mánudagur, 12. mars 2007

Lone ranger


Ég er búin að vera svona hálfgerður 'lone ranger' alla helgina. Tókst að hespa af kaflanum mínum fyrir klukkan átta á föstudagskvöldið, að minnsta kosti þannig að hann væri þokkalega heillegur fyrir áframhaldandi helgarsnyrtingu svo ég gat farið heim. Michele farin af bæ og í næsta bæ í helgarheimsókn til Yvonne og ég því ein heima í kotinu.

Á laugardagsmorgun uppgötvaði ég að sambandið við umheiminn var rofið og sama hversu mikið ég fiktaði í tölvunni, módeminu og þráðlausa sendinum tókst mér ekki að ná sambandi. Og það þýddi bara enginn laugardagur með RÚV, enginn Moggi, engin spaugstofa og ekkert skæperí við vini og vandamenn. Enginn tölvupóstur. Sat ráðþrota fram undir hádegi og horfði voteyg á Thinkpadinn en það hafði engin áhrif. Vann að fræðistörfum netlaus í svona tvo tíma.

Varð svo döpur að ég neyddist til að fara í göngutúr í sumarblíðu niður í bæ undir því yfirskini að ég væri að leita að matreiðslubók fyrir Slugu vinkonu – sem ég fann því miður ekki – en gat þess í stað keypt mér sjálfri fullt af bókum og nýjan varalit í örörlítið öðrum tón en hinir tólf sem ég með mér hér í útlandinu. Varð aðeins glaðari við þetta. Hannes hringdi og sagðist ekkert kunna á tövlur en ráðlagði mér að slökkva og kveikja á routernum. Fannst það heimskuleg hugmynd.

Það var von á Annie frá Hong Kong síðdegis á laugardeginum og mér hafði verið falið það ábyrgðarhlutverk að sjá til þess að hún kæmist inn í hús því í fyrri dvöl sinni hér var hún eitthvað að vandræðast með þessa fjóra lása og þjófavarnarkerfið. Winifred átti von á henni ‘late afternoon’ sem ég var ekki viss um hvað merkti. Flýtti mér því heim úr bænum og beið eftir Annie sem mætti – lyklalaus – klukkan hálfellefu að kvöldi svo hún veit líklega ekki heldur hvað ‘late afternoon’ þýðir.

Helgarveðrið hér hefur verið alveg ótrúlegt og þó að Winifred sé áhyggjufull yfir gróðurhúsaáhrifum og ég kinki alvarleg kolli í þeirri umræðu finnst mér dásamlegt að skoppa hér út í sól og sextán stiga hita.


Var ákveðin að fara í langhlaup á sunnudagsmorgni með Heddintonunum en þegar á reyndi var allur vindur og uppburður úr mér og ég ekki viss um hvort ég kæmist yfirhöfuð spönn frá rassi. Hef lítið hlaupið upp á síðkastið og ekkert langt. Lagði því í hann á eigin vegum rétt fyrir tíu og ákvað að taka öfugan sunnudagshring með strætópening í vasanum. Og það gekk bara svona glimrandi. Tókst að fara allan hringinn án þess að villast nema einu sinni og gat þá bjargað mér á strætóupplýsingum. Kom heim eftir tæplega tveggja tíma hlaup þar sem síðasti hálftíminn var eins og atriðið í Baywatch forðum – sýnt afar hægt – og aðal keppikeflið að ná að fara frammúr gömlum hjónum neðst á Marston Road – hann með hækjur.


Beið heima til klukkan níu í morgun til að ná sambandi við hjálparlínu BT. Sat þar á spjalli við drenginn Mike í 45 mínútur. Hann lét mig taka út kerfi og setja inn kerfi. Slá inn tölur og taka út tölur og ekkert gekk. Eftir að hafa ráðfært sig við menn í næstu deild stakk hann upp á að ég slökkti og kveikti á routernum. Og allt komst í lag. Vona að Hannes lesi ekki bloggið mitt.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alltaf jafn gaman að lesa það sem þú skrifar skvísa. Mér þótti þetta nú ekki vitlaus hugmynd hjá Hannesi samt að slökkva og kveikja á roudernum. Enda hvað kom í ljós eða hvað? Hehe Knús Þurý

Unknown sagði...

Hæ systir

Gott að sjá að allt gengur vel, ert kanski á undan áætlun? Sendi þér dagskrá hjá Ágústi Fannari í Apríl ef þú skyldir eiga erindi til London. Eitt giggið er í háskóla þannig að erindið gæti verið margþætt. Bæjó,
Ásgeir

Dear All,

The plans are being confirmed as we speak. The latest time-table for the
band is as follows:

March 19
Hallberg, Heimir and Sigurdur are to fly to London and will be taken to
Liverpool for the mixing. This will potentially run on until March 28th. So,
they will remain in the UK until April 6th

March 30
Ágúst, Björgvin and Gunnar fly to London

March 31
Show in London King's College or ULU (University of London Union)

April 1-4
Photoshoot and video shoot planned

April 5
Regal/Parlophone Club show in London

April 6
All except Agust fly back to Iceland. Agust will fly to Malaga for his
holiday.

That's all for now folks!

Best,
Edna

Nafnlaus sagði...

Vá - heyrðu ég var oft í ULU síðast þegar ég var í London. Það væri nú ekki amalegt fyrir verðandi poppstjörnu að fá gömlu frænku á giggið!