Jæja - þá er bara að blása á puttana og sjá hvernig gengur að ganga bloggtæknni á hönd á gamalsaldri. Langar til að halda úti bloggi á meðan ég dvel hér í Oxford næstu mánuðina. Slíkt bæði kemur mér inn á tölvuöld og ef þetta er ekki of skemmtilegt - sparar mér tíma við bréfaskriftir. Nú á allur tíminn að fara í stóra verkefnið mitt svo að ég geti snúið heim í vor léttari í lund og með góða samvisku.
Kom á sunnudaginn seint til minna nýju heimkynna. Leigi kames undir súð hjá þeim hjónum Winifred og Patrick. Winifred er komin á eftirlaun en var áður meinalæknir og er sérdeilis fínn og ljúfur leigusali. Patrick er hagfræðingur og vinnur mikið í Rússlandi svo hann hef ég enn ekki hitt. Í húsinu leigir líka Michelle sem er glaðleg stelpa frá Lux sem hér starfar að heilbrigðisrannsóknum. Hún er hjálpsöm og er á þessum stutta tíma bæði búin að hjálpa mér með hjólalása og að tengjst þráðlausa netinu á heimilinu.
Herbergið mitt er undir súð og mér finnst ég svolítið eins og ungmær komin á heimavist. Ég hef hins vegar fullan aðgang að eldhúsi og þvottavél og allir afar afslappaðir í umgengni. Hefur þó aðeins þurft að skamma mig því ég mundi ekki strax eftir að þrílæsa útidyrahurðinni - þeir skilja það þeir sem mig þekkja! Svo hafa ljós verið sett upp af rafvirkja sem annað hvort hefur skrítinn húmor eða er eitthvað veikur á sinni því það þarf ótrúlegt hugmyndaflug til að átta sig á hvernig á að kveikja hér ljós og slökkva. En það á vonandi eftir að lærast með tímanum.
Hef aldri áður komið til Oxford og finnst merkilegt að hér sé fullur bær að ungu fólki sem finnst það í hæsta máta eðlilegt að lifa og búa og læra í skólum sem allir líta út eins og skólinn hans Harry Potter (og reynar var hluti myndarinnar tekinn í einum slíkum). Er búin að fara einn bæjarrúnt um miðbæinn og það er nóg að skoða. Ætla samt að geyma túrhestaferðir þar til Ránka mín kemur í heimsókn í byrjun febrúar.
Fór í skólann í gær að hitta prófessorinn minn hana Ingrid. Menntunarfræðideildin er í norðurhluta Oxford sem er fínni hluti borgarinnar og er staðsett í einum 5-6 byggingum sem standa þó allar þétt. Þetta eru rismikil hús sem voru byggð sem fjölskylduhíbýli þegar að prófessorum við skólann var opinberlega leyft að giftast. Ég fæ aðstöðu undir súð í heldur óvistlegu herbergi en þar er þó tölva og prentari og á næstu hæð þetta fína bókasafn og svo fræðimenn sem ég fæ vonandi að spjalla eitthvað við. Ég má sitja öll seminör en á eftir að kynna mér þau.
Ingrid bauð mér heim eftir að ég var búin að hitta alla á skrifstofu deildarinnar og þar eldaði maðurinn hennar, Julian héraðsdómari, fyrir okkur nautakássu og bökuð epli en við Ingrid létum okkur nægja að dáðst að og leika við nýju kettina þeirra, þau Tilly og Milos. Þetta eru augsýnilega mjög ábyrgðarlaus hjón því eftir að hafa gefið mér Kir Royal í fordrykk og rauðvín með matnum sendu þau mig heim í myrkri og roki á hjóli sem þau vildu endilega lána mér á meðan ég er hér. Ég krossaði putta, steig á bak og hélt út í óvissuna en var afar glöð þegar ég komst heil á húfi hér upp Divinity Road. Þarf að fara með hjólið í skólann þegar að að bicyle doktorinn er við og fá hann til að hækka fyrir mig sætið. Það er svo erfitt að hjóla með hnén upp við eyru.
Jamm og nú er bara að sjá hvort að mér tekst að birta þetta.
miðvikudagur, 10. janúar 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Til hamingju með bloggið. Ég mun fylgjast spennt með ævintýrum þínum næstu mánuði.
Góðar kveðjur frá Vestmannaeyjum.
Áslaug
Gaman að fá smá innsýn í námsmannalífið í Oxford. Gangi þér vel. Kærar kveðjur frá HÍ, Harpa
Hlakka til að koma til þín og sakna þín... búin að borða örbylgjuhafragraut með kanil og eplum í 5 máltíðir síðan þú fórst.. er greinilega ekki tilbúin að verða húsmóðir! samt búin að setja einu sinni í vél, og kaupa skinku...
Heyrðu - biddu nú Hannes að fara að elda eins og einn pulsurétt handa þér!
Skrifa ummæli