miðvikudagur, 14. mars 2007

Bruner að baki


Jæja þá er Brunerdagurinn mikli að baki og hann tókst í alla staði vel – sem betur fer því allir í menntunardeildinni voru svo sannarlega búin að gera allt sitt besta. Og sólin skein skært á Bruner og okkur hin og glampaði á pússuðum gluggum og nýmáluðum gólfum. Hátíðin byrjaði með fyrirlestri Bruners fyrir troðfullum sal og satt að segja var dálítið merkilegt að heyra í þessum 92 ára karli og virkilega hrífast með. Bruner telur að næsta verkefni kennara og skólamanna verði ‘enculturation of the possible’ sem er svona í minni lummuútgáfu ábending um að í námi og kennslu eru alltaf einhverjar aðrir möguleikar tiltækir. Ekkert endilega gefið og alltaf hægt að segja EN – sem er orð sem er til í flestum tungumálum og stendur fyrir einmitt það að sem að gæti kannski eða kannski ekki verið. Fyrirlesturinn var tekinn upp og verður bráðum settur á heimasíðu háskólans eins og hér segir. http://www.admin.ox.ac.uk/po/news/2006-07/mar/14.shtml

Eftir fyrirlesturinn fluttum við okkur upp í deild þar sem nokkrir frægir karlar - þ.á.m. Lord Adionis - héldu ræður og einn þeirra svipti svo tjaldinu af málverkinu af Bruner og við hin skáluðum, borðuðum smárétti og tókum myndir. Upp úr sjö var svo hátíðarkvöldverður – afar hupplegur og breskur. Farið með borðbæn á latínu þar sem ég skildi bara ‘amen’ og svo örfáar ræður haldnar undir borðum og Bruner gamli hinn kátasti sagði nokkur orð. Ég lenti á sætasta borðherranum, honum Pip sem reyndar sofnaði svo undir miðju borðhaldinu enda bara 6 mánaða og sonur listakonunnar sem gerði portrettið. Ég vakti hins vegar allt boðið í gegn og hjólaði heim léttkennd og léttklædd og létt í lund.

Ruslakarlarnir vöktu mig svo fyrir hálfsjö í morgun svo ég dreif mig í vinnuna en var dulítið eitthvað lúin og framlág. Sat í bókasafnskjallaranum um stund áður en ég fór að hlusta á Svíann Roger Säljö sem var heiðursgestur við opnum nýrrar miðstöðvar um Sociocultural og activity kenninga. Eftir hádegi var svo panell um aðferðafræði þessara kenninga. Veit að Þuríður Jó. hefði setið og kinkað kolli út í eitt og spurt panelinn margra gáfulegra spurninga en ég mátti hafa mig alla við að halda þræði – og samt slitnaði hann oft. Kannski var það vínið í gærkvöldi eða súrefnisskorturinn í salnum- eða að ég er hreinlega bara ekki betur gefin. Kannski það hafi verið félagsmenningarleg blanda alls þessa.

Gafst því upp snemma í dag. Sólin skein og ég átti stefnumót í Tesco við Michele og bíð núna bara eftir því að komast í háttinn og hefja nýtt (og betra) líf á morgun. Ekki seinna vænna því svo er von á Hannesi mínum á föstudaginn. Þarf að hringja í hann og minna hann á lýsið og hrútspungana.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

meira fyllirí á þér en mér! og þú að verða fimmtug og gömul konan!

Nafnlaus sagði...

Einmitt í hvert sinn sem ég les þetta blogg þá er hún blaut af einhverju tagi þessi kona. He he. Knús Þurý