sunnudagur, 4. júlí 2010

Mitt síðasta hlaup


Jamm og já og þá er síðasta hlaupið hér í Flórens hlaupið (nema að ég fari í fyrramálið). Var ekki mjög einbeitt þegar að ég vaknaði sjö í morgun enda að baki langur en skemmtilegur gærdagur. Sá hófst með hlaupi en svo mættu hingað í morgunkaffi íslenskir kunningjar, Gerður og Gunnar (sem voru orðnir vinir við dagslok). Tókum strætó upp í Fiasole og í brennandi sól drógum við þau hjónin upp hverja brekkuna á fætur annarri að skoða útsýni og klaustur. Tókum þriggja tíma stopp á tjaldstæðinu þar sem er að finna veitingastað og sundlaug og þar með ískalt hvítvín og svölun í köldu vatni. Kaffi og campari soda á Casa de Popula því þar er líka útsýni í hina áttina og svo strætó langt suður yfir Arnó þar sem við héldum göngunni áfram, nú að leita upp sýningu Ragnars Kjartanssonar í EX3. Sátum í dásamlega svölum sal og horfðum á mömmu hans Kjartans hrækja á hann eins og hún ætlar að gera reglulega á fimm ára fresti á meðan hún lifir. Mér fannst þetta gaman. En þarna vorum við orðin verulega lúin svo við tókum bíl heim til þeirra Gunnars og Gerðar og pískuðum Gunnari út í eldhúsinu þar sem hann galdraði fram frábært sjávarréttarpasta. Við hin drukkum bara bjór á meðan. Við skötuhjón kvöddum svo þessa nýju vini og héldum gangandi heim með viðkomu á spænskum bar við Domuna til að fylgjast með Spánverjum vinna sinn leik- ég fagnaði ákaft. Vissi ekki að við (lesist Hannes) héldum með hinum sem ég man ekki núna hverjir voru.

En já svo voru það hlaupin. Eftir þennan dag var svolítil luðra í mér þegar að ég vaknaði þarna sjö og fór í hlaupafötin. Ræddi hlaupaplön við Hannes sem sagði að það hlyti að vera í lagi að svindla ærlega á prógrömmum í sumarfrí svo ég fór aftur úr hlaupagallanum og í rúmið. Lá þar í klukkutíma, fór aftur í hlaupafötin og hljóp af stað út í Cascino garðinn. Núna sagðist garmurinn vera batteríslaus svo ég gaf skít í tíma (og það var skynsamlegt) og skokkaði rólega af stað. Úff, ofan í hitann er nú rakara en nokkru sinni og mér fannst orðið erfitt að anda. Margir að hlaupa og ganga í garðinum og til að breyta til hljóp ég suður yfir á og meðfram henni og yfir næstu brú til baka yfir í garðinn. Þar sem ég hljóp rennsveitt eftir stígnum hljóp ég inn í mýfluguský og fann þær límast allar við andlitið á mér, háls og hendur. Reyndi að ná þeim af með bolnum mínum en gekk ekki vel. Fann vatnshana þegar ég kom í garðinn og þreif mig aðeins betur. Við endann á garðinum var ég orðin grútmáttlaus (10 km) og sá að hjónin í græna veitingaskúrnum voru mætt og farin að setja út borð og stóla. Hljóp til þeirra og fékk að kaupa hjá þeim orkudrykk, einhvers konar Gatorate og settist hjá þeim á bekk og svalg drjúgum. Fann að þetta gerði mér svo gott að þegar ég stóð upp úr eigin svitapolli gat ég næstum stokkið af stað á ný og ef ég hefði ekki verið svona rennandi sveitt og subbuleg hefði þetta næstum verið eins og í auglýsingu á orkudrykk. Sem betur fer var bakríið lokað því um það bil sem ég var þar var svitinn farinn að leka niður úr buxunum mínum sem sveifluðust rennandi blautar um lærin og ég kunni eiginlega ekki við að fara inn neins staðar nema heima hjá mér.

Þannig er það. Ég skulda í þessari viku um 10 km en ætla að láta það sem komið er duga. Siggi Pé hlýtur að skilja að hér í hitanum er hver kílómetri á við tvo ... þannig að ég er eiginlega búin að hlaupa 102 km en ekki 51 í vikunni!

laugardagur, 3. júlí 2010

Er hundur í mér?

Jæja heldur ætla ég að renna á rassinn með hlaupaprógrammið þessa seinni Flórensvikuna. Þar leggst allt á eitt, það hlýnar og hlýnar og ég verð minna hlaupaviljug. Reyndar gleymist það í kílómetratalningunni að ég er ekki fyrr komin heim af hlaupum að við skötuhjú stefnum gangandi út í óvissuna og vöppum hér út og suður alla daga fleiri, fleiri kílómetra. Vaknaði í vikunni með endalausa krampa í hægri fæti og ákvað að það væri skilaboð að handan um að liggja flöt áfram í rúminu og sofa fram á miðjan morgun frekar en að fara út að hlaupa. En í morgun vaknaði ég snemma og var komin út að hlaupa kl. 7 (þ.e. ég var komin út á götu kl. 7 en svo tók næstum 10 mínútur fyrir garminn að finna sér túngl!). Núna var ég næstum ein á ferli utan sanntrúaðra sem kyrjuðu tíðasöng í þeim kirkjum og klaustum sem ég hljóp framhjá. Nú er ég eiginlega hætt að leita að nýjum leiðum og meira farin að búa til nýjar útgáfur með því að blanda saman gömlum leiðum. Það gerir ferðirnar minna spennandi og ég er t.d. alveg hætt að villast.

Í morgun tók ég strauið niður á Anconella garðinn. Þeir eru nokkrir garðarnir hér í Flórens sem ég hef kynnst á hlaupunum. Sumir eru ekki mjög hlaupavænir. Man að í fyrra ákváðum við Hannes að fara í Boboli garðinn í sólbað. Roguðust þangað með teppi, sólarolíu, vatn og reifara og höfðum ekki hugmynd um að það er álíka gæfulegt að ætla sérí sólbað þar og á Listasafni Íslands. Fyrir það fyrsta þarf maður að borga sig inn og þegar inn er komið gengur maður prúður um stíga og skoðar styttur. Við Hannes spiluðum okkur kúl og roguðumst með sólbaðsdótið um allar trissur. Mér hefur verið tíðrætt um Cascine garðinn enda er hann stærsti sinnar tegundar hér í Flórens (og þar er frábær markaður á þriðjudagsmorgnum) en Anconella garðurinn er samt í sérstöku uppáhaldi. Ég varð svo glöð að koma þangað í morgun að ég stoppaði úrið og leyfði mér að leika mér smá. Fyrst fór ég í röð við góðavatnsbrunninn en það er krani sem dælir úr sér sérstöku, freyðandi gæðavatni. Í morgun voru þrír á undan mér með stórar tuðrur og kassa fulla af 2 l flöskum sem þeir fylltu ár í gríð og erg. Maðurinn á undan mér hleypti mér svo fram fyrir sig með mína hálfslítra. Í garðinum eru svo tvær tjarnir, í annarri eru skjaldbökur en hinni gullfiskar og sumir vel matvænir að stærð. Stoppaði lengst við æfingatækin og gerði 10 magaæfingar og 10 armbeygur til að hafa nú að minnsta kosti prófað. Þetta var mikið morgunfjör. Kvaddi garðinn og bætti við einni auka Arnóbrú til að lengja smá og fór þá að hugsa um hunda. Við hlaupafélagar heima á Fróni erum stundum að ergja okkur á íslenskum hundaeigendum sem ítrekað brjóta allar reglur um að hafa hundana sína í bandi. Þeir koma svo blessaðir, flaðrandi og geltandi upp að hlaupandi fólki og sýni maður pirring er eins víst að hundaeigandinn setji upp undrunarsvip og segi: Ó ertu eitthvað hrædd við hunda? Minn er ótrúlega góður en hann bara hvolpur og finnst það bara leikur að hanga svona í buxnaskálmunum á þér! Þetta fer ótrúklega í taugarnar á mér en af því ég veit að þetta skrifast á heimska hundaeigendur en ekki hundana sjálfa hefur mér stundum dottið í hug að stökkva upp um hundaeigandann, fella hann ljúflega og sleikja hann svo og narta smá í hann og biðja hlaupafélagana mína að segja við eigandann þar sem liggur (vondandi skíthræddur á Ægissíðustígnum): Ó ertu hræddur við hana. Ekki vera það, hún er voða góð en bara í svolitlu stuði í dag. Hér í Flórens býr ógrynni af hundum af öllum tegundum og á morgnana hittir maður þá í hund(rað)avís hér í görðunum. Og út um alla borg. Og af þessum grilljón hundum sem ég hef hitt síðustu vikur hafa tveir gelt að mér. Tveir. Öllum hinum hefur verið kennt að lifa og búa í borg. Fái hundarnir að hlaupa frjálsir á skógarstígum eða í görðum bregst ekki að eigendur kalla eða blístra á sinn hvutta sem kemur skottandi til hans og stendur eða jafnvel liggur grafkyrr á meðan ég silast framhjá. Hér eru reglurnar einfaldar og skýrar og það er farið eftir þeim. Mikið held ég að íslenskir hundaeigendur gætu lært af því að skokka smá í Flórens.

fimmtudagur, 1. júlí 2010

Skuggabaldur fer í bakarí


Kominn júlí og enn hefur hitinn hækkað hér í Flórens. Það dugar mér að sitja á stól og anda til að svitna vel og rækilega. Í daglegum túr um borgina eru kirkjur, bankar og betri búðir orðið eina skjól mitt. Þar er skuggsælt og svalt. Í morgun lagði ég í hann upp úr hálfátta en þá hafði sólin haft eina þrjá tíma til að velgja þennan hluta heimsins og staðið sig frammúrskarandi. Ég ákvað að hlaupa niður í Cascine garðinn því þar er einna helst hægt að finna skjól undir trjákrónum. Reyndar voru þá borgaryfirvöld búin að loka drjúgum parti garðsins þar sem fallin tré liggja þvers og kruss eftir stórveður á 17. júní. Þeir eru seinni á sér hér að laga það sem aflaga fer en í Póllandi. Þar mátti maður varla missa kortið sitt á stéttina án þess að því hefði þrifalega verið sópað upp. Kannski er enginn vinnuskóli hér í Flórens? Samkvæmt prógrammi Sigga átti ég leika mér í fartleik sem felst í því að taka alls konar skemmtilega spretti inn á milli hefðbundins hlaups. Það gat ég bara engan veginn nema að maður megi kalla það fartleik að hlaupa silalega og standa svo grafkyrr þess á milli á gatnamótum. Það er auðvitað mismunandi hraði ef út í það er farið! Datt í hug að bæta aðeins við dagsskammtinn til að auðvelda mér restina af vikunni en þegar ég var búin að vinda úr hlaupatoppnum mínum á einum gatnamótunum ákvað ég að fara bara heim. Ég fann mér smá möntru að kyrja á heimleiðinni. Hún var svona: hiti er bara hugarástand- hiti er bara hugarástand - hiti er bara hugarástand (þetta er ný útgáfa af hefðbundinni möntru sem gengur út á að þreyta sé bara hugarástand) en mér kólnaði eiginlega ekkert við þetta. Ég fann hins vegar nýtt bakarí á heimleiðinni og er alveg að verða sérfræðingur í þeim. Í þessu bakaríi voru 168 tegundir af alveg eins hvítu brauði en svo tvær öðru vísi. Keypti þá til hægri sem reyndist heiðgult sojabrauð með hveitikjörnum - og reyndist við frekari kynni alveg ljómandi gott.

þriðjudagur, 29. júní 2010

Um fyrirmyndir


Kosturinn við að fara einn út að hlaupa (nú er ég að rembast við að finna einhvern kost við það því ég er svo voðalega fjarri mínum góðu hlaupafélögum) er að maður hefur næði til að hugsa. Kannski þarf það ekki endilega að vera kostur...fer líklega eftir því hvað maður er að hugsa um. Ég hleyp reyndar oft með ipodinn minn en hérna ytra ekki í eyrunum heldur hef ég hann með til vonar og vara ef ég væri nú alveg að springa á limminu. Mér finnst ipodinn góður til að einangra mig frá umhverfinu en hér vil ég gjarnan vera vakandi fyrir því og ná við það örlitlu sambandi. Og þá hef ég sem sagt næði til að hugsa. Vaknaði í morgun nokkuð snemma til að ná morgunkulinu (ef hægt er að kalla þetta uppundir 25 gráður kul!) og kíkti yfir íslenskar fréttir áður en stökk af stað. Þar var verið að segja frá verkefni á vegum Vigdísarstofnunar (ef ég las þetta rétt) sem felst í því að senda fyrirmyndum sínum bréf. Og með þetta í huga hljóp ég niður síkjaleiðina mína í áttina að Cascino garðinum. Ég reyndi fyrst að finna út úr því hver væri mín fyrirmynd í lífinu og fann það út rétt niður við Arnó að það er engin ein heldur á ég mér fjölmargar fyrirmyndir. Þurfti aðeins að gera hlé á þessum hugsunum til að komast yfir brúna Ponte della Vittoria en þar var vitlaus bílaumferð svo ég gafst upp og hljóp þess í stað í kringum hringtorgið við brúarendann og þurfti að fara yfir 7 gangbrautir á leiðinni - og það hugsar engin neitt við þær aðstæður nema að bjarga eigin skinni. Þá tók við nokkuð bein og breið braut eftir bakka Arnó vitlausum megin (þ.s. suðurmegin þar sem túristarnir eru síður). Og ég gat áfram farið að hugsa um fyrirmyndirnar. Án nokkurs efa eru foreldrar mínir mér sterkar fyrirmyndir. Til þeirra sæki ég sterka þræði í lífssýn minni og viðhorfum til heimsins. Og dóttlan mín er líka mikilvæg fyrirmynd (börn geta öruggleg bæði verið fyrirmynd og eftirmynd foreldra sinna) En svo á ég mér mínar sterku fyrirmyndir í starfi, samstarfsfólk sem ég dáðst að og lært af. Og vinir, úff heldur betur hef ég lært mikið af þeim. Að einfalda líf sitt t.d.! Þegar þarna var komið sögu var ég búin að beygja aftur yfir Arnó og kominn að stóru götunni heim og þar er ég eiginlega búin að eignast vin. Götusölumaður, dökkur strákur sem stendur með sinn samtíning af alls konar vörum við götuhorn er farinn að kannast við mig eftir að ég heilsaði honum með virktum (á ítöslu auðvitað) um daginn og nú brosum við breitt hvort til annars. Og þar fór ég að hugsa um fyrirmyndir mínar í hlaupum. Reyndi að rifja upp alls konar fræga hlaupara í sögunni, bæði útlenska og íslenska en áttaði mig á því að þeir eru ekki mín fyrirmynd (enda væri ég þá líklega í vanda stödd hlaupalega). Mínar fyrirmyndir í hlaupum er venjulegu hlaupararnir, hlaupararnir sem maður kinkar glaðlega kolli til þegar við mætumst á stígum borgarinnar en ekki síst félagarnir sem ég hleyp með dags daglega. Hlaupafélagarnir mínir eru margir og ólíkir en allir hafa þeir hver og einn á sinn sérstaka hátt verið mér til fyrirmyndar. Til sumra horfi ég vegna seiglunnar (hugsa kannski við erfiðar aðstæður: Þetta myndi nú X klára .... og held áfram miklu lengur en ég hélt ég gæti) og annarra vegna skynseminnar (þetta myndi nú Y ekki þykja skynsamlegt, það er best ég láti það vera). Líklega dáist ég mest að því hvað þeir eru assgoti gott fólk. Þegar hér var komið sögu var ég komin upp í bakarí og reyndi þar að láta sem það væri eðlilegasti hlutur í heimi að standa í svitapolli og biðja um pane soya cereali (eða eitthvað svoleiðis sem ég segi til að fá eitthvað annað en hvítt brauð). Þegar ég hljóp síðasta kílómetrann heim með brauðið var ég að velta því fyrir mér hvers vegna hlauparar væru svona gott fólk. Er það frekar gott fólk en slæmt sem ákveður að fara út að hlaupa eða eru það hlaupin sem gera fólk gott? Þar með var ég komin í Pelligrinogötu 15 og ákvað að bera þessar hugleiðingar mínar ekki undir Hannes sem telur hlaupa helst eiga það sameiginlegt að vera vitleysingar.

sunnudagur, 27. júní 2010

Parca della Anconella


Hálfstressuð að fara út að hlaupa í morgun eftir erfiðleika gærdagsins en þar sem ég þurfti aðeins 10 km til að standast mína vikupligt ákvað ég að drífa mig af stað. Sunnudagur og ég fyrr á ferð en í gær svo það var rólegt á leiðinni og ég mætti bara einstaka konu í hvítum kjól - kannski á leið í kirkju. Las í gær eitthvað um garð sunnan ár sem mig langaði að skoða svo ég tók gamla staujið niður Markúsargötu og niður að Arná. Fór suðuryfir á næstu brú og skokkaði eftir dúnmjúkum stíg meðfram ánni sunnan megin. Líklega býr yngra fólkið sunnan ár en það eldra norðan því hér í Anconella garðinum fór ég ekki framúr neinum heldur skutust myndarlegir menn og ungar konur framhjá mér í röðum. Það tók sinn tíma að hlaupa út að sjálfum garðinum en hann reyndist líka hlaupsins virði. Þarna eru t.d. ein fimm æfingatæki fyrir hlaupara (og aðra) til að teygja og toga alls konar vöðva, tveir fallegir gosbrunnar og í öðrum búa skjaldbökur. Ég var alsæl að hlaupa þarna einn hring áður en ég sneri við og hljóp sömuleið til baka með smá aftursting þar sem 'mitt' bakarí var lokað og ég þurfti að snúa við til að komast í næsta. Var ekki nærri eins illa haldin og í gær en í dag passaði ég mig líka á því að fara bara fetið. Þó að hitinn væri ekki alveg eins viðskotaillur og í gær voru flugubit talsvert að angra mig. Hér bíta mig örugglega ólíkar flugur því að bitsárin eru svo eðlisólík. Sum eru nokkuð meinlaus en önnur kalla fram ískyggilegan kláða. Ég skil vel flugur (eða hvaða dýr þetta eru) sem ráðast á mig á alls konar viðkvæmum líkamssvæðum eins og hálsi og örmum en hvað fékk sú sem nennti að bora sig í gegnum iljarnar á mér fyrir sinn snúð. Hér hef ég trassað árum saman að hugsa um þennan mikilvæga líkamshluta og smátt og smátt komið mér upp fínum náttúrulegum leðursólum. Og í gegnum þá fannst þessari flugu ástæða til að bora og það þrisvar sinnum. Fyrir vikið klæjaði mig endalaust undir hægri ilina og prófið bara að klóra ykkur þar á hlaupum! En þetta gekk og ég var fjarska glöð að fylla inn síðustu kílómetrana í vikuprógramminu og hafa komist heila tvo yfir tilskilinn skammt.


Verstu afleiðingar hlaupanna hér ytra er gleði mín og kátina yfir nýuppgötvuðum slóðum. Ég kem heim móð og sveitt og dreg svo aumingja Hannes stuttu síðar sömu leið og ég hef hlaupið árla - og hann er sko ekki að æfa fyrir eitt eða neitt. Þannig þurfti hann í dag í eldheitri hádegissól að rölta með mér sömu leið og ég hafði farið í morgunsárið til að sjá með eigin augum Anconella garðinn. Þaðan lá svo leiðin áfram út um allan bæ þannig að í dagslok höfðum við lagt að baki 8 tíma göngu og vorum bæði orðin verulega máttfarin. Við vorum þá reyndar á þessari leið búin að villast út fyrir bæjarmörk Flórens, fá far með elskulegri ítalskri konu á réttar slóðir, sitja á 'baðströnd' og horfa á Þjóðverja baka Englendinga á stórskjá, setjast hálfgrátandi af hungri og þorsta á Rósarkaffið og standa í röð í rúman klukkutíma á lestarstöðinni til að kaupa lestarmiða til Lucca áður en við tókum strætó heim. Hannes vill fá gps mælingar á sínar göngur hér ytra.

laugardagur, 26. júní 2010

Garmar tveir




Það er sko ekki hlaupið að því að halda í við prógrammið frá Sigga Pé hér í útlandinu. Í morgun hélt ég svo sannarlega að mér væru allir vegir færir. Letidagur að baki og hvíld frá hlaupum, þokkalega lítil rauðvínsdrykkja í gærkvöldi og þegar ég vakaði upp úr 7 sýndist mér bara kalt úti. Prógrammið sagði reyndar 0 í dag en 10 í gær en af því ég var með hlaupaskuld á bakinu eftir ferðadaginn ákvað ég að fara í það minnsta 16. Dróst að ég færi á stað því þegar ég stóð klár út á götu sagði garmurinn að eftir væru 0 tímar af rafhlöðunni. Garmurinn er að verða hálfgerður garmur og þó ég hlaði og hlaði upp í 14 klukkustundir klárar hann þær á sama tíma og ég og restin af heiminum mælir um 3-4. Mér finnst merkilegt að hafa hlaupið yfir helming míns hlaupalífs án garms og man ekki betur en að mér hafi liðið fjarska vel án þess að hafa hugmynd um nákvæmar vegalengdir eða hraða á hverjum tíma. Núna missi ég mátt um leið og garmurinn tæmist jafvel þó ég sé að fara Neshringinn í billjónasta skiptið og ólíklegt að sú vegalengd taki stórum breytinum á milli daga. Þurfti því að hlaupa aftur upp í íbúð og hlaða smá meðan ég kláraði Ragnar í Smára sem eflaust er komin í bullandi sekt á í bókasafninu. Held að Ragnar í Smára hefði haft gott af því að hlaupa. Hann hefur augsýnilega verið ofvirkur og haft ríka þörf fyrir að hreyfa sig þó það sé lítið talað um þá hlið í bókinni. Nú, nú kvaddi Ragnar og Hannes og fór með hleðslu til 2 tíma á garminum og ákvað að blanda saman þekktum leiðum þ.e. austurleiðinni niður að Arno, meðfram Arnó, garðinn endilagan fram og til baka og svo heim. Það reyndist rangt mat hjá mér að sólarleysi hér merki kulda og ég ekki búin með 3 km þegar ég var orðin sjóðandi, bullandi heit og þegar ég kom út í garð (6km) var hlaupið farið að þyngjast. Tek eftir því að ég hef tilhneigingu til að hlaupa hraðar en samhlaupamenn mínir hér og af því ég telst nú tæpast hröð sýnir þetta að innfæddir eru skynsamari en ég í hitanum. Komst nokkuð eðlilega út að garðsenda en var í mesta basli með að hlaupa hann til baka. Var farin að lofa sjálfri mér smá göngu eftir hvern áunninn kílómetra ásamt sopa af moðvolgu vatni. Þetta trikk kom mér út úr garðinum á ný áfallalaust. Hélt að kaflinn heim meðfram umferðinni yrði slæmur en þá fékk ég vindgust sem kældi og kætti og við síkin vissi ég að ég myndi ná lifandi á leiðarenda. Tók meira að segja aukarúnt um Pelligrinogarðinn til að ná upp í 17 en hefði aldrei fengið verðlaun fyrir hlaupastíl þegar þarna var komið. Skreiddist upp stigana heima, drakk vatn, drakk íste, drakk vatn, drakk djús og sagði við Hannes ég væri nú eiginlega farin að efast um hversu hollt það væri að hlaupa. Hann sagðist aldrei hafa efast um að það væri óhollt.

föstudagur, 25. júní 2010

Balena rossa


Ég var með seinni skipunum út úr húsi þennan þriðja hlaupadag í Flórens og í dag hafði sólin ákeðið að fela sig ekki bak við ský. Það var reyndar sérstakur hátíðisdagur og frídagur til heiðurs heilögum Giovanni, dýrðlingi borgarinnar svo ég hafði reiknað með minni bílaumferð sem var nú raunin. Langaði að prófa enn eina leið svo nú skokkaði ég af stað frá Pellagrino og í austur niður með stórmarkaðnum og bakríinu og beint strik niður að ánni Arno. Villtist einu sinni á leiðinni en með því að veifa höndum og hrópa Arno, Arno fékk ég leiðsögn hjá gömlum manni með dagblað. Það er gaman að hlaupa meðfram ánni og nokkuð túristarólegt þó liðið væri á morguninn. Mér var samt orðið verulega heitt og fegin að hafa tekið með mér vatnsflösku. Svitinn spratt fram og rauði hlírabolurinn var orðinn gegndrepa. Reyndi að bera mig mannarlega á frægustu stöðunum en másaði og blés þegar ég komst í hvarf við ferðamenn. Reiknaði út í sjóðheitum haus að þessi hringur yrði líklega með styttra móti þannig að þegar ég kom að mínum ástkæra Cascinogarði hljóp ég stuttan 2 km hring þar áður en ég hélt áfram áleiðis upp á síki og heim. Þarna voru lappirnar orðnar 100 kg og ég eins og rauður, sveittur fýsibelgur sem skýrir líklega af hverju konur og börn tóku á sprett út af stígnum þegar ég mjakaðist másandi framhjá hrópandi balena rossa!!!! Verst var að komast í Pelligrinogötuna og eiga eftir 500 metra sem ég kláraði með því að hlaupa götuna upp og niður, nágrönnum til mikillar undrunar. Mikið var gott að komast heim. Á morgun ætla ég að taka mér hlaupafrí og þá get ég drukkið ítalskt rauðvín fram á nótt ... ef ég vil.

fimmtudagur, 24. júní 2010

Parce delle Cascine


Jæja hlaupadagur 2 í Flórens. Í gær benti túristaupplýsingakona mér á Cascinegarðinn sem góðan hlaupastað en þegar ég sýndi henni Pelligrinogötuna okkar hristi hún hausinn, veifaði höndum og sagði Nonononon... to looooooong-eh og átti þá við að það væri allt of langt fyrir mig að hlaupa að heiman og niður í garð. Af áhættufíkn ákvað ég að láta samt slag standa, vaknaði snemma og var komin af stað upp úr átta. Veðrið dásamlegt, ský fyrir sólu og ég búin að kortleggja leiðina vandlega í huganum. Til vonar og vara tók ég með mér kort sem er til lítils gagns því ég get ekki verið að hlaupa með gleraugun svona eftir að hafa farið í laseraðgerð til að losna við þau á hlaupum. Ég sá þó í móðu helstu útlínur borgarinnar og lét það duga. Síkisleiðin niður að garði er nokkuð ljúf, þar þarf ég bara að slást við einstaka hjólreiðamann um pláss en ekki fljúgandi bílaumferð. Villtist aðeins eftir síkin en fann mig aftur með aðstoð innfæddra. Soooo looooong-eh leiðin reyndist þrír og hálfur kílómetri þannig að líklega stundar konan á túristaskrifstofunni ekki langhlaup. Var hálf hissa að vera komin þangað svona áreynslulaust. Cascine garðurinn er meiriháttar og ég trúi því ekki að ég hafi komið hingað tvisvar áður án þess að vita af honum. Þarna eru skjólsælir skógarstígar, grænar flatir, hundar með eigendur sína í bandi og auðveldlega hægt að smeygja sér niður að bökkum Arno og hlaupa þar á enn mýkri stíg. Og hér voru þeir allir földu hlauparar Flórensborgar. Ég reyndi að heilsa sumum eins og maður gerir alltaf heima en það er líklega ekki siður hér því þeir voru fáir sem kinkuðu kolli til baka. (Seinna sama dag fór ég svo aftur í garðinn með Hannes til að sýna honum öll tréin sem fallið höfðu um koll í stormi á 17. júní og þá fundum við örbar þar sem rauðvínið kostar eina evru og er serverað í fleytifullu vatnsglasi!). Tók stóran hring um allan garð áður en ég skokkaði aftur heim á leið og var nú mun fljótari í förum af því ég villtist ekkert og þurfti að taka smá hring í grasagarðinum hér við hliðina á til að ná planaðri vegalengd. 15 km - kannski ekki neitt langhlaup en ég alsæl með árangurinn. Þetta er (enn) einn kosturinn við hlaupin - maður finnur oft hliðar á nýjum stöðum sem aðrir fá ekki að sjá.

þriðjudagur, 22. júní 2010

Hlaupið að heiman


Af því að við mennirnir gleymum svo fljótt því liðna er ég enn einu sinni búin að skrá mig í maraþon. Ekkert nema gott um að það að segja. Skráði í mig í janúar og þá voru ár og aldir í 26. september. En svo flýgur tíminn áfram og nú er ég komin með prógram frá Sigga Pé á excelskjali sem sýnir svart á hvítu hvað ég á að vera að hlaupa í hverri viku (og svo er annar dálkur fyrir raunveruleikann). Það getur verið erfitt að halda í við prógrammið heima á Íslandi en þegar stefnan er tekin á útlönd versnar verulega í því. Í gær flaug ég ásamt karli til Flórens í tveggja vikna sumardvöl - nokkuð sem flestir myndu telja til forréttinda sérstaklega nú á krepputímum. Og ég er svo sem ekki að barma mér en yfir og alltumkring er samt spurningin um hvernig ég á að koma því við að hlaupa 60 km á viku hér ytra. Prógrammið fór eiginlega í vaskinn áður en ég var mætt á ítalska grund. Í excelskjalinu frá Sigga Pé stóð: Mánudagur, ferðalag erlendis rólegir 12 km. Ókey - ég var mætt út í Leifsstöð með morgunstjarfan svip um kl. 5 - flaug (á réttum tíma!) með Iceland Express til Billund. Þar vöppuðum við hjúin hringinn í kringum Legoland, skoðuðum styttur, borðuðum bakarísbrauð og drukkum einn grænan - ágætist göngutúr en engan vegin 12 km rólegt hlaup. Frá Legolandi með Ryanair til Pisa og eins þeir vita sem flogið hafa með þessum laggjaldaflugfélögum bjóða aðstæður upp á lítið annað en að æfa sig í að sitja með grafkyrrar fætur og óska þess að þeir væru úrbeinaðir. Frá Pisa til Flórens með lestinni og þegar við hentum okkur til svefns á eldhúsgólfinu hjá stjúpsyninum um miðnætti voru hlaup fjarska fjarri allri hugsun.

Vaknaði nokkuð hress í morgun og vissi að í dag sagði excelskjalið aftur 12 km. Lá lengi og fann ýmsar ástæður fyrir þvi að fara ekki út að hlaupa. Fann að ég var lúin í fótunum bæði eftir lággjaldaflugið en ekki síður eftir frábæra gönguferð á Sveinstind í Öræfajökli á laugardag. Það telst kannski ekki með í excelskjalinu en 28 km ganga í yfir 2000 m hæð á 16,5 tímum skilur eftir sig minningar í hnjánum á mér. Nú svo fann ég enga lykla að íbúðinni og sagði sjálfri mér að það væri ekki kurteisi að vekja húsráanda til að fá eitt sett. Sannleikurinn er samt sá að ég á oft erfitt með að fara út að hlaupa á nýjum stað. Mér finnst það erfið tilhugsun að finna leið sem hentar, eiga á að hættu að rata ekki heim og koma mér í einhverjar ógöngur almennt. En eftir að þeir feðgar voru vaknaðir og lyklarnir fundnir var ekki um annað að ræða en að skrölta af stað. Ákvað að þetta yrðu ekki neinir 12 km heldur stutt kynnisferð til að taka út nágrennið, veðurfar, hitastig og svona viðhorf infæddra til hlaupara. Fór hægt að stað úr Pelligrinigötunni okkar og beint í óvænt brekkuhlaup í koltvísýringsskýi. Hér koma bílar og vespur brunandi upp og niður götur og flauta óvægið ef eldri konur í hlaupagalla hætta sér út á götu. Fann samt garð og hljóp hann fram og aftur (það tók 5 mínútur). Hélt áfram upp í móti (til Bologna stóð á skiltinu) eftir örmjórri gangstétt sem varla rúmaði báða fætur í einu. Sú stétt endaði svo í vegg og þá þorði ég ekki lengra. Sem betur fer fann ég lítinn göngustíg á hægri hönd sem reyndist ekki bara vera bílagata heldur átti þarna að vera pláss yfir bíla í báðar áttir. Var fjarska glöð yfir lítilli umferð. Gatan endaði í stíg sem virtist helst gamall árfarvegur og ég taldi næsta ófæran þar til gömul kona kom töltandi upp hann með plastpoka í báðum höndum. Hljóp niður stíginn innan um grænar eðlur og fannst nú loksins orðið verulega gaman að vera úti að hlaupa. Kom niður að á og var aftur farin að kannast við mig og orðin öryggið uppmálað þar sem ég sikksakkaði framhjá vegfarendum, innan um morgunmarkaðinn, yfir lestarteina og niður undirgöngin. Garmurinn lenti af og til í vandræðum með himintunglin en tikkaði að öðru leyti rólega inn kílómetrana. Náði 6 km með því að taka aukaferð upp og niður Pelligrine og var merkilega montin að hafa yfirhöfuð komist aftur heim. Ísinn var brotinn og í dag fór ég niður í upplýsingamiðstöð til að fá upplýsingar um góðar hlaupaleiðir. Konurnar þar voru önnum kafnar við að segja túristum frá söfnum, höllum, tónleikum og skoðanaferðum og augsýnilega ekki vanar spurningum eins og mínum. Náðu samt í eina á bak við sem skokkar og saman skoðuðum við kort út og suður með hlaup í huga. Nú verður spennandi að sjá hvernig fer. Ásetningurinn er góður en verst það er rauðvínið hérna líka!