mánudagur, 5. mars 2007

Lundúnir að baki


Jamm og já og þá er helgin að baki og Hannes minn, Sillarnir og aðrir góðir félagar flognir heim á Frón aftur. Herleg helgi að baki með skoðunarferðum um hin ýmsu hverfi Lundúna, allmörgum kráarviðkomum (enda skilst mér að Hannes og félagar hafi verið á sérstöku bjórnámskeiði sem þeir féllu reyndar allir á í lokin), misgóðum matsölustöðum, skemmtilegu búðarrápi, örferð á British Museeum og dulítið af kossum og knúsum. Veðrið bjart og fallegt nema á skilnaðardaginn þegar rigndi út í eitt og var bara við hæfi. Tómlegt að fara ein heim í rútu, vot í fæturna en ekki ástæða til mikillar sorgar því ég á von á Hannesi aftur í heimsókn fyrr en varir. Þá kemur hann hingað til Oxford og kannski – ef hann er heppinn – verður Oxford United að spila heimaleik við Camebrideham þá helgina. Ef ekki býð ég honum út að hjóla.


Íslenska handprjónasambandið hefði hins vegar átt sæludaga í hausnum á mér í dag – tómur lopi og lognmolla og mér tókst ekki að berja saman heilli hugsun þrátt fyrir langa setu á skrifstofunni. Michelle sagði að svona dagar væru oft lúmst góðir því að þó sýnileg afköst væru lítil væri kollurinn að malla og vinna úr góðum hugmyndum. Fullvissaði hana um að heiladauðinn í dag myndi aldrei nokkurn tíma nýtast til æðri verka. Sá mest eftir að hafa ekki farið fyrr heim að kaupa í matinn og þvo þvotta. En kannski hefði ég ekki ráðið við það heldur. Að minnsta kosti stóð ég upp frá tölvunni upp úr fimm og uppgötvaði að gleraugun mín voru algjörlega horfin. Leitaði af mér allan grun áður en ég fór yfir á bóksafn til að athuga hvort þau hefðu nokkuð orðið eftir þar. Því miður reyndist það ekki vera. Þeir sem þekkja mína sjón vita að ég kemst ekki spönn frá rassi án þeirra og að þau eru gjörsamlega gagnslaus nokkrum öðrum en mér. Auk þess að vera með sértæka sjónskekkju er ég með +2.5 á hægra auga og -2,5 á því vinstra – að ofan – því fyrir neðan miðju eru hlutföllin +3,5 og -1,5. Leitaði enn og aftur á skrifstofunni og fékk núna allt bókasafnsfólkið í lið með mér á bókasafninu. Sem betur fer var ég með varagleraugun mín í skrifborðsskúffunni og gat því komist heim án teljandi áfalla. Tók upp fartölvuna áðan og - já já – upp flugu gleraugun vendilega rúlluð inn í tölvusnúruna. Verð að muna að segja þeim á bóksafninu frá þessum undarlegheitum á morgun. Eða ekki.

Michele bjargaði svo því sem bjargað var með frábærum kjúklinarétti:
4 msk mascarpone ostur
tvær kjúklingabringur með skinni
1 tsk af létt mörðum fennikufræjum (áttum þau ekki og það virtist í góðu lagi)
1 sítróna – safi og svo börkur skorinn með skrælara í stórar ræmur
10 kirsuberjatómatar
1 tsk af kapers án vökva (við settum ríflega það).


Ofninn hitaður í 220. Tveimur matskeiðum af ostinum troðið undir skinnið á hvorri bringu. Smá olía sett yfir svo og fennelfræin og sítrónubörkur og saltað og piprað eftir þörfum.
Sett á ofnfast fat ásamt tómötunum, kapersinu og sítrónusafanum og bakað í 30 mínútur eða þar til tilbúið. Og þetta ku vera fyrir 4 en þeir hljóta að vera matgrennri en við Michele sem svældum þessu í okkar tvær einar!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

já er Hannes jafn spenntur og ég fyrir hjólatúr?

Nafnlaus sagði...

Hann er orugglega alveg jafn brjaladur ad taeta af stad og tu - ef hann er ekki lika ad heimta af fara i sund og hlaupa. Finnst ter lifid ekki skritid i dag? koss

Nafnlaus sagði...

Hehe þú ert alltaf svo fyndin stelpa. Vona að ullin fari að rakna eitthvað í sundur svo þú getir farið að prjóna úr þessu. Estoy muy bien. Knús frá Spáni nánar tiltekið frá Calle Gracia sem þýðist sem þakklætisgatan:-) Er uppfull af þakklæti alla daga hér auðvitað.