fimmtudagur, 24. júní 2010

Parce delle Cascine


Jæja hlaupadagur 2 í Flórens. Í gær benti túristaupplýsingakona mér á Cascinegarðinn sem góðan hlaupastað en þegar ég sýndi henni Pelligrinogötuna okkar hristi hún hausinn, veifaði höndum og sagði Nonononon... to looooooong-eh og átti þá við að það væri allt of langt fyrir mig að hlaupa að heiman og niður í garð. Af áhættufíkn ákvað ég að láta samt slag standa, vaknaði snemma og var komin af stað upp úr átta. Veðrið dásamlegt, ský fyrir sólu og ég búin að kortleggja leiðina vandlega í huganum. Til vonar og vara tók ég með mér kort sem er til lítils gagns því ég get ekki verið að hlaupa með gleraugun svona eftir að hafa farið í laseraðgerð til að losna við þau á hlaupum. Ég sá þó í móðu helstu útlínur borgarinnar og lét það duga. Síkisleiðin niður að garði er nokkuð ljúf, þar þarf ég bara að slást við einstaka hjólreiðamann um pláss en ekki fljúgandi bílaumferð. Villtist aðeins eftir síkin en fann mig aftur með aðstoð innfæddra. Soooo looooong-eh leiðin reyndist þrír og hálfur kílómetri þannig að líklega stundar konan á túristaskrifstofunni ekki langhlaup. Var hálf hissa að vera komin þangað svona áreynslulaust. Cascine garðurinn er meiriháttar og ég trúi því ekki að ég hafi komið hingað tvisvar áður án þess að vita af honum. Þarna eru skjólsælir skógarstígar, grænar flatir, hundar með eigendur sína í bandi og auðveldlega hægt að smeygja sér niður að bökkum Arno og hlaupa þar á enn mýkri stíg. Og hér voru þeir allir földu hlauparar Flórensborgar. Ég reyndi að heilsa sumum eins og maður gerir alltaf heima en það er líklega ekki siður hér því þeir voru fáir sem kinkuðu kolli til baka. (Seinna sama dag fór ég svo aftur í garðinn með Hannes til að sýna honum öll tréin sem fallið höfðu um koll í stormi á 17. júní og þá fundum við örbar þar sem rauðvínið kostar eina evru og er serverað í fleytifullu vatnsglasi!). Tók stóran hring um allan garð áður en ég skokkaði aftur heim á leið og var nú mun fljótari í förum af því ég villtist ekkert og þurfti að taka smá hring í grasagarðinum hér við hliðina á til að ná planaðri vegalengd. 15 km - kannski ekki neitt langhlaup en ég alsæl með árangurinn. Þetta er (enn) einn kosturinn við hlaupin - maður finnur oft hliðar á nýjum stöðum sem aðrir fá ekki að sjá.

Engin ummæli: