Jæja heldur ætla ég að renna á rassinn með hlaupaprógrammið þessa seinni Flórensvikuna. Þar leggst allt á eitt, það hlýnar og hlýnar og ég verð minna hlaupaviljug. Reyndar gleymist það í kílómetratalningunni að ég er ekki fyrr komin heim af hlaupum að við skötuhjú stefnum gangandi út í óvissuna og vöppum hér út og suður alla daga fleiri, fleiri kílómetra. Vaknaði í vikunni með endalausa krampa í hægri fæti og ákvað að það væri skilaboð að handan um að liggja flöt áfram í rúminu og sofa fram á miðjan morgun frekar en að fara út að hlaupa. En í morgun vaknaði ég snemma og var komin út að hlaupa kl. 7 (þ.e. ég var komin út á götu kl. 7 en svo tók næstum 10 mínútur fyrir garminn að finna sér túngl!). Núna var ég næstum ein á ferli utan sanntrúaðra sem kyrjuðu tíðasöng í þeim kirkjum og klaustum sem ég hljóp framhjá. Nú er ég eiginlega hætt að leita að nýjum leiðum og meira farin að búa til nýjar útgáfur með því að blanda saman gömlum leiðum. Það gerir ferðirnar minna spennandi og ég er t.d. alveg hætt að villast.
Í morgun tók ég strauið niður á Anconella garðinn. Þeir eru nokkrir garðarnir hér í Flórens sem ég hef kynnst á hlaupunum. Sumir eru ekki mjög hlaupavænir. Man að í fyrra ákváðum við Hannes að fara í Boboli garðinn í sólbað. Roguðust þangað með teppi, sólarolíu, vatn og reifara og höfðum ekki hugmynd um að það er álíka gæfulegt að ætla sérí sólbað þar og á Listasafni Íslands. Fyrir það fyrsta þarf maður að borga sig inn og þegar inn er komið gengur maður prúður um stíga og skoðar styttur. Við Hannes spiluðum okkur kúl og roguðumst með sólbaðsdótið um allar trissur. Mér hefur verið tíðrætt um Cascine garðinn enda er hann stærsti sinnar tegundar hér í Flórens (og þar er frábær markaður á þriðjudagsmorgnum) en Anconella garðurinn er samt í sérstöku uppáhaldi. Ég varð svo glöð að koma þangað í morgun að ég stoppaði úrið og leyfði mér að leika mér smá. Fyrst fór ég í röð við góðavatnsbrunninn en það er krani sem dælir úr sér sérstöku, freyðandi gæðavatni. Í morgun voru þrír á undan mér með stórar tuðrur og kassa fulla af 2 l flöskum sem þeir fylltu ár í gríð og erg. Maðurinn á undan mér hleypti mér svo fram fyrir sig með mína hálfslítra. Í garðinum eru svo tvær tjarnir, í annarri eru skjaldbökur en hinni gullfiskar og sumir vel matvænir að stærð. Stoppaði lengst við æfingatækin og gerði 10 magaæfingar og 10 armbeygur til að hafa nú að minnsta kosti prófað. Þetta var mikið morgunfjör. Kvaddi garðinn og bætti við einni auka Arnóbrú til að lengja smá og fór þá að hugsa um hunda. Við hlaupafélagar heima á Fróni erum stundum að ergja okkur á íslenskum hundaeigendum sem ítrekað brjóta allar reglur um að hafa hundana sína í bandi. Þeir koma svo blessaðir, flaðrandi og geltandi upp að hlaupandi fólki og sýni maður pirring er eins víst að hundaeigandinn setji upp undrunarsvip og segi: Ó ertu eitthvað hrædd við hunda? Minn er ótrúlega góður en hann bara hvolpur og finnst það bara leikur að hanga svona í buxnaskálmunum á þér! Þetta fer ótrúklega í taugarnar á mér en af því ég veit að þetta skrifast á heimska hundaeigendur en ekki hundana sjálfa hefur mér stundum dottið í hug að stökkva upp um hundaeigandann, fella hann ljúflega og sleikja hann svo og narta smá í hann og biðja hlaupafélagana mína að segja við eigandann þar sem liggur (vondandi skíthræddur á Ægissíðustígnum): Ó ertu hræddur við hana. Ekki vera það, hún er voða góð en bara í svolitlu stuði í dag. Hér í Flórens býr ógrynni af hundum af öllum tegundum og á morgnana hittir maður þá í hund(rað)avís hér í görðunum. Og út um alla borg. Og af þessum grilljón hundum sem ég hef hitt síðustu vikur hafa tveir gelt að mér. Tveir. Öllum hinum hefur verið kennt að lifa og búa í borg. Fái hundarnir að hlaupa frjálsir á skógarstígum eða í görðum bregst ekki að eigendur kalla eða blístra á sinn hvutta sem kemur skottandi til hans og stendur eða jafnvel liggur grafkyrr á meðan ég silast framhjá. Hér eru reglurnar einfaldar og skýrar og það er farið eftir þeim. Mikið held ég að íslenskir hundaeigendur gætu lært af því að skokka smá í Flórens.
laugardagur, 3. júlí 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli