laugardagur, 26. júní 2010

Garmar tveir




Það er sko ekki hlaupið að því að halda í við prógrammið frá Sigga Pé hér í útlandinu. Í morgun hélt ég svo sannarlega að mér væru allir vegir færir. Letidagur að baki og hvíld frá hlaupum, þokkalega lítil rauðvínsdrykkja í gærkvöldi og þegar ég vakaði upp úr 7 sýndist mér bara kalt úti. Prógrammið sagði reyndar 0 í dag en 10 í gær en af því ég var með hlaupaskuld á bakinu eftir ferðadaginn ákvað ég að fara í það minnsta 16. Dróst að ég færi á stað því þegar ég stóð klár út á götu sagði garmurinn að eftir væru 0 tímar af rafhlöðunni. Garmurinn er að verða hálfgerður garmur og þó ég hlaði og hlaði upp í 14 klukkustundir klárar hann þær á sama tíma og ég og restin af heiminum mælir um 3-4. Mér finnst merkilegt að hafa hlaupið yfir helming míns hlaupalífs án garms og man ekki betur en að mér hafi liðið fjarska vel án þess að hafa hugmynd um nákvæmar vegalengdir eða hraða á hverjum tíma. Núna missi ég mátt um leið og garmurinn tæmist jafvel þó ég sé að fara Neshringinn í billjónasta skiptið og ólíklegt að sú vegalengd taki stórum breytinum á milli daga. Þurfti því að hlaupa aftur upp í íbúð og hlaða smá meðan ég kláraði Ragnar í Smára sem eflaust er komin í bullandi sekt á í bókasafninu. Held að Ragnar í Smára hefði haft gott af því að hlaupa. Hann hefur augsýnilega verið ofvirkur og haft ríka þörf fyrir að hreyfa sig þó það sé lítið talað um þá hlið í bókinni. Nú, nú kvaddi Ragnar og Hannes og fór með hleðslu til 2 tíma á garminum og ákvað að blanda saman þekktum leiðum þ.e. austurleiðinni niður að Arno, meðfram Arnó, garðinn endilagan fram og til baka og svo heim. Það reyndist rangt mat hjá mér að sólarleysi hér merki kulda og ég ekki búin með 3 km þegar ég var orðin sjóðandi, bullandi heit og þegar ég kom út í garð (6km) var hlaupið farið að þyngjast. Tek eftir því að ég hef tilhneigingu til að hlaupa hraðar en samhlaupamenn mínir hér og af því ég telst nú tæpast hröð sýnir þetta að innfæddir eru skynsamari en ég í hitanum. Komst nokkuð eðlilega út að garðsenda en var í mesta basli með að hlaupa hann til baka. Var farin að lofa sjálfri mér smá göngu eftir hvern áunninn kílómetra ásamt sopa af moðvolgu vatni. Þetta trikk kom mér út úr garðinum á ný áfallalaust. Hélt að kaflinn heim meðfram umferðinni yrði slæmur en þá fékk ég vindgust sem kældi og kætti og við síkin vissi ég að ég myndi ná lifandi á leiðarenda. Tók meira að segja aukarúnt um Pelligrinogarðinn til að ná upp í 17 en hefði aldrei fengið verðlaun fyrir hlaupastíl þegar þarna var komið. Skreiddist upp stigana heima, drakk vatn, drakk íste, drakk vatn, drakk djús og sagði við Hannes ég væri nú eiginlega farin að efast um hversu hollt það væri að hlaupa. Hann sagðist aldrei hafa efast um að það væri óhollt.

Engin ummæli: