fimmtudagur, 29. mars 2007

Hugrenningatengls um áhyggjur


Þetta er undarleg færsla sem er tilkomin eftir afar krókótta þanka en þannig er að ég komst í tæri við bók um kennara og kennslu sem lofar afar góðu og ætlaði satt að segja að hafa þennan pistil um kennarastarfið. En sá fljótt að ég þyrfti að undirbúa mig mun betur til að gera því merkisstarfi þau skil sem það verðskuldar og dugar ekki að kasta til höndunum. En í gær sátum við Andrew skrifstofufélagi bak í bak yfir okkar verkefnum og vorum svona í forbífarten að ræða málin yfir öxlina og m.a. að tala um áhyggjur og einhvers staðar í samtalinu fór hann með sínum ástralska framburði að tala um fólk sem væri ‘prone to worry’ - og mér heyrðist hann segja ‘prune to worry’ og sá strax fyrir mér stóra, svarta áhyggjusveskju. Sá þetta alveg fyrir mér – góð og falleg hugsun er eins og safarík plóma en svo hellast áhyggjurnar yfir og hugsunin verður dökk og hrukkótt og steinninn í miðjunni risastór og má alls ekki gleypa. Og já - ég er vissulega áhyggjusveskja og það sem verra er að með genum og uppeldi hef ég komið þessu áfram í hana dóttlu sem getur á köflum verið enn meiri sveskja en móðir hennar. En hvernig tengist þetta svo kennarastarfinu? Jú því þegar ég var að hugsa um kennarastarfið - á undan sveskjunum- fór ég að hugsa um minn eigin kennaraþroska og varð þá hugsað til Ragnheiðar vinkonu minnar Ásgeirs sem ég kenndi með í mörg ár á unglingastiginu. Og hún kenndi mér sko margt en mest þó að vera aðeins minni áhyggjusveskja í kennslu. Eins og allir vita taka unglingar m.a. út sinn þroska með því að prófa sig áfram í tilverunni með mishóflegu uppsteyti við þá sem yfir þeim vilja ráða - eins og kennara. Þannig vaxa þeir og þetta hefði ég átt að vita en ótrúlega oft lét ég plata mig með í leikinn og fór að býsnast yfir einhverjum smámunum. Ragnheiður hafði annað lag á. Þegar að unglingarnir gerðu sitt besta til að ganga fram af okkur hló hún dillandi hlátri og skemmti sér konunglega og sló þar með öll vopn úr höndum uppreisnasinna sem yfirleitt hlógu bara líka. Og mál sem hefðu orðið í mínum meðförum margra tíma núningur og leiðindi gufuðu upp á methraða. Og þar sem ég var að rifja þetta upp fór ég að hugsa að líklega hefði ég verið svo lánsöm í lífinu að eignast vinkonur sem hafa einmitt þennan eiginleika að vera bara alltaf plómur. Áslaug vinkona - sem hefur einmitt þennan hæfileika að geta hlegið að minniháttar málum - hefur ítrekað reynt að kenna mér áhyggjusveskjunni móttóið: Einfaldaður líf þitt. Þetta er gott móttó að lifa eftir og felst bara í svona smá hlutum eins og að kaupa köku í stað þess að baka hana – ef baksturinn veldur þér á þeim tímapunti áhyggjum og hrukkum. Hvar værum við áhyggjusveskjurnar staddar án slíkra vina?

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær hugvekja hjá þér og þér einni lík. Ætla að tileinka mér þessa plómu-sveskju hugsun.
Ég á það til að vera sveskja, sér í lagi þegar afkomendurnir eiga í hlut. Er að reyna að koma örverpinu svolítið af spenanum. Núna fær sá (17 ára) að búa í Mosfellsbæ með vinum í smátíma og við höfum bæði haft gott af því, hann verður sjálfstæðari og ég ósjálfrátt slétti úr sveskjukrumpunum. Var mjög ánægð þegar hann hringdi síðasta sunnudag eftir að hafa verið á þingi utanbæjar. Hann afsakaði að hafa ekki hringt um helgina og látið vita af sér, hann var í lélegu gsm sambandi. Ánægja mín fólst í því að ég hafði ekki tekið eftir þessu, ég hafði engar áhyggjur!
Ætli ég sé að verða plóma?
Kveðja,
Svala

Nafnlaus sagði...

er þá hægt að kaupa einhvern í að skrifa ritgerð í stað þess að skrifa hana sjálf? ef einhver bíður fram á þjónustu þá er hún vel þegin:)

Nafnlaus sagði...

Nei dótturbjáni! í því tilviki þarftu bara að nota tímann sem annars færi í áhyggjur í að skrifa skrambans ritgerðina!

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þú nú alltaf svo ágæt plóma Svala mín enda finnst Hannesi sérstaklega vænt um þig sem alltaf heldur uppi hans hlut þegar ég er að sveskjast eitthvað í þér út af honum! Gaman að heyra af Einari - hann er kostakrakki eða kall sem á eftir að spjara sig vel enda prýðilega útbúinn að heiman.

Nafnlaus sagði...

hehe ert náttúrlega snillingur! Ég á alveg skelfilega auðvelt með að vera sveskja stundum - eiginlega alveg samankrumpuð slík - eiginlega bara orðin að rúsínu! En þess á milli get ég blómstrað eins og plómur einar gera. Er örugglega ekki að blómstra enda frétti ég ekkert af neinum leiðbeinenda svo ég á auðvelt með að vera algjör sveskja þessa dagana með áhyggjur af öllu. Ætti kannski að henda þessari ritgerð og bjóða mig fram um að gera eina fyrir dótturbjánann:-)

Nafnlaus sagði...

Kæra besta Guðrún

Alltaf jafnfundvís á skondnar líkingar. Ef þú segist vera sveskja þá veit ég nú ekki hvað sumir eru eiginlega: vindþurrkaðar samanskroppnar glerharðar svskjur -miðað við þína léttu lund. Sá 104 ára úr Mývatnssveit sagði í Mogganum á dögunum lykilinn að langlífi vera áhyggjuleysi. Lengi lifi freskar plómur! Veit annars ekki hvort maður nennti að verða svona fjári gamall svo kannski er í lagi að hafa smááhyggjur.

Les annars alltaf bloggið þitt en nenni alltof sjaldan að kvitta.

Bestu kveðjur
Þóra