En nú voru með í matarboðinu þvílíkur aragrúi af rottum að ég varð að stoppa og fylgjast með borðhaldinu með netta gæsahúð.
Skemmtileg helgi að baki. Mér fannst gaman að hafa karlinn bara svona út af fyrir mig og við tókum lífinu afar rólega. Sáum eldsýningu í miðbænum á föstudagskvöld og fórum á barinn þar sem Tolkien var vanur að sitja og súpa. Enduðum kvöldið á að borða kráarmat sem okkur Michele fannst ágætur en Hannes var meira skeptískur.
Notuðum laugardaginn í að skoða merkilega bæjarstaði, fórum á annan uppáhaldsbar, the Turf þar sem inspektor Morse situr stundum að sumbli í þáttunum. Kíktum í bókabúðir og fórum í skoðunarferð með túristarútunni. Skoðuðum Christ Church skólann og gengum heim eftir enginu þar meðfram Cherwell ánni. Borðuðum á ítölskum stað, fylgdumst með mannlífinu fyrir utan gluggann og heimsóttum aftur the Turf af því okkur þótti svo gaman þar fyrr um daginn. Enduðum á Kings Arms í miðjum hópi tónlistarmannasem við erum viss um að eru frægir og að við höfum átt að vita hverra manna væru en þar sem þeir tilheyrðu hvorki Bítlunum né Stones þekktum við auðvitað ekki haus né sporð á þeim. Þeir sögðust nýbúnir að semja lag fyrir Emilíu Torríni og biðu spenntir eftir viðbrögðum frá henni.
Mölluðum okkur enskan morgunverð í gærmorgun og buðum Michele í gillið. Orðið kaldara í veðri svo við fórum með trefla á bæjarröltið og keyptum buxur fyrir Rönku sem Hannes ætlar að taka á dítúr til Lubliana áður en þær fá að fara heim. Sátum og supum kaffi og lásum blöð í Waterstone bókabúðinni áður en við keyptum okkur steik í Marks og Spencer og fórum heim að elda. Komum við í Magdalenuskólanum á heimleiðinni og skoðuðum hann. Kom í ljós að starfsmannakortið mitt veitir mér aðgang að öllum skólunum ásamt gesti þannig að okkur fannst við hafa sparað verulega og Hannesi finnst að ég eigi að gera þetta daglega til að vinna mér upp í 400 pundin sem ég þurfti að punga út fyrir dvölina hér. Michele er hins vegar stórtækari og hafði hugsað sér að standa fyrir utan og selja fólki aðgang í gegnum sitt kort – á hálfvirði.
Og svo er bara venjuleg vikudrusla fram undan og meira að segja tómlegri en vanalega. Michele er á leið til Rotterdam á miðvikudag og verður út vikuna þannig að nú er ég alein heima á Divinity Road og get horft ein á megrunarþætti í sjónvarpinu kvöld eftir kvöld. Og í vinnunni er Sandra skrifstofufélagi á ferð um norður England svo að við Andrew verðum ein í því kotinu. Hannes verður á ráðstefnu í Lubliana út vikuna og sleppur við að tala við mig - eða kannski frekar hlusta á mig - daglega á skæpinu. Kannski mun bara kaflanum mínum miða eitthvað áfram þessa vikuna?
2 ummæli:
æi þið eruð svo miklar dúllur! væri svo mikið til í að koma og vera hjá þér í viku bara að læra og dútlast! sakna svo mömmu minnar!:(
Æ dúllan. Þú verður bara að adda mér inn á skypið svo einhver geti sinnt þér í vikunni. Annars neyðistu bara til að vinna allt of mikið í kaflanum þínum. Knús Þurý
Skrifa ummæli