Kosturinn við að fara einn út að hlaupa (nú er ég að rembast við að finna einhvern kost við það því ég er svo voðalega fjarri mínum góðu hlaupafélögum) er að maður hefur næði til að hugsa. Kannski þarf það ekki endilega að vera kostur...fer líklega eftir því hvað maður er að hugsa um. Ég hleyp reyndar oft með ipodinn minn en hérna ytra ekki í eyrunum heldur hef ég hann með til vonar og vara ef ég væri nú alveg að springa á limminu. Mér finnst ipodinn góður til að einangra mig frá umhverfinu en hér vil ég gjarnan vera vakandi fyrir því og ná við það örlitlu sambandi. Og þá hef ég sem sagt næði til að hugsa. Vaknaði í morgun nokkuð snemma til að ná morgunkulinu (ef hægt er að kalla þetta uppundir 25 gráður kul!) og kíkti yfir íslenskar fréttir áður en stökk af stað. Þar var verið að segja frá verkefni á vegum Vigdísarstofnunar (ef ég las þetta rétt) sem felst í því að senda fyrirmyndum sínum bréf. Og með þetta í huga hljóp ég niður síkjaleiðina mína í áttina að Cascino garðinum. Ég reyndi fyrst að finna út úr því hver væri mín fyrirmynd í lífinu og fann það út rétt niður við Arnó að það er engin ein heldur á ég mér fjölmargar fyrirmyndir. Þurfti aðeins að gera hlé á þessum hugsunum til að komast yfir brúna Ponte della Vittoria en þar var vitlaus bílaumferð svo ég gafst upp og hljóp þess í stað í kringum hringtorgið við brúarendann og þurfti að fara yfir 7 gangbrautir á leiðinni - og það hugsar engin neitt við þær aðstæður nema að bjarga eigin skinni. Þá tók við nokkuð bein og breið braut eftir bakka Arnó vitlausum megin (þ.s. suðurmegin þar sem túristarnir eru síður). Og ég gat áfram farið að hugsa um fyrirmyndirnar. Án nokkurs efa eru foreldrar mínir mér sterkar fyrirmyndir. Til þeirra sæki ég sterka þræði í lífssýn minni og viðhorfum til heimsins. Og dóttlan mín er líka mikilvæg fyrirmynd (börn geta öruggleg bæði verið fyrirmynd og eftirmynd foreldra sinna) En svo á ég mér mínar sterku fyrirmyndir í starfi, samstarfsfólk sem ég dáðst að og lært af. Og vinir, úff heldur betur hef ég lært mikið af þeim. Að einfalda líf sitt t.d.! Þegar þarna var komið sögu var ég búin að beygja aftur yfir Arnó og kominn að stóru götunni heim og þar er ég eiginlega búin að eignast vin. Götusölumaður, dökkur strákur sem stendur með sinn samtíning af alls konar vörum við götuhorn er farinn að kannast við mig eftir að ég heilsaði honum með virktum (á ítöslu auðvitað) um daginn og nú brosum við breitt hvort til annars. Og þar fór ég að hugsa um fyrirmyndir mínar í hlaupum. Reyndi að rifja upp alls konar fræga hlaupara í sögunni, bæði útlenska og íslenska en áttaði mig á því að þeir eru ekki mín fyrirmynd (enda væri ég þá líklega í vanda stödd hlaupalega). Mínar fyrirmyndir í hlaupum er venjulegu hlaupararnir, hlaupararnir sem maður kinkar glaðlega kolli til þegar við mætumst á stígum borgarinnar en ekki síst félagarnir sem ég hleyp með dags daglega. Hlaupafélagarnir mínir eru margir og ólíkir en allir hafa þeir hver og einn á sinn sérstaka hátt verið mér til fyrirmyndar. Til sumra horfi ég vegna seiglunnar (hugsa kannski við erfiðar aðstæður: Þetta myndi nú X klára .... og held áfram miklu lengur en ég hélt ég gæti) og annarra vegna skynseminnar (þetta myndi nú Y ekki þykja skynsamlegt, það er best ég láti það vera). Líklega dáist ég mest að því hvað þeir eru assgoti gott fólk. Þegar hér var komið sögu var ég komin upp í bakarí og reyndi þar að láta sem það væri eðlilegasti hlutur í heimi að standa í svitapolli og biðja um pane soya cereali (eða eitthvað svoleiðis sem ég segi til að fá eitthvað annað en hvítt brauð). Þegar ég hljóp síðasta kílómetrann heim með brauðið var ég að velta því fyrir mér hvers vegna hlauparar væru svona gott fólk. Er það frekar gott fólk en slæmt sem ákveður að fara út að hlaupa eða eru það hlaupin sem gera fólk gott? Þar með var ég komin í Pelligrinogötu 15 og ákvað að bera þessar hugleiðingar mínar ekki undir Hannes sem telur hlaupa helst eiga það sameiginlegt að vera vitleysingar.
þriðjudagur, 29. júní 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli