föstudagur, 25. júní 2010

Balena rossa


Ég var með seinni skipunum út úr húsi þennan þriðja hlaupadag í Flórens og í dag hafði sólin ákeðið að fela sig ekki bak við ský. Það var reyndar sérstakur hátíðisdagur og frídagur til heiðurs heilögum Giovanni, dýrðlingi borgarinnar svo ég hafði reiknað með minni bílaumferð sem var nú raunin. Langaði að prófa enn eina leið svo nú skokkaði ég af stað frá Pellagrino og í austur niður með stórmarkaðnum og bakríinu og beint strik niður að ánni Arno. Villtist einu sinni á leiðinni en með því að veifa höndum og hrópa Arno, Arno fékk ég leiðsögn hjá gömlum manni með dagblað. Það er gaman að hlaupa meðfram ánni og nokkuð túristarólegt þó liðið væri á morguninn. Mér var samt orðið verulega heitt og fegin að hafa tekið með mér vatnsflösku. Svitinn spratt fram og rauði hlírabolurinn var orðinn gegndrepa. Reyndi að bera mig mannarlega á frægustu stöðunum en másaði og blés þegar ég komst í hvarf við ferðamenn. Reiknaði út í sjóðheitum haus að þessi hringur yrði líklega með styttra móti þannig að þegar ég kom að mínum ástkæra Cascinogarði hljóp ég stuttan 2 km hring þar áður en ég hélt áfram áleiðis upp á síki og heim. Þarna voru lappirnar orðnar 100 kg og ég eins og rauður, sveittur fýsibelgur sem skýrir líklega af hverju konur og börn tóku á sprett út af stígnum þegar ég mjakaðist másandi framhjá hrópandi balena rossa!!!! Verst var að komast í Pelligrinogötuna og eiga eftir 500 metra sem ég kláraði með því að hlaupa götuna upp og niður, nágrönnum til mikillar undrunar. Mikið var gott að komast heim. Á morgun ætla ég að taka mér hlaupafrí og þá get ég drukkið ítalskt rauðvín fram á nótt ... ef ég vil.

Engin ummæli: