mánudagur, 15. janúar 2007

Hvar á ég sitja...?


Þurfta að rísa nokkuð snemma úr rekkju því í dag á að byrja að pússa öll gólfborð á Divinity Road. Rataði í skólann og var ekki stoppuð fyrir umferðalagabrot. En þegar ég kom á háaloftið sat kona við skrifborðið mitt og hamraði á tölvuna sem ég hélt að mér væri ætluð. Spurði hvort hún yrði lengi og hún hélt jafnvel fram á vor og reyndar búin að sitja þarna frá því í september.

Kom mér fyrir við næsta borð sem er tölvulaust og reyndi að einbeita mér að mínu sem var erfitt því að það kom önnur kona að hitta þá fyrri og þær þurftu að ræða margt. Þegar ég var næstum orðin vön malandanum mætti enn ein konan á loftið og sagði mér að þetta væri hennar borð og að hún þyrfti að komast til að hringja út lista. Eftir var eitt pínulítið borð, engin rafmagnsinnstuga og enginn stóll. Stóð um stund á miðju gólfinu og velti því fyrir mér hvort ég gæti látið duga að standa og hugsa upp restina af doktorsritgerðinni.

Fylltist svo réttlátri (að mér fannst) reiði og skundaði á fund Ericu sem er deildareitthvað og sú sem upphaflega kom mér fyrir á loftinu og sagði farir mínar ekki sléttar. Ericu fannst þetta leitt og hljóp með mig til Scotts sem er yfirdeildareitthvað og í einni svipan tókst að finna mér pláss á nýjum stað. Þar eru reyndar ótal skrifborð og skápar en engar tölvur, prentarar né símar.

Gat þegar til kom ekki flutt mitt hafurtask á nýjar slóðir því þegar upp var staðið kom í ljós að ég hafði gleymt bráðabirgðakortinu mínu heima og eftir öll þessi hortugheit við deildarfólkið átti ég erfitt með að skríða til baka og viðurkenna eigin gleymsku og mistök.

Notaði tækifærið fyrst ég var í ham og spurði um eitt og annað og fékk núna upplýsingar um starfsmannaherbergi og gat sest þar með mína samloku í hádeginu og kynnst ágætu starfsfólki sem vildi allt fyrir mig gera í stað þess að sitja ein og lesa á leiðbeiningar á sjálfsölunum eins og ég var að dedúa við í síðustu viku.

Lauk deginum á því að fara á rannsóknarmálstofu þar sem Finninn Yrja Engström mætti til að kynna kenningar sínar um útþenslunám - um það hvernig við manneskjurnar (eða heilu stofnanirnar ef út í það er farið) lærum í raun á flókinn máta og mest með því að standa frammi fyrir þversögnum og mótsagnarkenndum aðstæðum sem við neyðumst til eða ákveðum að brjótast út úr oft í trássi við hefðir og venjur. Datt í hug að líklega væru svona ferðir til útlanda afar vel fallnar til náms enda ku heimalda barnið heimskt. Heilsaði upp á fyrirlesarann og bar honum kveðju Jóns Torfa og Þuríðar (sem hún hafði reyndar ekki beðið mig um að skila) og hann brosti og sagði: I like your colleagues!

Ég hafði þó ekki gáfnast meira en svo að ég týndi nýkeypta hjólalásnum á leiðinni heim!

2 ummæli:

aslaug sagði...

Elsku Gunna. Komst ekkert á skypið í gær en bæti úr því fljótlega. Var í saumaklúbb til miðnættis og þá er komið langt fram yfir minn háttatíma !!! Höres Sluga

Nafnlaus sagði...

Fann þig! Og mun kíkja á þig hér eftir á morgnana eins og mbl.is og systursoninn í Swiss. Maður fylgist svo miklu betur með fólki erlendis en hér heima.