miðvikudagur, 21. mars 2007

Nú er úti norðanvindur....


Um leið og Hannes mætti til Oxford með ljósu sumarbuxurnar mínar fór að kólna og nú liggja þær á vísum stað og glotta út í annað þar sem ég gref upp gammósíur og ullarpeysur á morgnana. Hann blæs bara verulega að norðan þannig að ég þarf að streða á hjólinu í vinnuna og mæti þar með vot augu og nefrennsli. Hvað varð nú um vorið sem var rétt búið að tylla niður tánum. Ég get snýtt mér en það er af og frá að vesalings páskaliljurnar muni lifa þetta kuldakast af.


Var sein að koma mér af stað í morgun því ég vildi koma við í Christ Church Collega og kaupa mér miða á Oxford bókmenntahátíðina sem var formlega sett í gær (http://www.sundaytimes-oxfordliteraryfestival.co.uk/). Þar sem ég verð alein heima það sem eftir er viku datt mér í hug að þátttaka þar myndi gulltryggja að ég færi ekki að fá heimþrá svona upp úr þurru. Vandinn að venju er að velja úr öllum þeim aragrúa erinda sem eru í boði. Þarna verða ljóðskáld og pistlahöfundar, upplestur úr ástarsögum, barnabókum, heimspekiritum, sagnfræði, matreiðslubókum og guð má vita hvað.

Ég er illa að mér í heimi bókmenntanna þrátt fyrir að vera sílesandi og þurfti því að velja dálítið blint en tók um leið mið af óbókmenntalegum þáttum eins og á hvaða tíma dags og hvar fyrirlestrarnir verða haldnir. Ætla að nota hádegið á morgun til að hlusta á Colin Dexter segja frá því hvernig honum finnst að sjá sögupersónuna sína, Inspector Morse á tjaldinu og undir kvöld fæ ég að hlusta á BBC pistlahöfundinn Lynne Truss halda erindi. Veit ekkert um hana en leist vel á lýsinguna og svo fylgdi rauðvínsglas með þannig að hún getur ekki verið annað en mín kona. Á föstudaginn ætla ég að eyða hádeginu með Alexander McCall Smith þar sem hann talar um nýju bókina sína um einkaspæjarann Mma Maktusi en ég er einmitt að lesa hana uppi í rúmi á kvöldin um þessar mundir og finnst hún frábær eins og fyrirrennarar hennar. Á föstudagskvöldið mæti ég svo í Blackwell bókabúðina að hlýða á James Attlee kynna bókina sína Isolarion. Hann þekki ég heldur ekki en þegar ég sá að bókin fjallar um leyndarlíf þeirra sem búa og starfa við Cowley Road var ekki aftur snúið. Ég hef áður bloggað heila færslu um götuna sem ég fer daglega um. Þorði svo ekki að kaupa fleiri miða ef þetta væri svo bara allt hundleiðinlegt og svo er þetta rándýr skemmtan en er með eitt og annað í sigtinu yfir helgina eins og erindi Charles Lind sem lifði af hremmingar í ferð á Everest eða pallborð um bernskuna í nútímanum. Nú ef veðrið er gott væri ekki amalegt að bregða sér í klukkutíma skáldagöngu um Oxford.

En svo þarf ég nú að muna að læra svolítið líka!

Engin ummæli: