Hef ekki verið nógu duglega að blogga þessa síðustu daga. Hef verið svo upptekin af því að kveðja og búin að faðma svo mikið og kyssa að ég endaði með áblástur – sem er ekki akkúrat það sem mig langaði að flytja með mér heim. En hvað gerir maður ekki fyrir gott málefni.
Kvaddi félaga og vini með pulsum á föstudagskvöldið og skemmti mér konunglega þó ekki heyrðist mannsins mál fyrir hávaðasömum hópi á næsta borði. Kvaddi Patrek leigusala með kvöldverði á laugardaginn, kvaddi Ingrid og Julian dómara með kvöldverði á sveitakrá í þorpinu Brill (on the hill), kvaddi hina ítölsku Möru með pastarétti á mánudag, kvaddi staffið í staffaherberginu með kexi sama dag og svo sátum við stöllur Winifred og Michele meirar ásamt hinni rússnesu Natstösju yfr andabringum og súkkulaðiköku í gærkvöldi, skiptumst á gjöfum og vorum til skiptist leiðar og glaðar. Natasja ætlar að taka við herberginu mínu. Rakel í leikfiminni er eiginlega sú eina sem ég kvaddi án þess að bresta í át (þ.e. við borðuðum ekkert á okkar kveðjustund).
Búin að pakka niður í tvær þungar töskur og á síðustu dögum hafa streymt frá mér pakkar með bókum og blöðum á okurverði í gegnum póstinn. Winifred ætlar að keyra mig upp á strætóstöð og Michele fylgir með til að veifa.
Vaknaði samt fyrir allar aldir við fuglana fyrir utan kvistgluggann minn (og eina söngglaða fyllibyttu) og sólin skein svo ég varð bara að skjótast í stuttbuxurnar og hlaupa einn hring og kveðja Isisána. Og hún var að vanda falleg, ræðarar að reyna að vera samtaka í átakinu, gæsirnar og endurnar ennþá sofandi við bakkann svo ég þurfti næstum að hoppa yfir þær sumar. Christ Church skólinn glóði eins og á ljósmynd í sólinni og á bláum himninum sveif hvítur loftbelgur. Ef ég hefði verið í bíómynd hefði verið spiluð hástemmd músik undir – þeir hefðu að minnsta kosti retúserað út mæðina í mér. Þakkaði í huganum Oxford fyrir tímann hérna og lofaði að koma aftur. Og ég er farin heim til minna.
þriðjudagur, 22. maí 2007
fimmtudagur, 17. maí 2007
Aðeins meira um múslima og mat
Súkkulaðibindindið mitt er alveg að fjúka út í veður og vind og það er allt múslimum og Marsfyrirtækinu að kenna. Nýlega tilkynnti súkkulaðifyrirtækið sem sagt að það væri farið að nota eitthvað úr kálfamögum (minnir mig) í súkkulaðigerðina. Snerti mig ekki neitt – ég hef yfirleitt ekki hugmynd um hvaða ullabjakk er í matvörunni sem ég kaupi (nema ég komst reyndar að því við lestur moggans í morgun að það er góð ástæða fyrir meintri andstyggð minni á karrí og chilipipar – hausverkurinn sem þessi krydd veita mér stafar líklega af ofnæmi mínu fyrir leðurlitunarefninu sem notað er í þau – eins gott að ég fæddist ekki sem skór). En vegna þessa kálfadæmis mega múslimir ekki lengur borða neitt nammi búið til af Mars. Zeenat, skrifstofufélagi, safnaði því saman í poka allri þeirra framleiðslu sem fannst heima hjá henni og ef eitthvað er að marka magnið sem kom frá þessari einu múslimafjölskyldu held ég að þeir hjá Mars ættu að hugsa sinn gang. Hún er blessunin búin að dreifa súkkulaðihrúgum á allar hæðir en samt varð eftir hjá okkur í kjallaranum risaplastpoki troðfullur af Twix og Mars. Búin að gera díl við Andrew um að hann sjái um Marsið en ég fái að sitja að Twixinu og það er sko ekki auðvelt að deila herbergi með öllum þessum súkkulaðistykkjum – svo mikið er víst. Ekki síst þegar að Sandra er búin að redda okkur þessum risastóra rafmagnsofni sem dælir sjóðheitu lofti á okkur frá morgni til kvölds þannig að við sitjum nú við skriftir rjóð og sveitt eins og í finnskri sánu. Einhvern veginn verðum við auðvitað að bjarga þessum súkkulöðum frá bráðnun.
Uppstigningadagur
Það er rólegt hér í vinnunni í dag þó að það skýrist ekki af uppstigningadeginum. Þeir kannast lítið við hann hér og ég er hætt að ræða íslenska helgidaga við skrifstofufélagana mína. Það er þá helst að hún Zeenat myndi skilja þessi trúartengsl öll. Hún er múslimi og fer reglulega upp á loft að biðja bænir. Ég er orðin öllu fróðari um hennar trú og venjur. Finnst höfuðklúturinn hennar í fínu lagi og öfunda hana stundum af því að þurfa ekki að baslast neitt með hárið á sér – finnst reynar út í hött að hún megi ekki hjóla í kuflinum (eða hvað það nú heitir). Hún vill gjarnan hreyfa sig meira svo við Sandra sýndum henni háskólaklúbbinn en hún má auðvitað ekki mæta þar í kynjablandaða tíma. Misskildi hana aðeins um daginn þegar hún sagðist þurfa að fara heim til sín um helgar að kenna. Hvað ertu að kenna spurði ég og heyrðist hún segja þolfimi (airobic). Hvatti hana eindregið til fá að kenna slíka tíma fyrir trúarsystur sínar í háskólaklúbbnum og sagðist sjálf ætla að mæta. Kom í ljós að hún er að kenna arabísku (arabic) sem ég hef svo sem engan sérstakan áhuga á að læra. Bauð henni að koma út að borða með okkur á föstudaginn og var búin að tryggja að hægt væri að fá grænmetispulsur á the Big Bang – en hún má víst ekki sitja innan um sukkara sem vilja rauðvínsglas með matnum þannig að ég verð að kveðja hana á annan hátt. Mikið er ég þakklát fyrir mitt hlustskipti í lífinu – þó hún virðist líka afskaplega sátt við sitt.
Annars er spólan mín hér í Oxford alveg að klárast og rúllar áfram á methraða. Finn að stressið er aðeins að læðast upp að hjartarótum því nú að klára að gera allt sem átti að vera löngu búið gera. Einn liður í því var að draga Michele í danstíma með Pascal í gærkvöldi. Nú er ég orðin ævilangur meðlimur í klúbbnum Ceroc og get hvenær sem er komið aftur og lært meira að dansa í ráðhúsinu. Var eitthvað að tuða yfir því að þurfa að verða meðlimur fyrir eitt kvöld. Stúlkan sagði að það væri af tryggingaástæðum sem mér fannst ekki lofa góðu um framhaldið en hún fullvissaði mig um að dansinn væri með öllu hættulaus. Kom svo í ljós að æviáskriftin kostaði bara tvö pund og fylgdu með piparmyntur (svo maður gæti andað huggulega upp í dansfélagana) og mynddiskur með öllum helstu 'moves'.
Þetta var hin skemmtilegasta reynsla. Við mættum með fyrstu mönnum og mér leið hálf asnalega að sitja á rauðum plussstól upp við vegg í risastórum bæjarráðssalnum. En viti menn, þegar á leið streymdi þangað fólk á öllum aldri og líklega höfum við verðið um eða yfir 60 í dansa. Við fórum í byrjendatíma en vorum held ég einu almennilegu byrjendurnir (Pascal reyndar búin að mæta oft áður). Og svo röðuðum við okkur í þrjár raðir og eftir hvert nýtt spor eða 'move' skiptum við dömurnar um dansherra – sem merkilegt nokk voru þarna í lange baner. Ég dansaði þarna við litla stráka sem ekki var enn sprottin grön og háöldruð gamalmenni og allt þar á milli.
Ceroc er einhvers konar Komdu að dansa og kenna bland af jive og salsa og undir dansinum þeytti alvöru dj skífur af miklum móð. Eftir um klukkutíma æfingu fengum við tíu mínútna frjálsan tíma til að æfa sporin áður en reynsluboltarnir fengu salinn. Sumir í byrjendaliðinu héldu svo áfram með þessum kláru en við almestu aumingjarnir fórum fram á gang í sérkennslu. Að lokum var svo boðið upp á klukkutíma ball en þá fannst okkur Michele komið nóg og kvöddum. Góð hugmynd fyrir ráðhúsið í Reykjavík.
Fleiri verkefni eru svo framundan. Ég þarf að finna leiðir til að koma 1000 kílóum af bókum og pappír í póst heim á leið og skoða hvort ég kem fötunum mínum aftur í töskurnar mínar. Þarf að kveðja hlaupaklúbbinn (geri það í kvöld), Rakel í háskólaleikfiminni (geri það á mánudaginn) og stelpurnar í staffaherberginu (geri það á þriðjudaginn). Á eftir að fara að út að borða með öllum þeim góðu sem ég hef kynnst hér og skráði mig í hlaup á sunnudaginn þó að spáin sé hundleiðinleg og ég eiginlega búin að tapa niður hlaupum.
Winifred er búin að lofa mér aftur herberginu mínu næsta sumar ef ég vil koma í heimsókn. Þá ætlar mamma að koma með.
þriðjudagur, 15. maí 2007
Í kulda og trekki
Ég er flúin í kvistherbergið mitt og sit núna og hamast við að
klára það sem löngu átti að vera búið. Úti rignir eins og hellt væri úr fötu og á skrifstofunni hlægja þau skrifstofufélagar dátt að Íslendingum sem hélst ekki við þar vegna kulda. Gafst upp á að sitja með bláar tær, fingur og varir í ullarsokkum og flíspeysu og reyna að lemja lyklaborðið mér til hita. Það er ekki von að kaflinn mjakist áfram þegar heilinn er jafnfrosinn eins og restin af mér. Kyndingin var tekin af byggingunni fyrir páska og hefur ekki verið sett á aftur þrátt fyrir kulda- og vætutíð. Að opna skrifstofuna er eins og að opna gamlan ísskáp sem er aðeins farinn að gefa sig.
Kvistherbergið er hins vegar notalegt. Niðrí stiga stendur málarinn káti, sveittur og rauður og syngur með útvarpinu og niðri í stofu æfir Winnifred tónskalann á píanóið. Hún er að fara í sinn þriðja píanótíma síðan hún var skólastúlka og er mjög samviskusöm.
Við Bernstein - hinn dáni félagsfræðingur - reynum í sameiningu að púsla saman kafla átta og gengur hægt. Það er ekki auðvelt að skrifa með framliðnum. Úti í bæ situr Michele og rembist við að koma saman lokapartýi fyrir mig þrátt fyrir hógvær mótmæli mín. Hverjum viltu bjóða spyr hún ströng og ég verð eitthvað svo mát. Erum búnar að velja stað en gengur verr að finna stund. Ætlum að ljúka dvölinni með hvelli svo að segja með því að fara á veitingastaðinn The Big Bang sem sérhæfir sig í oxfordskum pulsum og kartöflumús. Orðin pínulítið stressuð yfir alls konar hlutum ein og að ná að ná ekki að klára kaflaskrattann fyrir brottför og finna leið til að bóka öllum bókunum mínum aftur heim á Hjarðarhagann. Ætla að reyna að halda mig við efnið hér undir kvistnum og sendi ykkur heima bara koss.
sunnudagur, 13. maí 2007
Veðurfréttir
Lísa í Undralandi
Mér leið svolítið eins og Lísu í Undralandi þegar ég vaknaði í morgun eftir allt of stuttan svefn. Eins og hún hef ég ekki alveg verið að ná áttum í viðburðunum í kringum mig.
Sat hér heima í rólegheitum á laugardegi þegar að Ingrid leiðbeinandi hringdi í mig upp úr þrjú og bauð mér í sextugsafmælið sitt – þremur tímum síðar. Reikna með að ég hafi ekki verið alveg efst á gestalistanum en engu að síður fallega boðið. Ég var hins vegar fyrir löngu búin að troða mér með í almennilega stemningu hjá íslensku krökkunum hér í Oxford sem forðum buðu mér með í kjötsúpuna. Í því hófi átti að takast á við júróvísíon, kosningar og svo að kveðja Sigurð sem floginn er burt með sína gráðu að gera það gott heima. Þurfti auðvitað drjúgan tíma til svo margra verka svo þau sendu út dagskrá sem hófst með árbíti um hádegisbil.
Boðaði seina komu í gleðskapinn og mætti fyrst með blóm og kort í kampavín til Ingridar sem var svo elskuleg að halda upp á það í gamalli stjörnuskoðunarstöð Green skólans sem reyndist einmitt í næsta nágrenni við Íslendingagleðina. Ég fannst strax fyrir utangáttaeinkennunum þar enda höfðu fæstir gestirnir hugmynd um mína tilvist þó þeir reyndu þessir kurteisustu að spjalla við mig. Sá líka fljótt að hér eru konur á mínum aldri meira og minna í einhvers konar skærlitum silkitúnikkum en ekki brókarlufsum úr Gap og fannst ég dálítið út úr kú í mínum galla.
Kvaddi Ingrid og skokkaði heim til Önnu Stellu og Sigmars sem hýstu þennan hluta Íslendingagleðinnar. Þar voru allir á útopnu að elda þennan líka frábæra kvöldverð sem var sko enginn venjulegur breskur moðsoðningur heldur alvöru gómsætar, grillaðar og fylltar svínalundir, kartöflur og salat og sérvalið gæðarauðvín með. Alvöru íslensk skyrkaka á eftir. Og flögur. Og fullt af alvöru íslensku sælgæti. Jabb – þau kunna á þessu lagið þessir fátæku námsmenn í útlöndum!
Þetta var hins vegar ekkert sældarpartý því ég þurfti ekki bara að fylla út getraunaseðil um júróvísíon heldur tvo seðla um kosninganiðurstöðurnar. Var illa á gati í Júróvísion og hef ekki almennilega náð að fylgjast með þar og var eiginlega litlu skárri í kosningaspánni. Það var heldur ekki auðvelt fyrir félagsvísindakerlingu eins og mig að fara að reikna út prósentur fyrir alla flokka í öllum kjördæmum og þó ég hafi reynt að svindla með því að kíkja á síðustu Gallúpkönnun er ég hrædd um að það þurfi eitthvað að fjölga þingmönnum á þingi ef mínar prósentur eiga að ganga upp. Fegin að koma þessu frá ofan í kornflekskosningakjörkassann.
Kosningavakan sjálf var skemmtileg og vel undirbúin. Við vorum eins og geimferðarstofnun með marga tölvuskjái í gangi og inn á milli var hringt í vini og kunningja á skæpinu til að taka stöðuna í ólíkum kjördæmum. Ég var samt í fyrsta sinn að vaka með fólki sem ég veit ekki hvar stendur allt í pólítíkinni - treysti því að Margrét hafi kosið pabba sinn eins og ég (ekki pabba minn heldur hennar líka). Kunni því ekki við að fagna almennilega þegar að stjórnin féll enda fann ég smá til með Geir Haarde þegar hann sagðist þurfa að segja af sér í fyrramálið. Ég er soddan kóari að mér líður illa þegar að fréttamenn spyrja fallinn stjórnmálamann þrisvar: Og hvernig líður þér svo núna? Og það sjá allir – eða að minnsta kosti ég - að hann er alveg að fara að skæla. Eins gott að ég sat svona yfirveguð eins og hinir því ég var ekki fyrr byrjuð að gleðjast yfir föllnu stjórninni en að hún reis aftur upp frá dauðum – og guð má vita hvert. Og mér fór aftur að líða eins og Lísu og ákvað að fara heim að sofa með barnafólkinu og láta hinum eftir að mynda stjórnina – eða ekki.
föstudagur, 11. maí 2007
Eikibleiki á bak og burtu
Var boðið í undanúrslitajúróvísíonpartý í vesturbæinn í gær til að horfa á Eirík mala þetta. Var svo lengi að finna afmælisgjöf að ég kom ekki heim fyrr en seint og um síðir - rennblaut. Snaraðist í önnur föt og púðraði á mér nefið en þá kom Winifred leigusali og bauð mér að borða með þeim hjónum kvöldmat. Sagðist vera á leið í partý en hún er fylgin sér og áður en ég vissi af var ég komin niður í borðstofu, búin að hestahúsa þessum líka skammti af nýjum spergli með smjör og salti og vodka og var farin að bíða eftir ofnsteikta þorskinum. Eftir hann var svo auðvitað úr mér allur vindur svo ég fór hvergi heldur sat við tölvuna og fylgdist með þar. Missti reyndar af Eiríki en náði samt að verða döpur yfir örlögum þjóðarinnar.
Mér finnst að það eigi að breyta aftur keppninni og leyfa bara öllum að vera með. Þeir hljóta skilja það þessir sem stjórna þessu að það verður allt öðru vísi fyrir mig - og alla hina milljón taparana - að fara í júróvísíonpartý á laugardaginn vitandi að það verður Eiríkslaust með öllu. Það á ekki að ræna fólk einfaldri gleði á þessum síðustu og verstu tímum.
Beið svo spennt eftir því að þurfa að pissa. Þau hjón sögðu að spergilátinu fylgdi alveg sérstök þvaglykt. Ja það er ekki lítið sem ég er búin að læra hér í Oxford.
fimmtudagur, 10. maí 2007
Hvað ætti ég að gefonum?
Fór í bæinn í gær að kaupa afmælisgjöf til að senda heim til Hannesar. Það var heilmikið mál að finna út úr því í allri rigningunni. Og ekkert auðvelt að velja gjöf handa honum.
Fyrst eftir að við fórum að mæna hvort upp í annað gaf ég honum alls konar frumlegar gjafir. Stundum heitfeng eða harmþrungin ljóð – svona eftir því sem við átti hverju sinni. Fyrir fimmtugsafmælið hans lá ég ber að ofan á bekk í dýraspítala út á Jótlandi meðan að Peder dýralæknir reyndi eins og hann gat að taka röngtenmynd af hjartanu á mér. Ætlaði að setja hana í ramma en Peder kunni ekkert á tækið svo hún varð allt of dökk. Ég þurfti að segja Hannesi hvað þetta væri.
Nú er ég komin meira svona út í peysur.
Hannesi finnst heldur ekkert auðvelt að finna gjafir handa mér. Segir að ég kunni ekki nógu vel að meta þær sem ég fæ frá honum – sem er ekki satt. Hann hefur gefið mér ýmsar gjafir sem ég er alsæl með. Hann er líklega að meina sloppinn. Hann gaf mér einu sinni ægilega fallegan vínrauðan silkislopp. Mér fannst hann flottur en hann var svo síður að hann hefði passað betur á konu sem væri þetta um tveir og fjörutíu. Ferðirnar niður í póstkassa eftir Mogganum voru eilífar glæfraferðir og ég sífellt að flækjast í sloppnum og detta á hausinn í stiganum – og vildi náttúrlega lifa lengur fyrst ég var búin að hitta hann.
Nema að hann sé að meina nærfötin? Hann gaf mér nefnilega ein jólin þessi líka dásamlega fallegu nærföt keypt í uppáhaldsnærbuxnabúðinni minni – rétt stærð og allt. Þau eru öll í blúndum – sem mig klæjar svo agalega undan. Og einhvern veginn er ég ekkert sexý í þeim þar sem ég stend og reyni að klóra mér á bakinu á hurðarkörmum. Ég á þau samt í skúffunni minni og þau eru æðisleg.
Svo spurði hann mig eitt árið hvort við værum ennþá í þessu að gefa hvort öðru gjafir sem væru táknrænar – og var eitthvað svo niðurdreginn að ég sagði: Nei- nei alls ekki. Og fékk þá örbylgjuofninn í jólagjöf – svo ég var ekki lengi að breyta því aftur og er fyrir löngu búin að koma honum í skilning um að sérhver gjöf frá honum sé þrungin og sliguð af merkingu.
Vona bara að hann haldi ekki að það sé gagnkvæmt.
miðvikudagur, 9. maí 2007
Ég á lítinn, skrítinn skugga
... í vændum í byrjun nóvembermánaðar. Vil reyndar meina að ég eigi örlítinn hlut í stjúpbarnabarninu Benjamín en af því sá myndarmaður á svo margar góðar alvöruömmur – og afa - hef ég meira setið í aftursætinu í uppeldinu. Þar sem þessi skuggi er væntanlegur í gegnum beinan móðurlegg vonast ég til að fá að sitja frammí og helst auðvitað í bílstjórasætinu - svona stundum.
Ætla samt að reyna allt sem ég get til að verða ekki ein af þessum óþolandi póstmódernískum ömmum sem verða svo æstar í ömmuhlutverkinu að allt hitt sem þær eru gufar hreinlega upp. Ég ætla aldrei að senda neinar myndir, aldrei að tala um hvað þetta barn sé betra en önnur, aldrei að þvinga upp á aðra ævintýrum um aldeilis ómerkilega viðburði í lífi þess (eins og að taka tennur), aldrei að hlaupa kvakandi guðminngóðurhvaðþettaersætt um í barnafatadeildum í útlöndum, aldrei að gefa barninu neinn óþarfa, aldrei að skrópa í vinnunni til að fá að passa smá. Nei ÉG ætla í mesta lagi að leyfa þessu barni að borða súkkulaði eftir að það er búið að bursta.
Krossa putta og vona af öllu hjarta að allt gangi vel og svo ætla ég að halda kúlinu og aldrei segja neinum hvað ég hlakka mikið til.
þriðjudagur, 8. maí 2007
Fátt í fréttum
Það tekur því varla að senda út örlítinn helgarpistil frá óeðlilega langri helgi en látum vaða. Er búin að vera svolítið eins og maur um helgina – eitthvað að baslast fram og aftur með byrgðar en koma samt litlu sem engu í verk.
Fór að lesa á Bodleian bókasafninu eftir hádegi á föstudag og fannst það gaman. Nú fann ég bækurnar sem við dóttla fundum ekki forðum. Var búin að biðja um fullt af þeim í lestrarlán og þær biðu þarna allar eftir mér í alvarlegum hátimbruðum sal sem ég hafði sjálf valið til lesturs. Sat svo fram eftir degi í mjúkum lestrarklið, einstaka hnerri og smá skurk í stólfótum, annars dásamlega andleg þögn yfir stórum lesendahópi. Fékk stórt rautt spjald sem leyfði mér að fara á milli hæða með eina góða og ljósrita og kom hálfpíreygð út í dagsbirtuna aftur í dagslok.
Fór á fyrstu leiksýninguna hér: The Wonderful World of Disscocia og hafði afar gaman af. Hann var ekki eins ánægður feiti kallinn fyrir aftan mig sem rauk út í hlé æpandi: This is absalutely the worst theater I have ever seen! Hélt fyrst hann væri að æpa á mig sem hafði ekkert með þetta að gera en svo sneri hann sér í hringi og æpti þetta á okkur öll áður en hann hvarf rösklega á braut. Kíkti eftir honum eftir hlé en sá ekki. Sat við hliðina á góðlegum, gömlum manni á bekk G en þar sem það voru ekki margir fleiri á okkar bekk færði ég mig kurteislega aðeins frá honum eftir hlé.
Tók því svo rólega á laugardag, hljóp litla hring, fór í bæinn að leita að afmælisgjöf handa Hannesi og kom heim með tvennar sumarbuxur...á mig. Kannski gef ég honum aðrar þeirra. Eldaði lax fyrir okkur Winifred og við opnuðum hvítvínsflösku og dóluðum okkur yfir fiskinum langt fram á kvöld. Michele var með hina þýsku Karen í helgarheimsókn svo ég fékk tækifæri til að rifja upp stúdentsþýskuna – Ich bin Anton Brega geworden sein – og sem betur fer var Gulli þýskukennari fjarri góðu gamni. Hann var viðkvæmur maður og hefði grátið.
Á sunnudaginn fór að þykkna upp og ég hélt að það væri vont veður og sat sem fastast í kvistherberginu og las. Þegar allir voru stokknir úr húsi notaði ég tækifærið og fór í alvörubað með baðolíu og bók og alles. Þetta er munaður sem ég sakna að heiman en hef sjaldan tækifæri til að láta eftir mér hér. Hugsað að ég hafi verið rómversk í fyrra lífi - eða kannski bara froskur. Var boðið í kvölmat til Ingridar og Julians og bakaði því íslenskar pönnukökur og fór með bæði sparirjómadæmið og upprúllaðar. Ljúfasta kvöld með nágrönnum þeirra, skemmtilegum eldri hjónum sem bæði voru komin á eftirlaun. Höfðu bæði verið hjónabandsráðgjafar og þegar ég spurði hvort að þau hefðu unnið saman í þeirri ráðgjöf sagði Jó: Já eftir að ég skildi við manninn minn. Og ég skellihló og hélt að þetta væri brandari en engum öðrum stökk bros á vör.
Í gær tóku Bretar svo út sinn 1. maí. Ætlaði út að hlaupa upp úr átta en þá var þvílík úrhellisrigning að ég ákvað að hinkra við. Sat enn í náttfötunum uppi í kvistherbergi klukkan fimm þegar að Michele kom að reka mig niður í hádegismat svo hún gæti farið að huga að kvöldmat. Var þá búin að lesa nokkrar ritgerðir, skrifa ákkúrat 10 línur í kaflanum mínum en lesa 400 blaðsíður í nýjustu bók Lionel Shriver,The Post-Birthday World. Fannst ekki taka því að fara á fætur þá svo ég sat áfram í náttfötunum til miðnættis og eyddi restinni af deginum í löng skæptöl við mömmu, Hannes og Áslaugu. Af því að samtalstíminn á skæpinu er svo sýnilegur sást að ég hafði eytt tæpum hálfum vinnudegi í spjallað – og naut hverrar mínútu.
fimmtudagur, 3. maí 2007
Aðflug
Í dag eru akkúrat þrjár vikur í heimferð og ég finn að brottförin að farin að læðast upp að mér. Ég hjóla mína vanalegu leið upp og niður hina litríku Cowley Road en í stað þess að láta hugann flakka um heima og geima horfi ég einbeitt á umhverfið og reyni að leggja allt á minnið.
- Ég ætla alltaf að muna eftir henni Syrpu í Unikki búðinni hugsa ég angurvær um leið og ég brosi blíðlega til strákanna í Beeline hjólabúðinni sem eru einmitt í þessu að stilla út öllum hjólunum. Vinka kankvís til strætóbílstjórans sem keyrði mig næstum niður á Magdalenubrúnni í morgun – bráðum verð ég farin og þú verður að finna þér einhvern annan að hræða líftóruna úr – vink-vink og blikk-blikk.
Snýst í hringi í kvistherberginu og velti fyrir mér hvort það sé fræðilegur möguleiki að koma eigunum í tvær töskur eða hvort það er ekki vit að senda sumt heim á undan sér. Ákveð að gefa jakkann minn til Oxfam - hef eiginlega aldrei verið í honum heima.
Panta miða í leikhús þegar að ég uppgötva að ég er búin að vera hér í meira en fjóra mánuði og hef aldrei gefið mér tíma að sjá neitt. Ætla ein og veit ekki hvort ég á að bóka sæti á netinu við hliðina á næsta eða með eitt sæti á milli. Enda við hliðina á einhverjum ókunnugum – vona að hann verði viðkunnanlegur.
Ákveð að taka þátt í Town og Gown hlaupinu 20. maí þar sem almenningur og andans menn streðast saman 10 kílómetrana í þágu góðra málefna. Ég hef þá í minnsta náð einu alvöruhlaupi hérna. Ætla líka að drífa mig í hlaupaklúbbinn í kvöld – var að fá skírteinið þar sem stendur að ég sé meðlimur í Headington Road Runners númer 997. setti það stolt í peningaveskið mitt. Aðeins of fljót á mér samt. Sá sem var númer 1000 fékk kampavín.
Ég verð að muna að breyta fyrirhuguðum síðasta hádegisverði með ástralanum Chris og konunni hans Corinne sem ég hef aldrei áður hitt. Við Chris eigum í vandræðalausu andlegu ástarsambandi um kennsluhætti á háskólastigi sem við ræktum einstöku sinnum með hádegisverði og nú fer því sambandi eins og öðrum hér að ljúka og konan hans ætlar að taka þátt í kveðjustundinni.
Sit í hádegissólinni með samlokuna mína í Háskólagarðinum og hugurinn er í slyddunni heima í stað þess að leita að sannfærandi rannsóknarniðurstöðum til að færa heiminn (eða að minnsta kosti örlitlum hluta hans). Hugsa svo mikið um slydduna að ég brenn á öxlunum og næ mér í ein tuttugu moskítóbit á leggina.
Skoða áköf heimasíðu kennslumiðstöðvarinnar til að athuga hvort ég nái kannski eins og einu góðu seminari. Fátt merkilegt í boði um þessar mundir. Kannski eru þau líka að verða lúin eftir veturinn.
Við Michele erum hættar að segja - eigum við ekki einhvern tíma... - nú spyr hún áhyggjufull: Heldurðu að við náum nokkuð að fara aftur á tælenska staðinn? Og ég svara kúl: Við sjáum bara til með það.
Það styttist í að ég fari að gera allt í síðasta sinn hérna. Hverjum hefði dottið í hug að það tæki mig þrjár vikur og tæpa þrjá tíma að fljúga heim til Íslands?
þriðjudagur, 1. maí 2007
1. maí
Í Oxford er bara einn stétt svo þeir eru ekki að stressa sig yfir að halda upp á alþjóðlegan dag verkalýðsins. Það verður gert næsta mánudag og heitir þá bara ‘bank holiday’. En í morgun vorum við Michele skriðnar í fötin fyrir klukkan fimm og lagðar af stað niður að á hjólandi í fyrstu skímu morgunsins. Ferðinni var heitið niður á Magdalenubrúna sem er nú rétt heima hjá okkur en var vendilega lokuð af og í strangri lögreglugæslu frá klukkan þrjú í nótt. Hjóluðum sem leið lá niður í High Street og blönduðum okkur í mannmergðina sem öll streymdi á Magdalenubrúna. Flestir í balldressum næturinnar, stelpurnar svolítið kuldalegar í sparikjólum og maskarinn aðeins farinn að færast til- sumir ennþá með alkahólið í blóðinu. Aðrir betur búnir og sumir blómum skreyttir. Svo stóðum við í þvögu fyrir neðan Magdalenuskólann g mændum upp á turninn til klukkan sex. Þá þögnuðu allir sem einn, sólin litaði þakskeggin og ljómaði á styttunum, kirkjuklukkum var hringt og svo tók við kórsöngur og morgunbæn. Kórinn söng að lokum fyrstamaílagið, krakkarnir í kringum mig kysstust og óskuðu hvert öðru gleðilegs maís og svo röltu allir í rólegtheitum til baka í High Street og leituðu sér að plássi til að setjast inn og fá sér morgunverð. Enginn hoppaði í ána en það hefur verið vandamál síðustu ár og ástæðan fyrir því að brúnni var lokað núna og við austurbæingar þurftum að taka á okkur krók. Við Michele kysstumst lítið en hjóluðum um bæinn og leituðum uppi vordansara áður við héldum á heimaslóðir. Fórum á Kaffihús Jóa og borðuðum alvöru enskan morgunverð áður við héldum heim og áfram í vinnu. Gaman að upplifa oxfordskan maídag – en er hins vegar alveg að sofna yfir tölvunni núna.
Fram þjáðir menn í þúsund löndum!
PS. Morgunblaðið segir að nokkir apakettir hafi samt sem áður náð að hoppa í ána. http://news.bbc.co.uk/1/hi/england/oxfordshire/6610449.stm
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)