fimmtudagur, 25. janúar 2007

Á meðan ég var enn heima


höfðum við skötuhjúin það fyrir ávana að lokinni næringarríkri kvöldmáltíð að henda okkur í sófa, kveikja á sjónvarpinu og úða í okkur sætindum og þá helst súkkulaði. Frá því ég kom hingað hef ég hins vegar varla horft á sjónvarp né borðað súkkulaði. Það fyrrnefnda er bara tilfallandi en súkkulaðibindindið er eindrægur ásetningur. Mig langaði að sjá hvort að þessi súkkulaðiþörf væri ekki fyrst og fremst tengd slæmum félasskap (no offence elsku Hannes!). Ég ákvað að þiggja samt alltaf súkkulaði ef mér væri boðið enda ætla ég ekkert að fara að vera með dónaskap við útlendinga í þeirra eigin landi.

Sú fyrsta til að bjóða mér var Ingrid sem eftir kjötkássuna og bökuðu eplin dró fram þennan fína konfektkassa frá Thornton og bauð mér að velja úr yfirstærðar molum af bestu gerð. Ég var lengi að velja þann besta. En svo bauð hún mér bara ekkert aftur. Ég sat fram eftir kvöldi og glápti á kassann en þegar ekkert gerðist reyndi ég að senda henni hugskeyti. Horfði stíft á ennið á henni og sagði ákveðin innra með mér: ,,Svona kona, bjóddu mér nú mola”. Nix og núll, hugskeytavarnir Ingridar augsýnilegar allar uppi.

Eftir þetta hefur enginn boðið mér súkkulaði - sem er afleitt. Stundum þegar ég sé fólk standa út á götu að háma í sig úkkulaði hoppa ég af hjólinu, plassera mig álengdar og reyni að gera mig svolítið sæta í framan. Alls ekki sníkjulega heldur þannig að þau hugsi: ,,Mikið er þetta geðþekk kona, kannski við ættum að bjóða henni smá súkkulaði”. Það hefur heldur ekki borðið árangur. Kannski ég hætti í súkkulaðibindindinu um helgina. Það slær vonandi á bullið.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Passaðu þig nú, Guðrún mín, að hverfa ekki í útlandinu af súkkulaðivannæringu. Fær Hannes þinn skammt heima? Hann hverfur alla vega ekki á meðan.
Síðan þín er flott, skemmtileg skrif og myndir. Kíki á þig á hverjum morgni og hef gaman af. Eigðu góða helgi!

Nafnlaus sagði...

Takk Svala min og somuleidis. Nei,nei eg hverf sko ekki og borda bara annan othverra i stadin sem er orugglega miklu verri en sukkuladi. Heldurdu ad eg hitti Hannes bara thettan heima i vor?
kvedja ur kjallaranum
gg

Nafnlaus sagði...

Dásmlegur texti. Minnir mig á Þórberg og lífreglur hans og hans innri baráttu alltaf.
Og myndin á Nigellu og hennar súkkulaðifreistingar.

En þér veitir ekkert af smásúkkulaði - segi ég um leið og ég gjóa augunum á Freyju lakkrís drauminn (lítinn skal tekið fram) sem bíður mín á skrifborðinu þegar ég verð búin að gúffa í mig Júmbójúkkinu.

Hafðu það sem best.

Nafnlaus sagði...

Hæ Þóra - og þú segir þetta bara til að minnka þitt eigði samviskubit!
kær kveðja til þín