sunnudagur, 14. janúar 2007

Scype og skoðunarferð

Við lifum á merkilegum tæknitímum. Ég kveið því þessi ósköp að fara frá Íslandi og dvelja ein í útlandinu en þessa helgi hef ég eiginlega verið í meira sambandi við mína en á venjulegum íslenskum degi.

Skellti upp Scypi í gær og og fann þar vini og ættingja sem ég hef ekki talað við áratugum saman. Hóf daginn á lestri sunnudagsmoggans og næsta viðdvöl var á rúmstokk Áslaugar og Kristjáns í Sólheimunum via webcam. Þau voru ósköp sæt í náttfötunum en því miður heyrðist ekkert í þeim svo að þau skrifuðu skilaboð á spjöld sem ég las í gegnum netið. Nýstárleg en nokkuð frumleg leið til samskipta. Nú svo hlustaði ég á allar íslenskar fréttir, horfði á Kastljós og Spaugstofnuna þannig að erlend menningaráhrif hafa verið lítil þess helgina. Reyndar brugðum við okkur Michell samleigjandi í bíó í gærkvöldi þar sem ég var elst af fullum sal áhorfenda og veit núna hverning pabba leið þegar hann kom að heimsækja mig í Penn State forðum tíð og fannst hann vera eins og í sögunni af Dorian Gray.

Tók örlítinn hlaupatúr um næsta nágrenni í gær og ákvað að hlaupa langhlaup með hlaupaklúbbnum kl. 10 í morgun og láta reyna á fyrri meiðsl enda skein sólin og dagurinn svo bjartur. Lagði af stað hjólandi og svo örugg með mig að ég ákvað að fara nýja og ,,styttri" leið en hálftíma síðar var orðið nokkuð ljóst að ég hef enn ekki alveg náð áttum hér í Oxford og var rammvillt og búin að missa af hlaupi þann daginn.

Fór í staðin í göngutúr síðdegis að skoða Kristskirkjuengi (Christ Church Meadows). Þorði ekki á hjólinu eftir síðasta túrinn um Oxford Parks enda kom í ljós að engin eru ekki ætluð hjólreiðafólki sem hér er sett í flokk með ökutækjum fremur en gangandi. Engið var fallegt og firðsælt og niður við á voru nemendur að þrífa róðrarbáta fyrir framan bátaskýli sinna klúbba. Hugaði með mér að hér væri gott fyrir unga háskólanema að rölta um og hugsa hinar háleitari hugsanir. Sá líka marga sem virtust mjög hugsandi en eftir á að hyggja gætu þetta verið sömu nemendur og veltust fullir um götur miðbæjarins í gærkvöldi og því verið brúnaþungir af öðru en akademískum þönkum.

Christ Church College er hins vegar afar glæsilegur skóli sem Hinrik áttundi kom á laggirnar sem viðbót við dómkirkjuna sem reist var snemma á þrettándu öld. Fyrir utan það að vera glæsileg bygging er skólinn þekktur fyrir að hýsa stærðfræðikennarann Charles Dogdson sem skrifaði söguna um Lísu í Undralandi undir dulnefninu Carol Lewis.

Ég fór ekki inn því að þegar ég loks fæ aðgangskort má ég líta við ókeypis og svo er Julian dómari, maður Ingrid, heiðursdoktor við skólann og hefur boðið mér að koma með sér í hádegismat og sitja með honum við háborðið. Ég hélt reyndar að hann væri að gantast með háborðið en það er víst hreina satt og staðsett í borðsal sem lék borðsalinn í Harry Potter!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðrún mín, hvar ertu og hvað ertu að gera? Ég hef misst af einhverju hérna, einum kafla eða svo.

Kveðja borghildur

P.S. Er búin að setja síðuna í farvorites og kíki örugglega reglulega.