Öllum stórum verkefnum fylgja einhver smærri og þau smáu reyndust mér svo stór í dag að ég komst aldrei almennilega í það stóra. Fyrst var að vandinn við að blogga. Ég var varla búin að fagna minni fyrstu færslu þegar ég uppgötvaði að ég kunni ekki að skrá mig aftur inn á mína eigin síðu og virtist lengi vel hafa verið gerð útlæg þaðan. Alls konar tilraunir og neyðarbréf til dóttlu dugðu þó á endaum til að bjarga málum - eins og þessi færsla sýnir.
En stóra vandamál dagsins í dag var að útvega mér passamynd af sjálfri mér sem að deildaskrifstofustjóri sagði mig þurfa til að fá aðgangskort að skóla og bókasöfnum.
Bölvaði í hljóði yfir því að hafa ekki tekið með afganginn af myndunum sem ég þurfti að taka í Leicester um árið þegar að peningaveskinu var stolið frá mér í skátabúðinni.
Ég lagði því að stað í leiðangur síðdegis en hafði litla hugmynd um hvar ég ætti helst að bera niður. Ég veit að það er hægt að taka svona myndir í Kringlunni heima en fann ekkert hér sem gæti verið Kringla. Eftir að hafa ráfað ögn um bæinn brá ég mér inn í búð og spurði þá afgreiðslustúlkuna sem mér fannst elskulegust á svipinn hvort hún vissi hvert ég gæti snúið mér fyrir myndatöku. You want booth? spurði hún og ég sagði já enda vildi ég bara finna svona myndaklefa en ekki alvöru ljósmyndara. Go to booth! sagði hún þegar ég horfði á hana skilningslausum augum og fannst lítil hjálp í henni þessari. Eftir smá pauf kom þó í ljós að ég átti að fara í Booths - stórapótek þeirra tjalla.
Þangað fór ég og fann myndklefann í barnafatadeildinni. Settist móð á koll og gerði allt eins og konuröddin í klefanum sagði mér að gera það. Hún hefði samt betur sagt mér að greiða mér því þegar myndirnar duttu í hendurnar á mér sýndu þær mædda og úfna miðaldra konu sem ég kannast eiginlega ekkert við. Verð samt að treysta því að hún dugi á aðgangskortið mitt.
miðvikudagur, 10. janúar 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
7 ummæli:
Haha en fyndið, ég lenti nefnilega í svipuðu í gær. Var að sækja um nýjan passa og þá var ég vinsamlegast beðin um að fara í myndatöku. Þurfti að setjst á stól fram í miðri afgreiðslu hjá honum sýslumanni. Eitthvað var myndin broslítil og skrýtin, kannast lítið við þessa úfnu, fýldu, þreytulegu KONU!
Guð minn góður! Ef þú ert orðin KONA - hvað gerir það mig þá?
En hvad verdur gaman ad geta adeins fylgst med thér í útlegdinni.
Til lukku með bloggsíðuna þína :-)
Þú verður síðan að setja upp allskonar hliðarsíður, með uppáhalds> hljómsveitunum..sætustu kroppunum...og ekki gleyma djamm-myndunum... Það er sko algjört möst á svona bloggsíðum ??!!
Gangi þér vel systir góð..
Kveðja,Hildur litla
Sæl dúllan, gaman. Tengdasonur minn gerði þessa líka fínu heimasíðu fyrir okkur í kosningaslagnum. Svo er hann búinn að breyta henni og frúin og reyndar Sveinn líka ætluðum að vera svo dugleg að skrifa inn á hana að minnsta kosti einu sinni í viku. Hlakka til að lesa næsta blogg.
kveðja borghildur
Viltu að ég sendi þér djammmyndir til að setja inn á síðuna ? Af nógu er að taka. Ég var einmitt að fá eina úr framköllun af ykkur Kristjáni að dansa á Ásalæk og Birta sagði að það væri eins og hún væri tekin á Grund. Svo á ég líka nokkrar góðar frá Áramótunum.
Þú lætur mig bara vita. Það var gaman í Vestmannaeyjum, kom í bæinn um hádegi og fór beint í vinnuna og er hér enn....
Heyrðu sluga - var að sýna sambýliskonunni myndir áðan af dótturinni og Hannesi og fór og langt og lenti inn á áramótummyndum - og það getur vel verið að þær líti út fyrir að vera á grund en það virkar á myndunum eins og mikil grundargleði!
Fundum ekki snúruna í myndavélina en þegar hún finnst og kemur þá set ég inn myndir af ....skrifborðinu mínu!
Skrifa ummæli