föstudagur, 30. mars 2007

Merkilegur morgunn



Merkilegur morgunn. Hjólið mitt hefur eitthvað verið að gera mér lífið leitt og skröltir mikið þannig að í gær þegar ég ákvað að fara í hlaupaklúbbinn var ég hálfhrædd um að það bæri mig ekki þessa 15-20 mínútna leið sem ég þarf að hjóla í klúbbhittingarstaðinn. Hefði ekki þurft að velta þeim vanda mikið fyrir mér því þegar ég ætlaði að opna lásinn brotnaði lykillinn í honum og ég varð að hlaupa eins og landafjandi í hlaupin og aftur heim að þeim loknum. Ákvað að fara með hjólið í viðgerð á leiðinni í skólann sem var ekki auðvelt verk. Setti íþróttatöskuna á bakið en hengdi tölvutöskuna á stýrið og reyndi svo að stýra með annarri hendi og halda uppi afturdekkinu með hinni. Cowley Road hefur aldrei verið svona löng og seinfarin og ég var alveg að gefast upp þegar að ungur maður kom til mín og spurði hvert ég væri eiginlega að burðast með þetta hjól. Mér brá en sagðist alls ekki vera að stela því þó það gæti litið þannig út. Hann var hinn kurteisti og sagði að ég liti alls ekki út fyrir að vera hjólaþjófur þó hann vissi svo sem ekki hvernig þeir litu út. Að minnsta kosti sagðist hann vona að ég fyndi mér þægilegri leiðir við þjófnað ef ég væri í raun slíkur þjófur og ég var sammála þeirri athugasemd. En hann tók svo undir afturdekkið og í sameiningu gekk ferðin mun betur og ég komst áfallalaust í Beeline hjólabúðina og má sækja hjólið aftur klukkan fimm. Og var óskaplega þakklát þessum hjálpsama manni.


Það sem ég var orðin verulega sein fyrir ákvað ég að slá öllu upp í kæruleysi og fara niður í Blackwell bókabúðina og að panta bók. Þar sem ég svo vappa niður High Street sé ég á strætóstoppustöð upp við vegg svartan, flottan bakpoka. Þar sem hann virtist verulega umkomulaus hnippti ég í tvær japanskar konur sem biðu eftir strætó og spurði hvort hann væri þeirra en svo var nú ekki. Stóð þarna um stund og snerist í hringi en kíkti svo í pokann og þar var tölva og peningaveski og vegabréf svo mér var um og ó að skilja hann eftir. Það hékk á honum spjald frá arabísku flugfélagi með neyðarnúmeri en mér fannst hálfasnalegt að fara að hringja í það. Langt í lögreglustöðina en hinum megin við götuna er kaffistofa strætóbílstjóranna svo ég ákvað að fara með bakpokann þangað og athuga hvort hægt væri að finna eigandann í einhverjum vagnanna. Var rétt búin að útskýra þetta allt fyrir umsjónarmanninum þegar að gamall líklega pakistanskur maður kom móður og másandi með ferðastösku á eftir sér og hafi augsýnilega talað við þær japönsku og verið bent á mig. Hann var afar þakklátur að fá aftur pokann sinn og sagðist ætla að muna eftir mér í bænum sínum. Það fannst mér nú góð tilhugsun.


En á leiðinni áfram í vinnuna fór ég að hugsa hvað það þykir sjálfsagt hér að stela. Einu sinni fannst mér það alltaf béuð óheppni ef einhverju var stolið frá mér en hér er maður talinn heppinn ef það er ekki stolið frá manni – kannski ekki mikill setningarmunur en afar mikill hugmyndamunur. Og mér leiðist að búa í þannig hugmyndaheimi og vil fá hinn aftur.


Það merkilega við þessa kannski ómerkilegu sögu er hins vegar að þegar ég komst loks í vinnuna áðan og fór að segja hana Andrew skrifstofufélaga horfði hann á mig með opinn munn og sagði: En varstu aldrei hrædd um að þetta væri sprengja!

Og þá áttaði ég á mig að það er til enn hættulegri heimur sem er – kannski sem betur fer – enn utan míns hugarheims.

fimmtudagur, 29. mars 2007

Hugrenningatengls um áhyggjur


Þetta er undarleg færsla sem er tilkomin eftir afar krókótta þanka en þannig er að ég komst í tæri við bók um kennara og kennslu sem lofar afar góðu og ætlaði satt að segja að hafa þennan pistil um kennarastarfið. En sá fljótt að ég þyrfti að undirbúa mig mun betur til að gera því merkisstarfi þau skil sem það verðskuldar og dugar ekki að kasta til höndunum. En í gær sátum við Andrew skrifstofufélagi bak í bak yfir okkar verkefnum og vorum svona í forbífarten að ræða málin yfir öxlina og m.a. að tala um áhyggjur og einhvers staðar í samtalinu fór hann með sínum ástralska framburði að tala um fólk sem væri ‘prone to worry’ - og mér heyrðist hann segja ‘prune to worry’ og sá strax fyrir mér stóra, svarta áhyggjusveskju. Sá þetta alveg fyrir mér – góð og falleg hugsun er eins og safarík plóma en svo hellast áhyggjurnar yfir og hugsunin verður dökk og hrukkótt og steinninn í miðjunni risastór og má alls ekki gleypa. Og já - ég er vissulega áhyggjusveskja og það sem verra er að með genum og uppeldi hef ég komið þessu áfram í hana dóttlu sem getur á köflum verið enn meiri sveskja en móðir hennar. En hvernig tengist þetta svo kennarastarfinu? Jú því þegar ég var að hugsa um kennarastarfið - á undan sveskjunum- fór ég að hugsa um minn eigin kennaraþroska og varð þá hugsað til Ragnheiðar vinkonu minnar Ásgeirs sem ég kenndi með í mörg ár á unglingastiginu. Og hún kenndi mér sko margt en mest þó að vera aðeins minni áhyggjusveskja í kennslu. Eins og allir vita taka unglingar m.a. út sinn þroska með því að prófa sig áfram í tilverunni með mishóflegu uppsteyti við þá sem yfir þeim vilja ráða - eins og kennara. Þannig vaxa þeir og þetta hefði ég átt að vita en ótrúlega oft lét ég plata mig með í leikinn og fór að býsnast yfir einhverjum smámunum. Ragnheiður hafði annað lag á. Þegar að unglingarnir gerðu sitt besta til að ganga fram af okkur hló hún dillandi hlátri og skemmti sér konunglega og sló þar með öll vopn úr höndum uppreisnasinna sem yfirleitt hlógu bara líka. Og mál sem hefðu orðið í mínum meðförum margra tíma núningur og leiðindi gufuðu upp á methraða. Og þar sem ég var að rifja þetta upp fór ég að hugsa að líklega hefði ég verið svo lánsöm í lífinu að eignast vinkonur sem hafa einmitt þennan eiginleika að vera bara alltaf plómur. Áslaug vinkona - sem hefur einmitt þennan hæfileika að geta hlegið að minniháttar málum - hefur ítrekað reynt að kenna mér áhyggjusveskjunni móttóið: Einfaldaður líf þitt. Þetta er gott móttó að lifa eftir og felst bara í svona smá hlutum eins og að kaupa köku í stað þess að baka hana – ef baksturinn veldur þér á þeim tímapunti áhyggjum og hrukkum. Hvar værum við áhyggjusveskjurnar staddar án slíkra vina?

þriðjudagur, 27. mars 2007

Tíminn


Á sunnudaginn breyttu þeir tjallar hér yfir á sumartímann þannig að nú gerist mitt líf klukkutíma fyrr en þeirra sem eru enn heima á Fróni. Aumingja Michell kom það kvöld frá Rotterdam og dáðist mikið að mér á mánudagsmorguninn þegar hún heyrði mig skella útdyrahurðinni löngu fyrir sjö. Svaf sjálf áfram á sínu græna eyra grunlaus um eigið seinlæti.
Mér líkuðu umskiptin reyndar ágætlega þegar ég gekk heim úr vinnunni í gær rétt fyrir 6 í sól og birtu og kvöldið allt í einu orðin almennilegt kvöld með sólsetri en ekki bara myrkri. Hafði farið með hjólið mitt í viðgerð í uppáhaldshjólabúðina á sunnudaginn – það brakaði og brast í pedulunum. Eitthvað áttu þeir við þá en sögðu mér að koma aftur ef allt færi í sama farið og þá þyrfti að skipta um öxul (já ég veit að þetta er hjól en ekki bíll – en maðurinn sagði öxul!).
Það eina sem truflar mig með tímabreytinguna er að ég verð fjarri góðu gamni í haust þegar þeir skila aftur klukkutímanum þannig að ég kem út í mínus þegar upp er staðið. Og á mínum aldri fer hver mínúta að skipta máli.
Í dag var búið að spá gæðaveðri og 17 stiga hita en það var heldur skuggalegt að koma út í þykka þoku í morgun og ég var í fyrsta skipti hálfhrædd að hjóla í skólann. Fannst ég komin í íslenska útilegumannasögu þar sem farartæki og fólk birtist skyndilega úr þokunni. Henni fór ekki að létta fyrr en seinni partinn svo það var sko enginn 17 stiga hiti hér í Oxford í dag og bara af þrjósku sem ég fór ekki í vettlingana mína.
Fór í hádeginu að hitta þær Margréti og Elínu, Íslandskonur og flugustelpur (þær eru báðar að stússast eitthvað með ávaxtaflugur í vinnunni. Margrét að leita að lausn á krabbameini en ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur hvað Elín gerir við sínar karlflugur) og við borðuðum saman hádegismat og lögðum á ráðin með hádegishlaup á fimmtudaginn. Dóttla mín hefur verið í einhverju mömmukasti undanfarið og langað til að koma og heimsækja múttu sína um páskana og lesa fyrir próf. Kærastinn hennar – þessi elska - búinn að splæsa á hana flugmiða sem honum hafði áskotnast. Vandinn samt sá að Michele sambýliskona á von á foreldrum sínum frá Luxeborg um páskana og ég kunni ekki við að fara að bæta við fleiri gestum á stórt heimili. Búin að skoða hótel og gistihús og allt frekar dýrt og dapurlegt. Nú en aumingja Elín hafði einhvern tíma sagt mér í bumbubanatíma í háskólaklúbbnum að þau hjón ætluðu með sína litlu tátu í páskafrí til Frakklands svo ég rauk á hana varnarlausa og falaðist eftir íbúðinni. Elínu þessum ljúfling fannst þetta sjálfsagt mál en lofaði mér samt að ræða þetta við Pálma manninn sinn sem mér heyrðist reyndar á henni að fengi yfirhöfuð litlu að ráða. Vona samt að hann segi já því dóttla er búin að panta flugmiðann og ætlar að mæta með allar sínar óskrifuðu ritgerðir og ólesnu skólabækur og ég verð vonandi komin að næsta kafla og þarf að birgja mig upp af aðferðafræðibókum fyrir fríið. Svo ætlum við að borða saman alíslensk páskaegg frá Nóa.

mánudagur, 26. mars 2007

Mamma beyglar alltaf munninn


Söng Bjartmar minnir mig hér forðum og ástæða þess að mamma beyglaði munninn var að hún var að ‘maskara augun’ fyrir ballferð. Þegar ég var að maskara mín í morgun datt mér í hug maskaraprófið sem ein kollega mín í háskólanum sagði mér frá. Prófið á sér þessa forsögu: Kolleginn ætlaði að biðja manninn sinn um að kaupa fyrir sig maskara í fríhöfninni og komst þá að raun um að maðurinn sem hún taldi hafa horft á sig ótal sinnum í andlitsmálun í gegnum ártuga samband þeirra hafði ekki hugmynd um hvað væri maskari. Hún hélt fyrst að þetta væri einsdæmi en sem sönn félagsvísindakona lagðist hún í rannsóknir og viti menn - það kom í ljós að þar sem hópur karla fékk þessa spurningu– hvað er maskari? – gat yfirleitt enginn svarað því rétt. Við Áslaug vinkona prófuðum þetta á okkar karlasamkundu í London um daginn og sá sem komst einna næst því sagði að þetta væri eitthvað til að smyrja í kringum augun – virkilega hugguleg konan hans! En prófið þetta stelpur næst þegar þið sitjið í karlahópi. Ekki það – eflaust geta þeir svarað í sömu mynt og spurt okkur um heddingar og hornspyrnu. En samt – ég varð alveg steinbit.
Hvílíkt blogg á mánudegi – afsakið.

laugardagur, 24. mars 2007

Óskalög kjúklinga

Sit hér ein á háaloftinu á laugardagseftirmiddegi og hugsa til ykkar allra heima sem mér þykir vænt um og sakna sárlega og sendi ykkur eftirfarandi: Sniff - sniff.

Bókahátíðin (næstum) að baki


Og ég skemmti mér konunglega á þeim erindum sem ég sótti. Er til dæmis hætt að vera skotin í sálfræðingnum Bruner og búin að finna mér annan til að dáðst að, Colin Dexter pabba Inspector Morse. Hélt reynar að konur á mínum aldri ættu að vera farnar að kíkja á sér yngri menn en ég verð bara hrifnari og hrifnari eftir því sem þeir verða eldri. Það er fyrst þegar þeir fara að líta út eins og rykugar sveskjur að hjartað í mér fer á skeið! Hlustaði á Colin í hádeginu á fimmtudaginn og hann var að fjalla um muninn á bókinni og sjónvarpinu og gerði það á svona einkar ‘lún’ hátt. Hann sagði skemmtilega frá þessum mun t.d. sagði hann marga þykja vænt um bækurnar sínar en taldi ólíklegt að nokkur elskaði sjónvarpið sitt. Við bókmenntahátíðargestir kinkuðum kolli en ég held að það séu nú margir sem elska sjónvarpið sitt ofurheitt. Annað dæmi hans um óljós skil bóka og sjónvarps var þegar hann fór á krá með John Thaw sem lék Morse. Þar sat afgreiðslustúlkan, tvítug yngismær og las bók eftir Colin. Hún færði þeim kollur en mætti svo með bókina sína og spurði kurteislega hvort hann væri til í að árita hana fyrir sig. Colin uppveðraðist allur enda stúlkan ung og falleg og sagði: Alveg sjálfsagt my darling. Og stúlkan svaraði: Ég var ekkert að tala við þig!

Í hádeginu í gær fór ég að hlusta á James Naughty á BBC ræða við Alexander McCall Smith um kveneinkaspæjarastofu númer 1 og starfsmennina þar. Það var líka hið ágætasta erindi og afar gaman að heyra hvernig höfundur hugsar og skrifar bækurnar sínar. Hann var t.d. spurður um tedrykkju frú Ramotswe en hún og aðstoðarspæjarinn Maktusi þurfa reglulega að leggja frá sér verkin og hita sér rauðrunnate. Alexander sagði að þessi tedrykkja öll helgaðist m.a. af því að þegar hann vissi ekki hvað ætti að gerast næst þætti honum gott að láta sögupersónurnar taka sér bara smá tehlé. Það væri líka ákveðin hvíld fyrir okkur lesendur sem myndum alveg fara úr límingunni ef það væri ekki smá hvíldarhlé í bókum. Þeirra er kannski ekki þörf í kveneinkaspæjarasögunum enda brunar tíminn nú ekki beint áfram þar enda skrifaðar í eftirsjá höfundar eftir hægari tímatakti fortíðarinnar.

Endaði svo daginn í gær að fara að hlusta á höfundinn James Attlee kynna bókina sína Isolarion sem er um Cowley Road. James þvældist um götuna með segulband og ræddi við íbúana og verslunareigendurna þar. Þarna heyrði ég margt áhugavert t.d. er herra Taylor sem býr til og selur prestahempurnar einn af fáum í heiminum sem gerir hvorki upp á milli trúabragða né lærðra og leikra. Hann býr sem sagt ekki bara til hempur á kaþólska presta og lútherstrúar presta heldur saumur jafnframt hempur á lögmenn og dómara. Keypti bókina hans og fékk áritaða.

Mér fannst merkilegt að bæði James og Alexander tóku það fram í erindum sínum að þeir væru að skrifa um lítinn hluta af heiminum (Cowley og þorp í Botswana) en í trausti þess að það sem gerðist þær mætti yfirfæra á heiminn allan. Þetta er auðvitað það sem allir rannsakendur m.a. ég - eru að gera. Skoða örlítinn hluta af heiminum í þeirri von að þá þekkinguna megi nota til að skoða og skilja fleiri staði í heiminum.

Sem sagt búið að vera gaman á bókmenntahátíðinni en nú held ég að það sé þörf á að slá aðeins í ritgerðarklárinn minn. Varð ekki eins mikið úr verki og til stóð. Ég hef alltaf svolítið skerta sýn á sjálfa mig. Sé mig sem þessa ofurkonu sem skellir sér á hjólið að hlusta á höfunda og svo ætla ég að hjóla í snarhasti í vinnuna aftur og taka upp fyrri vísindastörf. Raunveruleikinn er að eftir erindið stend ég í rúman hálftíma í röð til að fá áritun. Fer svo í aðra röð að kaupa mér samloku. Hjóla hægt í vinnuna af því það er svo gaman að vera á ferli um bæinn á miðjun degi. Hita mér rauðrunnate í vinnunni og borða brauðið yfir netmogganum. Hugsa aðeins um erindið og laumast svo til að lesa aðeins í nýju bókinni og dáðst að áritunni. Finnst svo eiginlega ekki taka því að byrja því klukkan er orðin svo margt.


En seinna í dag ætla ég að fara og kaupa mér freyðivín - opna það ein á Divinity Road og skála vel og lengi fyrir henni nöfnu minni Ársælsdóttur sem mun á sama tíma lyfta glasi í hópi góðra kvenna í Kópavogi og fagna hálfraraldaráfanganum mikla. Vildi afar gjarnan vera frekar í Kópavoginum.

fimmtudagur, 22. mars 2007

Að biðja bænirnar sínar


Ég vakna orðið svo snemma að morgni að ég held ekki haus þegar að líða tekur á kvöld og í gærkvöldi gat ég ekkert lesið í einkaspæjaranum og steinsofnaði án þess að biðja bænirnar mínar. Og bara við að skrifa þessa setningu fór ég aðeins að skammast mín fyrir bloggið því einhvern veginn er það nú svo að hjá mér og mínum þykir umræða um bænahald jaðra við argasta klám og mér finnst allt að því dónaskapur að ræða eigin trú. Er um æfina búin að sveiflast til og frá í trúnni og minn trúarpendúll á bæði snertifleti í tímum trúarhita og trúleysis.
Sem börn vorum við guð í nokkuð góðu sambandi og í herbergi okkar Ragnars bróður fór fram mikið helgihald á hverju kvöldi. Þar leiddi ég sem eldri systir bænalestur sem laut afar ströngum reglum. Man ekki reglurnar, en þær snerust um röðina á ótal barnabænum, faðirvorinu og svo almenna predikun um hvern átti að blessa og geyma. Við enduðum dagskrána með því að syngja ójesúbróðirbesti og eftir það mátti alls ekki tala. Stundum datt mamma inn í mæðrasamviskubitið og mætti til okkar á rúmstokkinn að segja kvöldbænir en hún kunni náttúrlega ekki neitt á okkar reglur svo við fórum fyrst kurteislega með henni yfir hennar dagskrá en um leið og hún lokaði dyrunum hófum við okkar eigin alvöru bænaritúal. Á þessum tíma vorum við brósi vikulegir gestir í barnamessu í Laugarneskirkju. Séra Garðar Svavarsson hjólaði um Laugarneshverfið á virkum dögum og sagði okkur nokkra æsispennandi hluta úr næsta kafla framhaldssögunnar en bað okkur að mæta á sunnudaginn til að heyra rest. Við gerðum allt fyrir séra Garðar og þegar hann bað okkur um að syngja: Svara – svara vertu velkominn - svo hátt að þakið lyftist af kirkjunni sat ég á fremsta bekk og æpti út í eitt. Reyndar af því að ég hélt í nokkur ár að við værum að syngja : Svavar, Svavar vertu velkominn - og að þar væri um að ræða pabba séra Garðars sem væri örugglega dáinn en jafnvel væntanlegur til baka- í gegnum þakið.

Um unglingsár hafði trúin alveg fjarað út þrátt fyrir að ég væri sumar eftir sumar að vinna í sumarbúðum Þjóðkirkjunnar þar sem ég fór oft með kvöldbænir og stjórnaði litlum börnum í biblíutímum við að lita jesúmyndir. Eftir að guð hvarf mér tímabundið á unglingsárum höfum við verið í svona on-off sambandi. Ég hef fulla trú á honum (eða henni) en hef aldrei verið almennilega sátt við millistykkið - eða kirkjuna. Mér finnst einhvern veginn eins og Megasi að guð sé í girðingunni amma – í hverdeginum og pólítíkinni og lífinu en ekki svona uppskrúfaður í óskiljanlegri túlkun presta sem geta sumir hverjir ekki talað um hann nema í nefmæltri falsettu sem ég veit ekki í hvaða kúrsi í guðfræðinni er eiginlega kennd (afsakið þetta er næstum ókurteist). En samt er ég nú alltaf að leita og í vetur prófaði ég að fara í Kvennakirkjuna og leist bara vel á. Mér finnst reyndar engu skipta hvort að guð er hann eða hún því fyrir mér hefur hann/hún lítið kyngervi en það er miklu meira gaman í Kvennakirkjunni af því presturinn er frábær og talar með hjartanu og ég á einhvern veginn auðveldara að hrífast og syngja með.
En svo er það þetta bænirnar. Væri ég heima á Hjarðarhagnum myndi ég örugglega ekki fara með bænir á hverju kvöldi. En hér í útlandinu finnst ég mér vera svo fjarri þeim sem mér þykir vænt og finnst ég á einhvern hátt bera ábyrgð á. Svo þetta með bænirnar er svona meira til að koma ábyrgðinni yfir á guð á meðan ég hef ekki tök á að axla hana almennilega. Og fyrst ég er á annað borð að þessu fá hinir og þessir - sem ég ber enga sérstaka ábyrgð á – að fljóta með. Bara svona til öryggis.

miðvikudagur, 21. mars 2007

Nú er úti norðanvindur....


Um leið og Hannes mætti til Oxford með ljósu sumarbuxurnar mínar fór að kólna og nú liggja þær á vísum stað og glotta út í annað þar sem ég gref upp gammósíur og ullarpeysur á morgnana. Hann blæs bara verulega að norðan þannig að ég þarf að streða á hjólinu í vinnuna og mæti þar með vot augu og nefrennsli. Hvað varð nú um vorið sem var rétt búið að tylla niður tánum. Ég get snýtt mér en það er af og frá að vesalings páskaliljurnar muni lifa þetta kuldakast af.


Var sein að koma mér af stað í morgun því ég vildi koma við í Christ Church Collega og kaupa mér miða á Oxford bókmenntahátíðina sem var formlega sett í gær (http://www.sundaytimes-oxfordliteraryfestival.co.uk/). Þar sem ég verð alein heima það sem eftir er viku datt mér í hug að þátttaka þar myndi gulltryggja að ég færi ekki að fá heimþrá svona upp úr þurru. Vandinn að venju er að velja úr öllum þeim aragrúa erinda sem eru í boði. Þarna verða ljóðskáld og pistlahöfundar, upplestur úr ástarsögum, barnabókum, heimspekiritum, sagnfræði, matreiðslubókum og guð má vita hvað.

Ég er illa að mér í heimi bókmenntanna þrátt fyrir að vera sílesandi og þurfti því að velja dálítið blint en tók um leið mið af óbókmenntalegum þáttum eins og á hvaða tíma dags og hvar fyrirlestrarnir verða haldnir. Ætla að nota hádegið á morgun til að hlusta á Colin Dexter segja frá því hvernig honum finnst að sjá sögupersónuna sína, Inspector Morse á tjaldinu og undir kvöld fæ ég að hlusta á BBC pistlahöfundinn Lynne Truss halda erindi. Veit ekkert um hana en leist vel á lýsinguna og svo fylgdi rauðvínsglas með þannig að hún getur ekki verið annað en mín kona. Á föstudaginn ætla ég að eyða hádeginu með Alexander McCall Smith þar sem hann talar um nýju bókina sína um einkaspæjarann Mma Maktusi en ég er einmitt að lesa hana uppi í rúmi á kvöldin um þessar mundir og finnst hún frábær eins og fyrirrennarar hennar. Á föstudagskvöldið mæti ég svo í Blackwell bókabúðina að hlýða á James Attlee kynna bókina sína Isolarion. Hann þekki ég heldur ekki en þegar ég sá að bókin fjallar um leyndarlíf þeirra sem búa og starfa við Cowley Road var ekki aftur snúið. Ég hef áður bloggað heila færslu um götuna sem ég fer daglega um. Þorði svo ekki að kaupa fleiri miða ef þetta væri svo bara allt hundleiðinlegt og svo er þetta rándýr skemmtan en er með eitt og annað í sigtinu yfir helgina eins og erindi Charles Lind sem lifði af hremmingar í ferð á Everest eða pallborð um bernskuna í nútímanum. Nú ef veðrið er gott væri ekki amalegt að bregða sér í klukkutíma skáldagöngu um Oxford.

En svo þarf ég nú að muna að læra svolítið líka!

mánudagur, 19. mars 2007

Stutt helgaryfirlit


Skilaði Hannesi í rútu eldsnemma í morgun og á leiðinni heim á Cowley Road var einhver búinn að gefa dúfunum sinn brauðskammt fyrir utan heilsugæslustöðina. En nú voru með í matarboðinu þvílíkur aragrúi af rottum að ég varð að stoppa og fylgjast með borðhaldinu með netta gæsahúð.

Skemmtileg helgi að baki. Mér fannst gaman að hafa karlinn bara svona út af fyrir mig og við tókum lífinu afar rólega. Sáum eldsýningu í miðbænum á föstudagskvöld og fórum á barinn þar sem Tolkien var vanur að sitja og súpa. Enduðum kvöldið á að borða kráarmat sem okkur Michele fannst ágætur en Hannes var meira skeptískur.

Notuðum laugardaginn í að skoða merkilega bæjarstaði, fórum á annan uppáhaldsbar, the Turf þar sem inspektor Morse situr stundum að sumbli í þáttunum. Kíktum í bókabúðir og fórum í skoðunarferð með túristarútunni. Skoðuðum Christ Church skólann og gengum heim eftir enginu þar meðfram Cherwell ánni. Borðuðum á ítölskum stað, fylgdumst með mannlífinu fyrir utan gluggann og heimsóttum aftur the Turf af því okkur þótti svo gaman þar fyrr um daginn. Enduðum á Kings Arms í miðjum hópi tónlistarmannasem við erum viss um að eru frægir og að við höfum átt að vita hverra manna væru en þar sem þeir tilheyrðu hvorki Bítlunum né Stones þekktum við auðvitað ekki haus né sporð á þeim. Þeir sögðust nýbúnir að semja lag fyrir Emilíu Torríni og biðu spenntir eftir viðbrögðum frá henni.

Mölluðum okkur enskan morgunverð í gærmorgun og buðum Michele í gillið. Orðið kaldara í veðri svo við fórum með trefla á bæjarröltið og keyptum buxur fyrir Rönku sem Hannes ætlar að taka á dítúr til Lubliana áður en þær fá að fara heim. Sátum og supum kaffi og lásum blöð í Waterstone bókabúðinni áður en við keyptum okkur steik í Marks og Spencer og fórum heim að elda. Komum við í Magdalenuskólanum á heimleiðinni og skoðuðum hann. Kom í ljós að starfsmannakortið mitt veitir mér aðgang að öllum skólunum ásamt gesti þannig að okkur fannst við hafa sparað verulega og Hannesi finnst að ég eigi að gera þetta daglega til að vinna mér upp í 400 pundin sem ég þurfti að punga út fyrir dvölina hér. Michele er hins vegar stórtækari og hafði hugsað sér að standa fyrir utan og selja fólki aðgang í gegnum sitt kort – á hálfvirði.


Og svo er bara venjuleg vikudrusla fram undan og meira að segja tómlegri en vanalega. Michele er á leið til Rotterdam á miðvikudag og verður út vikuna þannig að nú er ég alein heima á Divinity Road og get horft ein á megrunarþætti í sjónvarpinu kvöld eftir kvöld. Og í vinnunni er Sandra skrifstofufélagi á ferð um norður England svo að við Andrew verðum ein í því kotinu. Hannes verður á ráðstefnu í Lubliana út vikuna og sleppur við að tala við mig - eða kannski frekar hlusta á mig - daglega á skæpinu. Kannski mun bara kaflanum mínum miða eitthvað áfram þessa vikuna?

föstudagur, 16. mars 2007

Ég er hýr


Nei ekki þannig - bara hýr og rjóð því að það er von á Hannesi í helgarheimsókn með rútunni klukkan þrjú í dag. Reyndar var hann ekki búinn að finna flugmiðann sinn undir miðnætti í gær svo kannski kemur hann bara ekki neitt. En ég ákvað að slá öllu upp í kæruleysi og skippa skólanum alveg. Hóf daginn á því að þrífa ísskápinn sem var orðinn óþarflega mikið lífrænn og lifandi. Hef svo setið við að lesa ritgerðir meistaranema sem stefna ótrauðir á útskrift í vor og voru eflaust orðnir langþreyttir á bið eftir endurgjöf frá kennaranum sínum. Svo á ég bókaðan tíma í klippingu niðrí bæ hálftólf og ætla þaðan beint í leikfimi þannig að það verður ekkert smá flott pæks sem tekur á móti úrvinda ferðalangi - verst er að hann á ekkert eftir að taka eftir þessum breytinum öllum.


En það er margt að sjá og skoða í Oxford um helgina. Í tilefni 100 ára afmælis Oxfordhéraðs (nei það getur ekki verið - það hlýtur að vera milljón ára gamalt!) er slökkt á götulýsingum í Breiðstræti og í staðin hafa verið settir upp lifandi ljósaskúlptúrar og eldur brennur þar upp um allar trissur. Hljóp með hlaupaklúbbnum þar í gegn í gærkvödl og þetta var stórflott og ég hlakka til að sýna Hannesi þetta í kvöld. Á morgun er svo dagur heilags Patreks og kannski getum við fengið okkur grænan bjór eins og þeir serverurðu alltaf í ameríkunni á þeim degi þegar ég var þar forðum.


En hlaupin í snoðun.

miðvikudagur, 14. mars 2007

Bruner að baki


Jæja þá er Brunerdagurinn mikli að baki og hann tókst í alla staði vel – sem betur fer því allir í menntunardeildinni voru svo sannarlega búin að gera allt sitt besta. Og sólin skein skært á Bruner og okkur hin og glampaði á pússuðum gluggum og nýmáluðum gólfum. Hátíðin byrjaði með fyrirlestri Bruners fyrir troðfullum sal og satt að segja var dálítið merkilegt að heyra í þessum 92 ára karli og virkilega hrífast með. Bruner telur að næsta verkefni kennara og skólamanna verði ‘enculturation of the possible’ sem er svona í minni lummuútgáfu ábending um að í námi og kennslu eru alltaf einhverjar aðrir möguleikar tiltækir. Ekkert endilega gefið og alltaf hægt að segja EN – sem er orð sem er til í flestum tungumálum og stendur fyrir einmitt það að sem að gæti kannski eða kannski ekki verið. Fyrirlesturinn var tekinn upp og verður bráðum settur á heimasíðu háskólans eins og hér segir. http://www.admin.ox.ac.uk/po/news/2006-07/mar/14.shtml

Eftir fyrirlesturinn fluttum við okkur upp í deild þar sem nokkrir frægir karlar - þ.á.m. Lord Adionis - héldu ræður og einn þeirra svipti svo tjaldinu af málverkinu af Bruner og við hin skáluðum, borðuðum smárétti og tókum myndir. Upp úr sjö var svo hátíðarkvöldverður – afar hupplegur og breskur. Farið með borðbæn á latínu þar sem ég skildi bara ‘amen’ og svo örfáar ræður haldnar undir borðum og Bruner gamli hinn kátasti sagði nokkur orð. Ég lenti á sætasta borðherranum, honum Pip sem reyndar sofnaði svo undir miðju borðhaldinu enda bara 6 mánaða og sonur listakonunnar sem gerði portrettið. Ég vakti hins vegar allt boðið í gegn og hjólaði heim léttkennd og léttklædd og létt í lund.

Ruslakarlarnir vöktu mig svo fyrir hálfsjö í morgun svo ég dreif mig í vinnuna en var dulítið eitthvað lúin og framlág. Sat í bókasafnskjallaranum um stund áður en ég fór að hlusta á Svíann Roger Säljö sem var heiðursgestur við opnum nýrrar miðstöðvar um Sociocultural og activity kenninga. Eftir hádegi var svo panell um aðferðafræði þessara kenninga. Veit að Þuríður Jó. hefði setið og kinkað kolli út í eitt og spurt panelinn margra gáfulegra spurninga en ég mátti hafa mig alla við að halda þræði – og samt slitnaði hann oft. Kannski var það vínið í gærkvöldi eða súrefnisskorturinn í salnum- eða að ég er hreinlega bara ekki betur gefin. Kannski það hafi verið félagsmenningarleg blanda alls þessa.

Gafst því upp snemma í dag. Sólin skein og ég átti stefnumót í Tesco við Michele og bíð núna bara eftir því að komast í háttinn og hefja nýtt (og betra) líf á morgun. Ekki seinna vænna því svo er von á Hannesi mínum á föstudaginn. Þarf að hringja í hann og minna hann á lýsið og hrútspungana.

mánudagur, 12. mars 2007

Lone ranger


Ég er búin að vera svona hálfgerður 'lone ranger' alla helgina. Tókst að hespa af kaflanum mínum fyrir klukkan átta á föstudagskvöldið, að minnsta kosti þannig að hann væri þokkalega heillegur fyrir áframhaldandi helgarsnyrtingu svo ég gat farið heim. Michele farin af bæ og í næsta bæ í helgarheimsókn til Yvonne og ég því ein heima í kotinu.

Á laugardagsmorgun uppgötvaði ég að sambandið við umheiminn var rofið og sama hversu mikið ég fiktaði í tölvunni, módeminu og þráðlausa sendinum tókst mér ekki að ná sambandi. Og það þýddi bara enginn laugardagur með RÚV, enginn Moggi, engin spaugstofa og ekkert skæperí við vini og vandamenn. Enginn tölvupóstur. Sat ráðþrota fram undir hádegi og horfði voteyg á Thinkpadinn en það hafði engin áhrif. Vann að fræðistörfum netlaus í svona tvo tíma.

Varð svo döpur að ég neyddist til að fara í göngutúr í sumarblíðu niður í bæ undir því yfirskini að ég væri að leita að matreiðslubók fyrir Slugu vinkonu – sem ég fann því miður ekki – en gat þess í stað keypt mér sjálfri fullt af bókum og nýjan varalit í örörlítið öðrum tón en hinir tólf sem ég með mér hér í útlandinu. Varð aðeins glaðari við þetta. Hannes hringdi og sagðist ekkert kunna á tövlur en ráðlagði mér að slökkva og kveikja á routernum. Fannst það heimskuleg hugmynd.

Það var von á Annie frá Hong Kong síðdegis á laugardeginum og mér hafði verið falið það ábyrgðarhlutverk að sjá til þess að hún kæmist inn í hús því í fyrri dvöl sinni hér var hún eitthvað að vandræðast með þessa fjóra lása og þjófavarnarkerfið. Winifred átti von á henni ‘late afternoon’ sem ég var ekki viss um hvað merkti. Flýtti mér því heim úr bænum og beið eftir Annie sem mætti – lyklalaus – klukkan hálfellefu að kvöldi svo hún veit líklega ekki heldur hvað ‘late afternoon’ þýðir.

Helgarveðrið hér hefur verið alveg ótrúlegt og þó að Winifred sé áhyggjufull yfir gróðurhúsaáhrifum og ég kinki alvarleg kolli í þeirri umræðu finnst mér dásamlegt að skoppa hér út í sól og sextán stiga hita.


Var ákveðin að fara í langhlaup á sunnudagsmorgni með Heddintonunum en þegar á reyndi var allur vindur og uppburður úr mér og ég ekki viss um hvort ég kæmist yfirhöfuð spönn frá rassi. Hef lítið hlaupið upp á síðkastið og ekkert langt. Lagði því í hann á eigin vegum rétt fyrir tíu og ákvað að taka öfugan sunnudagshring með strætópening í vasanum. Og það gekk bara svona glimrandi. Tókst að fara allan hringinn án þess að villast nema einu sinni og gat þá bjargað mér á strætóupplýsingum. Kom heim eftir tæplega tveggja tíma hlaup þar sem síðasti hálftíminn var eins og atriðið í Baywatch forðum – sýnt afar hægt – og aðal keppikeflið að ná að fara frammúr gömlum hjónum neðst á Marston Road – hann með hækjur.


Beið heima til klukkan níu í morgun til að ná sambandi við hjálparlínu BT. Sat þar á spjalli við drenginn Mike í 45 mínútur. Hann lét mig taka út kerfi og setja inn kerfi. Slá inn tölur og taka út tölur og ekkert gekk. Eftir að hafa ráðfært sig við menn í næstu deild stakk hann upp á að ég slökkti og kveikti á routernum. Og allt komst í lag. Vona að Hannes lesi ekki bloggið mitt.

fimmtudagur, 8. mars 2007

Mest um fjölmiðla


Winifred og Patrekur, leigusalar eru á bak og burtu þessa vikuna svo að við leigjendur leikum lausum hala á Divinity Road. Michele lætur frelsið ekki slá sig út af laginu og heldur uppi sínum hefðbundu kvöldvenjum og situr við sauma. Ég hins vegar flippaði út og í stað þess að sitja yfir bókum og skrifa blogg hef ég reynt að vinna upp tveggja mánaðar skort á sjónvarpsglápi. Gamla, stóra sjónvarpið á miðhæðinni nær fjórum stöðvum en samt eru einhvern veginn alltaf sams konar þættir á þeim öllum. Síðustu tvö kvöld hef ég getað valið á milli þess að sjá Breta í gúmmístígvélum láta langþráða drauma rætast með því gera upp gömul hús og hallir eða feitar konur reyna við drauminn um að verða grennri. Gúmmístígvélafólkið stendur í ströggli við fólk frá einhvers konar torfusamtökum sem vill skipta sér af hverjum múrsteini og þakskífu en feitu konurnar liggja undir stöðugum átölum og leiðindum frá hinni ræfilslegu Jane sem lætur þær feitu meira að segja kúka í Tupperwaredós og segir svo: Oj bara - þegar hún tekur lokið af. Ég stóð mig að því að verða spenntari fyrir múrsteinunum.

Vegna sjónvarpsleysis er ég ósköp lítið inn í gangi mála hérlendis en hef tekið upp þann sið að fá mér tebolla um klukkan 10 í vinnunni og lauma honum með mér yfir í tölvuherbergið þar sem ég skrolla niður netmoggann á methraða. Þetta er náttúrlega ekkert í líkingu við það skipta alvöru blaðinu á milli okkar Hannesar yfir ristuðu brauði og góðu kaffi í eldhúsinu á Hjarðarhaga en verður að duga að sinni. Það veitir mér ákveðið öryggi að vita af svifryksáhyggjum og gangi í Baugsmáli þó ég nenni ekki alveg að setja mig inn í þau málefni. En nóg til þess að þegar ég varð andvaka upp klukkan þrjú í nótt gat ég ekki hætt að hugsa eftirfarandi:
- Ef og þegar að Miklabrautin verður sett í stokk – hvað verður þá um allt svifrykið? Ég meina það hverfur ekki neitt eða minnkar heldur hlýtur að safnast saman í stokknum og hvert er því veitt úr honum?
- Ef ég bið Hannes að finna tölvupóst frá flugfélaginu með upplýsingum um næstu ferð þá finnst honum það erfitt. Og ég skil það því ég er sjálf alltaf að leita að alls konar tölvupóstum varðandi hitt og þetta og get aldrei fundið neitt. En hver leitar – og finnur - öll þessi týndu bréf í Baugsmálinu og væri ekki ástæða til að halda um þetta námskeið fyrir okkur hin?

Las líka í netmogganum i morgun pistil Ingveldar Geirsdóttur – sem er ekkert skyld okkur Óla Geirs - um franska heimspekinginginn Baurillard sem er nýdáinn. Hann var að halda erindi í London þegar ég var síðast í rannsóknarleyfi og þær stöllur sem þá deildu með mér vinnuherbergi fóru að hlusta á hann. Þær komu upprifnar til baka en gátu samt engan veginn sagt mér hvað hann hafði sagt í erindinu. Pistill Ingveldar um hann var hins vegar góður og minnti mig á þá tíma þegar ég sem unglingur datt niður í þunga þanka um það hvort að líf mitt væri kannski ekki raunverulegt heldur bara draumur einhvers annars. Nokkuð sem ég hef eiginlega aldrei fengið neina staðfestingu af eða á.

En sem sannur Íslendingur – aðeins að veðrinu sem hefur verið sérlega gott síðustu daga og gefur glimt af vori og hvernig Oxford hlýtur að líta út á björtum sumardegi. Fór út í garð í hádeginu í gær að skoða Cherwell ána sem hafði flætt yfir göngustíga þannig að virðulegt fólk sem var á leið í vinnu varð að fara úr sokkum og skóm og bretta upp á jakkafatabuxurnar og vaða yfir á tánum. Er ekki frá því að það sé enn betra veður í dag en í gær svo kannski fer ég bara aftur í garðinn í dag og athuga hvort eitthvað hefur sjatnað í ánni.

mánudagur, 5. mars 2007

Lundúnir að baki


Jamm og já og þá er helgin að baki og Hannes minn, Sillarnir og aðrir góðir félagar flognir heim á Frón aftur. Herleg helgi að baki með skoðunarferðum um hin ýmsu hverfi Lundúna, allmörgum kráarviðkomum (enda skilst mér að Hannes og félagar hafi verið á sérstöku bjórnámskeiði sem þeir féllu reyndar allir á í lokin), misgóðum matsölustöðum, skemmtilegu búðarrápi, örferð á British Museeum og dulítið af kossum og knúsum. Veðrið bjart og fallegt nema á skilnaðardaginn þegar rigndi út í eitt og var bara við hæfi. Tómlegt að fara ein heim í rútu, vot í fæturna en ekki ástæða til mikillar sorgar því ég á von á Hannesi aftur í heimsókn fyrr en varir. Þá kemur hann hingað til Oxford og kannski – ef hann er heppinn – verður Oxford United að spila heimaleik við Camebrideham þá helgina. Ef ekki býð ég honum út að hjóla.


Íslenska handprjónasambandið hefði hins vegar átt sæludaga í hausnum á mér í dag – tómur lopi og lognmolla og mér tókst ekki að berja saman heilli hugsun þrátt fyrir langa setu á skrifstofunni. Michelle sagði að svona dagar væru oft lúmst góðir því að þó sýnileg afköst væru lítil væri kollurinn að malla og vinna úr góðum hugmyndum. Fullvissaði hana um að heiladauðinn í dag myndi aldrei nokkurn tíma nýtast til æðri verka. Sá mest eftir að hafa ekki farið fyrr heim að kaupa í matinn og þvo þvotta. En kannski hefði ég ekki ráðið við það heldur. Að minnsta kosti stóð ég upp frá tölvunni upp úr fimm og uppgötvaði að gleraugun mín voru algjörlega horfin. Leitaði af mér allan grun áður en ég fór yfir á bóksafn til að athuga hvort þau hefðu nokkuð orðið eftir þar. Því miður reyndist það ekki vera. Þeir sem þekkja mína sjón vita að ég kemst ekki spönn frá rassi án þeirra og að þau eru gjörsamlega gagnslaus nokkrum öðrum en mér. Auk þess að vera með sértæka sjónskekkju er ég með +2.5 á hægra auga og -2,5 á því vinstra – að ofan – því fyrir neðan miðju eru hlutföllin +3,5 og -1,5. Leitaði enn og aftur á skrifstofunni og fékk núna allt bókasafnsfólkið í lið með mér á bókasafninu. Sem betur fer var ég með varagleraugun mín í skrifborðsskúffunni og gat því komist heim án teljandi áfalla. Tók upp fartölvuna áðan og - já já – upp flugu gleraugun vendilega rúlluð inn í tölvusnúruna. Verð að muna að segja þeim á bóksafninu frá þessum undarlegheitum á morgun. Eða ekki.

Michele bjargaði svo því sem bjargað var með frábærum kjúklinarétti:
4 msk mascarpone ostur
tvær kjúklingabringur með skinni
1 tsk af létt mörðum fennikufræjum (áttum þau ekki og það virtist í góðu lagi)
1 sítróna – safi og svo börkur skorinn með skrælara í stórar ræmur
10 kirsuberjatómatar
1 tsk af kapers án vökva (við settum ríflega það).


Ofninn hitaður í 220. Tveimur matskeiðum af ostinum troðið undir skinnið á hvorri bringu. Smá olía sett yfir svo og fennelfræin og sítrónubörkur og saltað og piprað eftir þörfum.
Sett á ofnfast fat ásamt tómötunum, kapersinu og sítrónusafanum og bakað í 30 mínútur eða þar til tilbúið. Og þetta ku vera fyrir 4 en þeir hljóta að vera matgrennri en við Michele sem svældum þessu í okkar tvær einar!