þriðjudagur, 22. júní 2010

Hlaupið að heiman


Af því að við mennirnir gleymum svo fljótt því liðna er ég enn einu sinni búin að skrá mig í maraþon. Ekkert nema gott um að það að segja. Skráði í mig í janúar og þá voru ár og aldir í 26. september. En svo flýgur tíminn áfram og nú er ég komin með prógram frá Sigga Pé á excelskjali sem sýnir svart á hvítu hvað ég á að vera að hlaupa í hverri viku (og svo er annar dálkur fyrir raunveruleikann). Það getur verið erfitt að halda í við prógrammið heima á Íslandi en þegar stefnan er tekin á útlönd versnar verulega í því. Í gær flaug ég ásamt karli til Flórens í tveggja vikna sumardvöl - nokkuð sem flestir myndu telja til forréttinda sérstaklega nú á krepputímum. Og ég er svo sem ekki að barma mér en yfir og alltumkring er samt spurningin um hvernig ég á að koma því við að hlaupa 60 km á viku hér ytra. Prógrammið fór eiginlega í vaskinn áður en ég var mætt á ítalska grund. Í excelskjalinu frá Sigga Pé stóð: Mánudagur, ferðalag erlendis rólegir 12 km. Ókey - ég var mætt út í Leifsstöð með morgunstjarfan svip um kl. 5 - flaug (á réttum tíma!) með Iceland Express til Billund. Þar vöppuðum við hjúin hringinn í kringum Legoland, skoðuðum styttur, borðuðum bakarísbrauð og drukkum einn grænan - ágætist göngutúr en engan vegin 12 km rólegt hlaup. Frá Legolandi með Ryanair til Pisa og eins þeir vita sem flogið hafa með þessum laggjaldaflugfélögum bjóða aðstæður upp á lítið annað en að æfa sig í að sitja með grafkyrrar fætur og óska þess að þeir væru úrbeinaðir. Frá Pisa til Flórens með lestinni og þegar við hentum okkur til svefns á eldhúsgólfinu hjá stjúpsyninum um miðnætti voru hlaup fjarska fjarri allri hugsun.

Vaknaði nokkuð hress í morgun og vissi að í dag sagði excelskjalið aftur 12 km. Lá lengi og fann ýmsar ástæður fyrir þvi að fara ekki út að hlaupa. Fann að ég var lúin í fótunum bæði eftir lággjaldaflugið en ekki síður eftir frábæra gönguferð á Sveinstind í Öræfajökli á laugardag. Það telst kannski ekki með í excelskjalinu en 28 km ganga í yfir 2000 m hæð á 16,5 tímum skilur eftir sig minningar í hnjánum á mér. Nú svo fann ég enga lykla að íbúðinni og sagði sjálfri mér að það væri ekki kurteisi að vekja húsráanda til að fá eitt sett. Sannleikurinn er samt sá að ég á oft erfitt með að fara út að hlaupa á nýjum stað. Mér finnst það erfið tilhugsun að finna leið sem hentar, eiga á að hættu að rata ekki heim og koma mér í einhverjar ógöngur almennt. En eftir að þeir feðgar voru vaknaðir og lyklarnir fundnir var ekki um annað að ræða en að skrölta af stað. Ákvað að þetta yrðu ekki neinir 12 km heldur stutt kynnisferð til að taka út nágrennið, veðurfar, hitastig og svona viðhorf infæddra til hlaupara. Fór hægt að stað úr Pelligrinigötunni okkar og beint í óvænt brekkuhlaup í koltvísýringsskýi. Hér koma bílar og vespur brunandi upp og niður götur og flauta óvægið ef eldri konur í hlaupagalla hætta sér út á götu. Fann samt garð og hljóp hann fram og aftur (það tók 5 mínútur). Hélt áfram upp í móti (til Bologna stóð á skiltinu) eftir örmjórri gangstétt sem varla rúmaði báða fætur í einu. Sú stétt endaði svo í vegg og þá þorði ég ekki lengra. Sem betur fer fann ég lítinn göngustíg á hægri hönd sem reyndist ekki bara vera bílagata heldur átti þarna að vera pláss yfir bíla í báðar áttir. Var fjarska glöð yfir lítilli umferð. Gatan endaði í stíg sem virtist helst gamall árfarvegur og ég taldi næsta ófæran þar til gömul kona kom töltandi upp hann með plastpoka í báðum höndum. Hljóp niður stíginn innan um grænar eðlur og fannst nú loksins orðið verulega gaman að vera úti að hlaupa. Kom niður að á og var aftur farin að kannast við mig og orðin öryggið uppmálað þar sem ég sikksakkaði framhjá vegfarendum, innan um morgunmarkaðinn, yfir lestarteina og niður undirgöngin. Garmurinn lenti af og til í vandræðum með himintunglin en tikkaði að öðru leyti rólega inn kílómetrana. Náði 6 km með því að taka aukaferð upp og niður Pelligrine og var merkilega montin að hafa yfirhöfuð komist aftur heim. Ísinn var brotinn og í dag fór ég niður í upplýsingamiðstöð til að fá upplýsingar um góðar hlaupaleiðir. Konurnar þar voru önnum kafnar við að segja túristum frá söfnum, höllum, tónleikum og skoðanaferðum og augsýnilega ekki vanar spurningum eins og mínum. Náðu samt í eina á bak við sem skokkar og saman skoðuðum við kort út og suður með hlaup í huga. Nú verður spennandi að sjá hvernig fer. Ásetningurinn er góður en verst það er rauðvínið hérna líka!

Engin ummæli: