að fjarlægðin geri fjöllin blá en hlaup gera hins vegar fjarlægðir að engu. Er síðustu daga búin að paufast hér um ýmist á eigin fótum eða lánshjólinu leitandi að réttum leiðum með kortið límt á nefið og fundist ég vera að fara í langferð í hvert sinn sem ég legg Divinity Road að baki.
Í kvöld ákvað ég svo að leita uppi götuhlaupaklúbbinn Hedington Road Runners http://www.headingtonrr.34sp.com/index.shtml eftir að hafa lesið heimasíðuna þeirra þrjátíu sinnum til öryggis. Þeir sem ekki hafa gaman af hlaupum hætta svo bara lestrinum hér.
Nú það tók mig um 20 mínútur að hjóla upp í Oxrad íþróttahúsið með hlaupadótið í bakpokanum en hjartað í buxunum - aðallega út af umferðinni. Í afgreiðslunni tók á móti mér elskuleg stúlka og lét mig fá fréttabréf og sagði mér að bíða þar til aðrir klúbbfélagar kæmu til að hjálpa mér að finna út úr hlutunum. Spurði hana hvort hún héldi kannski að enginn myndi mæta og hún leit á mig hissa...sem er ekki skrítið því í upphitun mættu á milli 60-70 manns í það minnsta.
Það þarf nú ekkert að lýsa hlaupurum fyrir hlaupurum en það fór sérstök vellíðunatilfinning um mig alla þar sem ég hljóp hring eftir hring með háum hnélyftum ásamt 69 skrítunum manneskjum af öllu tagi, gerðum og aldri. Allir samt með þennan gleðilega ídíótasvip sem segir: Lalalalalalala nú er gaman og ég er að fara út að hlaupa.
Það voru engir pæjuþjálfarar þarna með gettóblastera heldur vorum við svona eins og vísundahjörð hlaupandi hring eftir hring innanhúss og einn í hópnum æpti upp æfingar. Að lokinni upphitum stóðu menn á bekkjum og æptu upp tilkynningar, fögnuðu nýliðum og skipuðu mönnum í hlaupahraðahópa. Ég er alltaf í smábasli með þessar mílur - hélt að það væri búið að taka upp metrakerfið alls staðar og get ómögulega reiknað úr hvað ég er margar mínútur að hlaupa míluna en með leiðsögn ákvað ég að fara með Mike sem sagðist ætla að hlaupa míluna á átta á hálfri eða þar um bil.
Svo var lagt í hann - út og suður Oxford og þegar að fyrirliðinn frétti að ég væri nýkomin í kaupstaðinn ákvað hann að sveigja af braut og taka allan hópinn í skoðunarferð um miðbæinn. Þar benti hann glaðbeittur á kirkjur og skóla, minnismerki og merkisstaði - og ég þóttist auðvitað aldrei hafa séð neitt af þessu áður og sagði bara ó rilí út í eitt.
Og áður en yfir lauk vorum við búin að hlaupa allar þær götur sem ég hef farið með erfiðismunum síðustu daga og gott betur en það. Og ég búin að kynnast tveimur kennslukonum og honum Hugó. Í lok hlaups eru menn hér svo ekkert að ana heim í ýsu og kartöflur heldur var barinn opinn fyrir þá sem vildu, aðrir drukku vatn og svo stóðu menn í stórum og smáum hópum og ræddu saman...um hlaup. Ég hjólaði heim öllu ratvissari en fyrr.
Mér tókst reyndar að komast í skólann í dag - með smá villuútúrdúr. Þar vildi afgreiðslukonan fyrst ekki opna fyrir mér. Sat ein á háaloftinu og vann í friði og spekt. Sat ein á bókasafninu og las í friði og spekt. Sat ein í hádegismat með samlokuna mína og borðaði í friði og spekt. Það yrti sem sagt enginn á mig í allan dag - en það svo sem í lagi því ég er nú frekar til baka og lítt málgefin.
fimmtudagur, 11. janúar 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
já er það ekki:) ég sé þig svo fyrir mér, sitjandi, mænandi á fólk... augnsamband, bros... allt til þess gert að þú fáir nú aðeins að tala:) oxfordbúar eru greinilega búnir að byggja sér einhverskonar varnir fyrir þess konar fólki!
Á nokkuð að fara að kjósa formann hlaupahópsins ? Við Kristján ræddum það um daginn að þú yrðir örugglega fljótlega formaður hlaupaklúppsins í Oxford. Gaman að fylgjast með þér og ég er viss um að þú færð að tala við fullt fullt af fólki fljótlega...
Veit ekki hvad thid dottla og sluga haldid um mig - thad var reyndar einn sem taladi vid mig i gaer - hann Eric a bokasafninu - og hann baud mer a kynningu sem eg var ad klara og kannski byd eg honum einhvern tima bara i bio - eda ut ad hlaupa! Hann er akkurat min typa svona taeplega 1,50 a haed.
Skrifa ummæli