sunnudagur, 27. júní 2010

Parca della Anconella


Hálfstressuð að fara út að hlaupa í morgun eftir erfiðleika gærdagsins en þar sem ég þurfti aðeins 10 km til að standast mína vikupligt ákvað ég að drífa mig af stað. Sunnudagur og ég fyrr á ferð en í gær svo það var rólegt á leiðinni og ég mætti bara einstaka konu í hvítum kjól - kannski á leið í kirkju. Las í gær eitthvað um garð sunnan ár sem mig langaði að skoða svo ég tók gamla staujið niður Markúsargötu og niður að Arná. Fór suðuryfir á næstu brú og skokkaði eftir dúnmjúkum stíg meðfram ánni sunnan megin. Líklega býr yngra fólkið sunnan ár en það eldra norðan því hér í Anconella garðinum fór ég ekki framúr neinum heldur skutust myndarlegir menn og ungar konur framhjá mér í röðum. Það tók sinn tíma að hlaupa út að sjálfum garðinum en hann reyndist líka hlaupsins virði. Þarna eru t.d. ein fimm æfingatæki fyrir hlaupara (og aðra) til að teygja og toga alls konar vöðva, tveir fallegir gosbrunnar og í öðrum búa skjaldbökur. Ég var alsæl að hlaupa þarna einn hring áður en ég sneri við og hljóp sömuleið til baka með smá aftursting þar sem 'mitt' bakarí var lokað og ég þurfti að snúa við til að komast í næsta. Var ekki nærri eins illa haldin og í gær en í dag passaði ég mig líka á því að fara bara fetið. Þó að hitinn væri ekki alveg eins viðskotaillur og í gær voru flugubit talsvert að angra mig. Hér bíta mig örugglega ólíkar flugur því að bitsárin eru svo eðlisólík. Sum eru nokkuð meinlaus en önnur kalla fram ískyggilegan kláða. Ég skil vel flugur (eða hvaða dýr þetta eru) sem ráðast á mig á alls konar viðkvæmum líkamssvæðum eins og hálsi og örmum en hvað fékk sú sem nennti að bora sig í gegnum iljarnar á mér fyrir sinn snúð. Hér hef ég trassað árum saman að hugsa um þennan mikilvæga líkamshluta og smátt og smátt komið mér upp fínum náttúrulegum leðursólum. Og í gegnum þá fannst þessari flugu ástæða til að bora og það þrisvar sinnum. Fyrir vikið klæjaði mig endalaust undir hægri ilina og prófið bara að klóra ykkur þar á hlaupum! En þetta gekk og ég var fjarska glöð að fylla inn síðustu kílómetrana í vikuprógramminu og hafa komist heila tvo yfir tilskilinn skammt.


Verstu afleiðingar hlaupanna hér ytra er gleði mín og kátina yfir nýuppgötvuðum slóðum. Ég kem heim móð og sveitt og dreg svo aumingja Hannes stuttu síðar sömu leið og ég hef hlaupið árla - og hann er sko ekki að æfa fyrir eitt eða neitt. Þannig þurfti hann í dag í eldheitri hádegissól að rölta með mér sömu leið og ég hafði farið í morgunsárið til að sjá með eigin augum Anconella garðinn. Þaðan lá svo leiðin áfram út um allan bæ þannig að í dagslok höfðum við lagt að baki 8 tíma göngu og vorum bæði orðin verulega máttfarin. Við vorum þá reyndar á þessari leið búin að villast út fyrir bæjarmörk Flórens, fá far með elskulegri ítalskri konu á réttar slóðir, sitja á 'baðströnd' og horfa á Þjóðverja baka Englendinga á stórskjá, setjast hálfgrátandi af hungri og þorsta á Rósarkaffið og standa í röð í rúman klukkutíma á lestarstöðinni til að kaupa lestarmiða til Lucca áður en við tókum strætó heim. Hannes vill fá gps mælingar á sínar göngur hér ytra.

Engin ummæli: