miðvikudagur, 31. janúar 2007

Landsímalína


Fyrir aldarfjórðungi fór ég í janúarbyrjun til náms í Bandaríkjunum og bjó þar eins og núna í herbergi undir súð. Í mars settist að mér eitthvað óskiljanlegt hugarangur sem birtist helst í því að við mig mátti hvorki segja neitt fallegt né ljótt – þá fór ég að gráta. Þetta var að verða vandræðalegt þegar að einn prófessorana (sem var þá nýbúinn að græta mig) spurði hvort ég gæti verið haldin heimþrá. Ég fór og hringdi mitt fyrsta símtal heim – í mömmu – nema hvað. Símtalið var einhvern veginn svona:

G: sniff!
M: Ert þetta þú Guðrún mín?
G: Snökt, snökt
M: Er ekki allt í lagi Guðrún mín?
G: Umm, sniff!


Og okkur fannst þetta held ég báðum afskaplega dýr þögn og snökt á landsímalínunni sjálfri. Enda á þeim tíma þegar að maður hringdi bara til útlanda eftir að hafa undirbúið símtalið vel í huganum og talaði svo hátt og á þuríðarjóhhraða og helst ekki nema um bráð dauðsföll.

Þessi minning kom upp í hugann í gærkvöldi þegar ég byrjaði á því að fylgjast með síðustu mínútum handboltaleiksins á MSN við Maríellu:

[20:53:36] Mariella Thayer says: danir með boltann
[20:53:40] Guðrún Geirsdottir says: nooooo
[20:53:48] Mariella Thayer says: tæp mínúta
[20:53:55] Mariella Thayer says: daninn skoraði
[20:53:55] Guðrún Geirsdottir says: suuuuuu
[20:54:00] Guðrún Geirsdottir says: æi
[20:54:09] Mariella Thayer says: þetta er hræðilegt!
[20:54:11] Guðrún Geirsdottir says: hvar er snorri?
[20:54:13] Mariella Thayer says: hálf mínúta
[20:54:17] Guðrún Geirsdottir says: við undir?
[20:54:18] Mariella Thayer says: hann er þeyttur
[20:54:24] Mariella Thayer says: skot í söng
[20:54:28] Guðrún Geirsdottir says: í söng?
[20:54:29] Mariella Thayer says: 20 sek eftir
[20:54:34] Guðrún Geirsdottir says: meiri söng?
[20:54:35] Mariella Thayer says: ekki sjens

Stuttu seinna rabbaði ég við Ingvar, námsstjórann minn í rúman hálftíma á Skypinu og svo gott betur annan við dóttlu. Og í fyrradag sagði Hannes (að mér fannst í miðju samtali): Æ – ég nenni ekki að tala við þig lengur.
Ekki sá ég þetta nú allt fyrir í ameríkunni forðum.

Annars er von á dóttlu á morgun og ég hlakka mikið til. Henni finnst óþarfi að þurfa að bera með sér danskt appelsínu og gulrótarmarmelaði. Eftir allt sem ég hef nú gert fyrir hana um tíðina. Það er nú ekki eins og maður sé að biðja um hákarl.

sunnudagur, 28. janúar 2007

Matur er mannsins megin


Og hann hefur svo sannarlega verið hérna megin þessa helgina. Föstudagskvöldið sátum við leigjendastúlkurnar í stofunni hjá fósturforeldrunum. Arineldurinn skíðlogaði og glamaði á andlitum sem urðu rjóðari og brosmildari með hverjum réttinum – og rauðvínsglasinu. Meginrétturinn dádýrakássa með alvöru kartöflumús og heimalöguðu rauðkáli sem ég hélt að mamma kynni ein að kokka. Rabbabarapæ í eftirrétt. Heyrðum sögur af fyrrum óperum og leigjendum þeirra hjóna frá öllum heimisins hornum og ég velti fyrir mér hvernig sögurnar af okkur yrðu sagðar nýjum leigendum framtíðarinnar.

Fór út í South Gate garðinn að hlaupa kl. 10 í gær. Var sagt að þar æfði nýji hlaupahópurinn á laugardögum en hvernig sem ég snerist um garðinn fann ég hvorki tangur né tetur af honum. En veðrið var gott og þó ég þyrfti að skvettast um í bleytu á köflum tók ég smá túr um hverfið til að átta mig á aðstæðum. Sá svo á heimasíðu Headingtonanna að laugardagshlaupið hafði verið fellt niður vegna forfalla þjálfaranna.
Eins og ég sagði ykkur um daginn erum við Michele í matarbandalagi en ég gleymdi eiginlega heiðursmeðliminum henni Nigellu. Michele eldaði glæsirétt eftir hennar leiðsögn á laugardagskvöldið. Var fyrst að hugsa um að setja uppskriftina hér en sá að það væri skynsamlegra að geyma hana með sjálfri mér og slá í gegn þegar heim verður komið.

Nú til að toppa svo matarmálin buðu Michele og Pascal vinkona hennar mér að slást í hópinn upp úr hádeginu til að borða saman krárárbít (árbítur á krá sem sagt). Ég sá fyrir mér franskar kartöflur í reykmettuðum salarkynninum en það var sko ekki. Pascal á jeppa og brunaði með okkur í lítið þorp í nágrenninum og þar sátum við á bæjarkránni, frábærri og gamalli og fengum okkur steikt nautakjöt með kartöflum, grænmeti og Yorkshire pudding í svo stórum skömmtum að afgreiðslukonan átti í basli með að bera þetta allt í okkur. Hefði þurft að kasta mér á dívan eftir matinn. Eru þeir til ennþá?

föstudagur, 26. janúar 2007

Hvernig eiginlega vinnur þessi hugur?


Hann er skrítinn á manni kollurinn enda rannsóknarefni margra.

Fyrst sat ég heilan dag í kjallaranum og horfði tómum augum út í heiminn. Rimlarnir í glugganum ýmist tákn um andlega innilokun eða áminning um tilgang og mikilvægi dvalarinnar. Og ég fór dauf í dálkinn heim.
Í gær birti ögn yfir og í dagslok var ég búin að stela mér pappírsörkum úr tölvuherberginu og leggja ofan á þær alla litlu miðana sem ég hafði rissað á þann daginn. Gerði pílur og örvar, breytti og færði, sneri við númerum og henti loks nokkrum miðum. Náði aftur í þá í ruslafötuna. Fór heim frá óreiðunni og bað ræstingarfólkið í hljóði að henda henni ekki. Hún var þarna enn í morgun.
Og svo er maður blessaður með degi eins og þessum. Þar sem orðin raða sé næstum áreynslulaust á skjáinn, þar sem hver uppljómunin yfirgnæfi þá fyrri og kollurinn eins og alíslensk flugeldasýning á gamlárskvöld. Og ég þori ekki að hætta og fara heim af ótta við að líkingin haldi áfram alla leið og næst þegar ég tek upp vinnuþráðinn verði ekkert eftir nema prikin.

Sleppti hlaupum í gær fyrir bíó í kvikmyndaklúbbnum og nú var enginn stormur til að afsaka þau býtti. Mig langaði bara meira í bíó. Sá norsk/sænska mynd, Sálma úr eldhúsinu. Svona líka ljúflingsmynd og svo átti að vera skandinavískt bakkelsi á eftir. Það reyndist nú bara vera súkkulaðikaka úr pakka. Kannski hefur hún verið keypt í Ikea (eða ækía eins og innfæddir þekkja búðina).

Í kvöld hafa þau Patrekur og Winifred boðið okkur leigjendaskjátunum sínum þremur í kvöldmat og ég hlakka mikið til. Á virkum dögum elda þau sér saman margréttaðar máltíðir sem mér þætti fullur sómi af til hátíðarbrigða. Á því von á góðum kræsingum sem yrði tilbreyting frá pastanu sem er eiginlega það eina sem ég nenni sjálf að malla. Hins vegar erum við Michele komnar í nokkurs konar matarbandalag. Hún er mikil áhugakona um matargerð og við fundum fljótlega út að það væri meira gaman og praktískara að malla okkur saman kvöldverð a.m.k. nokkrum sinnum í viku. Það hefur sett ögn fjölbreyttari blæ á mínar matarvenjur hér.

Fer klukkan ekki að verða sjö?

fimmtudagur, 25. janúar 2007

Á meðan ég var enn heima


höfðum við skötuhjúin það fyrir ávana að lokinni næringarríkri kvöldmáltíð að henda okkur í sófa, kveikja á sjónvarpinu og úða í okkur sætindum og þá helst súkkulaði. Frá því ég kom hingað hef ég hins vegar varla horft á sjónvarp né borðað súkkulaði. Það fyrrnefnda er bara tilfallandi en súkkulaðibindindið er eindrægur ásetningur. Mig langaði að sjá hvort að þessi súkkulaðiþörf væri ekki fyrst og fremst tengd slæmum félasskap (no offence elsku Hannes!). Ég ákvað að þiggja samt alltaf súkkulaði ef mér væri boðið enda ætla ég ekkert að fara að vera með dónaskap við útlendinga í þeirra eigin landi.

Sú fyrsta til að bjóða mér var Ingrid sem eftir kjötkássuna og bökuðu eplin dró fram þennan fína konfektkassa frá Thornton og bauð mér að velja úr yfirstærðar molum af bestu gerð. Ég var lengi að velja þann besta. En svo bauð hún mér bara ekkert aftur. Ég sat fram eftir kvöldi og glápti á kassann en þegar ekkert gerðist reyndi ég að senda henni hugskeyti. Horfði stíft á ennið á henni og sagði ákveðin innra með mér: ,,Svona kona, bjóddu mér nú mola”. Nix og núll, hugskeytavarnir Ingridar augsýnilegar allar uppi.

Eftir þetta hefur enginn boðið mér súkkulaði - sem er afleitt. Stundum þegar ég sé fólk standa út á götu að háma í sig úkkulaði hoppa ég af hjólinu, plassera mig álengdar og reyni að gera mig svolítið sæta í framan. Alls ekki sníkjulega heldur þannig að þau hugsi: ,,Mikið er þetta geðþekk kona, kannski við ættum að bjóða henni smá súkkulaði”. Það hefur heldur ekki borðið árangur. Kannski ég hætti í súkkulaðibindindinu um helgina. Það slær vonandi á bullið.

miðvikudagur, 24. janúar 2007

Í kjallaranum...dúa


Í morgun læddist að mér sú hugsun að ég réði hreinleg ekkert við verkefnið mitt. Eftir því sem leið á daginn óx hún og ágerðist þessi hugsun og varð loks svo yfirþyrmandi að ég ákvað að fara heim að borða og skilja hana bara eftir í kjallaranu.
Og það snjóaði í nótt.

þriðjudagur, 23. janúar 2007

Ég berst á fáki fráum...


Nei reyndar er reiðhjólið mitt ekki upp á marga fiska og stundum þarf ég að rúlla upp og niður gírastillinguna til að finna eins og einn og einn sem virkar. Og enn hjóla ég með hnén upp við vanga En eftir að hafa hjólað hér um Oxford í tvær vikur verð ég aðeins að fjalla um hjólamenninguna.

Á kaffistofunni minni er mikið kaffistofuspjall (eðlilega) og þá gjarnan verið að býsnast út í þetta og hitt. Hjólamenningin er eitt af því sem hefur oftar en einu sinni borið á góma og þá rjúka þeir innfæddu upp á háa c-ið og telja þeirri ómenningu allt til foráttu. Hér séu menn eins og vitleysingar í umferðinni og ekki nokkur leið að ferðast öruggur um á hjóli.

Ég hlusta á þetta opinmynnt en fer svo heim síðdegis á mínum fáki og merkilegt nokk finnst mér hér ríkja algjör hjólahámenning. Hér eru reyndar að ferð daglega ógrynni af hjólum en hjólreiðamenn allir upp til hópa útbúnir eins og grunnskólabarn á leið í hjólaskoðun hjá lögreglunni: Hjálmurinn á hausnum, endurskinsvesti og borðar og ljós í bak og fyrir. Ég fer t.d. ekki út úr húsi nema í stóra vegavinnuvestinu sem hann Guðmundur útvegaði hlaupaklúbbsfélögum í TKS frá tjallanum um árið og þyki það ekki fínt heima þá er það bara smart hér ytra.

Meðfram öllum götum eru sérmerktar hjólabrautir nema þar sem hjólreiðamönnum þykir sérstök hætta búin – þá eru þær fluttar upp á gangstéttir. Niðrí miðbæ leggja hjólreiðamenn fákum sínum í sérstök parkeringspláss áður en þeir bregða sér í búðaleiðangur í göngugötur.
Hjólreiðamenn fara aldrei inn á gangstéttir nema í neyð og þá stígur maður kurteislega af baki, reiðir hjólið og segir skjúsmí við hina gangandi.
Það allra, allra besta er samt að njóta forgangs í bílaumferðinni. Fyrstu daga hér óx mér mjög í augum að skella mér inn í hringtorg á háannatíma enda búsett nálægt hálfgerðri Miklubraut þeirra Oxfordara. Nú svíf ég um á brautinni, veifa léttilega út hægri handlegg og veskú – bílanir bíða á meðan ég færi mig lipurlega yfir á rétta beygjuakrein. Á minni Miklubraut væru á sama tíma búnir að keyra yfir handlegginn á mér u.þ.b. 53 bílar.

Annars fór ég að hitta Margréti frænku Jóns Torfa á bar í gær. Hún er í doktorsnámi við Christ Church College og var svo ljúf að líta á Divinity Road fyrir mig áður en ég tók mitt risherbergi á leigu. Ætlaði að launa henni greiðann með einu léttvínsglasi en hún var svo góð og skemmtileg að við urðum að drekka aðeins meira en það til að klára samtalið. Reyndar var það ekki fullklárað þegar barið var í bjöllur og við beðnar um að fara að koma okkur í burtu. Við tökum upp þráðinn síðar.

sunnudagur, 21. janúar 2007

Helgarpistill


Jamm og já og komið sunnudagskvöld og ég sé að tíminn hér ytra er því miður ekkert tregari að líða en sá heima.
What are your plans for the weekend var ég spurð af alls konar fólki á föstudaginn og svo urðu bara allir sorgmæddir þegar ég kvað þau engin og ég sé að hér eiga allir sér sín helgarplön. Mér fannst ég næstum eins og litla stúlkan með elspýturnar í þeirra augum - en alsæl sjálf með skipulagsleysið.

Veðrið var ljúft alla helgina - ég finnst þetta smart fyrirkomulag -rigning og rok virka daga og sól og blíða um helgar. Nýtti veðrið samt skammarlega lítið í gær. Sat heima og las og reyndi að skrifa grein sem er að gera mér lífið erfitt. Gerði helgarhreingerningu á herberginu mínu (sem felst í því að þurrka af skrifborðinu og skáp og fara fram með ruslið) sem tók næstum fimm mínútur.

Las Times og svo eitt subbublað sem ég passaði að setja inn í Times þegar ég henti því í endurnýtingakassa heimilisins. Horfði líka í laumi á Idolið í dag þegar ég var viss um að enginn væri heima.

Hápunktur helgarinnar var hlaupið með Headingtonunum í morgun. Hjólaði í íþróttahúsið og þar var sama hrúgan mætt og síðast. Skipt í getuhópa og ég varð heltekin valkvíða. Flestir hópar ætluðu ægilegar vegalengdir enda að æfa fyrir Londonarmaraþonið og ég með mín bak- og botnmeiðsl var ekki viss um skynsemi þess. Heyri alltaf röddina hennar Þóru þegar ég er að ákveða eitthvað hlaupaheimskulegt og það forðar mér stundum frá freistingum.

Ákvað því að fara með mestu lúðunum og elta Andrew. Við vorum tíu sem eltum hann af stað og áttum að fara á snigilshraða. Mér fannst hlaupalagið heldur hægt en hvað um það. Hér æpir svo forystusauðurinn "Back loop" af og til og þá snýr öll hersingin við til að elta uppi þá síðustu - datt í hug að það mætti kalla það aftursting heima.

En hlaupaleiðin var frábær. Eftir smátúr um borgina lá leiðin út með gömlum kanal þar sem kanalbátar lágu við festar, skreyttir blómapottum og kaffiilmur steig upp um stompana. Innan um gamlir karlar að renna fyrir fiski (myndi ekki vilja borða þann þó!). Eftir kanalinn hlupum við svo niður að sjálfri Thamesánni sem var að sögn heimamanna í talsverðum ham eftir hlýindin og vætuna undanfarið. Þræddum okkur niður með ánni um engi og grundir, garða og haga og sólin skein, börn hlógu og hestar hneggjuðu. Mílur þeirra heimamanna eru enn að vefjast fyrir mér en þegar hringnum var lokað lágu 18 kílómetrar að baki og ég enn þessa heims og bara nokkuð sátt við tilveruna. Sjáum hvað botninn og bakið hafa að segja á morgun.

Fengum nýjan gest á Divinity Road í gær. Lítil Annie frá Hong Kong kom fljúgandi í 24 tíma til að sækja hér vikunámskeið sem er forsenda fyrir hugsanlegri inntöku í haust. Hún fór snemma í koju í gær, skiljanlega, en vaknaði eiturhress í morgun, mætti í morgunmat með upplýsingar af netinu og var farin út í eitthverja útsölukringlu upp í sveit með strætó. Kom svo heim um kvöldmatarleyti svo hlaðin pokum að það sást varla í hana. Ég hélt að við Íslendingar ættum einkarétt á svona?

fimmtudagur, 18. janúar 2007

Lets face it...


Líf mitt hér ytra er svo ómerkilegt að það virðist ekki í duga í daglegt blogg. Ekki að það sé mikið merkilegra á fróni – þannig séð en það er heldur erfiðara að finna hina skáldlegu hlið á hverdeginum hér ytra. Það er varla fréttnæmt að verið er að grafa upp hálft High Street sem er svona Miklabraut þeirra Oxvaðinga og gerir okkur hjólendum erfitt um vik. Né heldur að þeim parketmönnunum gengur bara vel með gólfið heima á Divninty Road. Hvað þá að skólarnir í bænum komu bara vel út á samræmdu prófunum í ár.

Starfsdagurinn eins og handrit að rússneskri verðlaunakvikmynd: Kona situr ein í kjallara og pikkar á tölvu, fær illt í axlirnar, stendur upp og teygir sig, sest aftur og pikkar – í svona tvo tíma. Stendur upp, gerir teygjuæfingar og fer á klóið. Kemur aftur og pikkar áfram. Nær í samlokuna sína, röltir yfir götuna, kaupir vont kaffi í sjálfsala og sest inní starfsmannaherbergið. Stundum eru einhverjir þar. Segir síjú og fer aftur yfir götuna. Sest og pikkar og svo framvegis til klukkan fimm eða sex - svona eftir öxlunum. Hápunkturinn er að fara út á skrifstofu og athuga hvort að aðgangskortið er komið. Það er ekki komið. Þegar það kemur má hún fá lánaðar bækur á bókasafninu og þá verður kátt í höllinni.

Skráði mig í pilatesnámskeið í gær – út af öxlunum. Það reyndist heilmikil þraut að finna rétta staðinn en með því að þræða mig í gengum heilt íþróttahús og paufast í kolniðamyrkri yfir hlaupabraut og gervigrasvöll fann ég lókalið, lokað og læst. Sem betur fer kom einhver og opnaði og ég gat hringt í Betu kennara sem sagðist hafa ætlað slaufa tímanum þar sem allir nemendur nema ég hefðu tilkynnt forföll. Mér fannst þetta ekki lofa góðu. Eftir smávandræðagang fékk ég svo einkatíma í pilates sem mér fannst næstum eins merkilegt og fljúga á Saga Class um daginn og Beta reyndist hin ágætasta. Borgaði henni námskeiðið, fékk enga kvittun og er ekki viss um að hún mæti í næstu viku.

Fór af námskeiðinu að hitta Michele sem dró mig í háskólaklúbbinn á alþjóðlegan fund rannsóknarnema eða öllu heldur fund alþjóðlegra rannsóknarnema. Þar sat saman ungt rannsóknarfólk frá öllum heimsins hornum en áttu það öll sameiginlegt að langa í fasta stöðu í háskólanum. Mér fannst ég hálfgerður svikari með mína bara bíðandi eftir mér heima. En þetta er harður akademíuheimur hérna ytra.

Skemmtilegasta innslagið í dag átti svo að vera samtalið sem við dóttla áttum í gær . Ætlaði að stela því frá henni en hún var fljótari til og er búin að segja sína hlið á sínu bloggi. Af því að ég veit að hún vonar og trúir að ég lesi aldrei hennar síðu þá stelst ég til að birta þetta á minni– ég hafði bara svo gaman af þessu:


Fjölskylda....
Hvað er fjölskylda? Er fjölskylda, foreldrar og barn, fólk sem er skylt? Fólk sem býr saman? Par? Stórfjölskylda? Kjarnafjölskylda? Vinahópur? Samkynhneigt par? Þetta var mikið rætt í tíma um daginn og vildu flestir segja að fjölskylda væri: Fólk sem er tengt einhverjum böndum og býr á sama stað sem það kallar heimili. Erum við þá að tala um skrýtnu fjölskylduna...fimmtugur framhaldsskólakennari frá Keflavík, reykir vindla, drekkur mjólk með kvöldmatnum, borðar ekki pizzu, hlustar á Rolling Stones... tvítug háskólastelpa, Reykjavíkurmær, drekkur ekki mjólk, borðar ekki fisk, elskar pizzu, finnst "ýkt" gaman af öllu, er kynnast hvað lífið hefur upp á að bjóða og elskar það. Köttur, 3 ára fress, kominn úr Kattholti en fæddur og uppalinn í fiskverksmiðju úti á landi, þunglyndur en frekur, finnst æðislegt að rúnka sér á sófateppinu og láta kela við sig, borðar allan mat en í uppáhaldi er þó Viskas hlaup...Þetta er tilvalið í handrit fyrir einhvern lásí gamanþátt á skjá einum... Ragnheiður


Veit ekki hvort þetta skánar neitt við að fá mig heim

mánudagur, 15. janúar 2007

Hvar á ég sitja...?


Þurfta að rísa nokkuð snemma úr rekkju því í dag á að byrja að pússa öll gólfborð á Divinity Road. Rataði í skólann og var ekki stoppuð fyrir umferðalagabrot. En þegar ég kom á háaloftið sat kona við skrifborðið mitt og hamraði á tölvuna sem ég hélt að mér væri ætluð. Spurði hvort hún yrði lengi og hún hélt jafnvel fram á vor og reyndar búin að sitja þarna frá því í september.

Kom mér fyrir við næsta borð sem er tölvulaust og reyndi að einbeita mér að mínu sem var erfitt því að það kom önnur kona að hitta þá fyrri og þær þurftu að ræða margt. Þegar ég var næstum orðin vön malandanum mætti enn ein konan á loftið og sagði mér að þetta væri hennar borð og að hún þyrfti að komast til að hringja út lista. Eftir var eitt pínulítið borð, engin rafmagnsinnstuga og enginn stóll. Stóð um stund á miðju gólfinu og velti því fyrir mér hvort ég gæti látið duga að standa og hugsa upp restina af doktorsritgerðinni.

Fylltist svo réttlátri (að mér fannst) reiði og skundaði á fund Ericu sem er deildareitthvað og sú sem upphaflega kom mér fyrir á loftinu og sagði farir mínar ekki sléttar. Ericu fannst þetta leitt og hljóp með mig til Scotts sem er yfirdeildareitthvað og í einni svipan tókst að finna mér pláss á nýjum stað. Þar eru reyndar ótal skrifborð og skápar en engar tölvur, prentarar né símar.

Gat þegar til kom ekki flutt mitt hafurtask á nýjar slóðir því þegar upp var staðið kom í ljós að ég hafði gleymt bráðabirgðakortinu mínu heima og eftir öll þessi hortugheit við deildarfólkið átti ég erfitt með að skríða til baka og viðurkenna eigin gleymsku og mistök.

Notaði tækifærið fyrst ég var í ham og spurði um eitt og annað og fékk núna upplýsingar um starfsmannaherbergi og gat sest þar með mína samloku í hádeginu og kynnst ágætu starfsfólki sem vildi allt fyrir mig gera í stað þess að sitja ein og lesa á leiðbeiningar á sjálfsölunum eins og ég var að dedúa við í síðustu viku.

Lauk deginum á því að fara á rannsóknarmálstofu þar sem Finninn Yrja Engström mætti til að kynna kenningar sínar um útþenslunám - um það hvernig við manneskjurnar (eða heilu stofnanirnar ef út í það er farið) lærum í raun á flókinn máta og mest með því að standa frammi fyrir þversögnum og mótsagnarkenndum aðstæðum sem við neyðumst til eða ákveðum að brjótast út úr oft í trássi við hefðir og venjur. Datt í hug að líklega væru svona ferðir til útlanda afar vel fallnar til náms enda ku heimalda barnið heimskt. Heilsaði upp á fyrirlesarann og bar honum kveðju Jóns Torfa og Þuríðar (sem hún hafði reyndar ekki beðið mig um að skila) og hann brosti og sagði: I like your colleagues!

Ég hafði þó ekki gáfnast meira en svo að ég týndi nýkeypta hjólalásnum á leiðinni heim!

sunnudagur, 14. janúar 2007

Scype og skoðunarferð

Við lifum á merkilegum tæknitímum. Ég kveið því þessi ósköp að fara frá Íslandi og dvelja ein í útlandinu en þessa helgi hef ég eiginlega verið í meira sambandi við mína en á venjulegum íslenskum degi.

Skellti upp Scypi í gær og og fann þar vini og ættingja sem ég hef ekki talað við áratugum saman. Hóf daginn á lestri sunnudagsmoggans og næsta viðdvöl var á rúmstokk Áslaugar og Kristjáns í Sólheimunum via webcam. Þau voru ósköp sæt í náttfötunum en því miður heyrðist ekkert í þeim svo að þau skrifuðu skilaboð á spjöld sem ég las í gegnum netið. Nýstárleg en nokkuð frumleg leið til samskipta. Nú svo hlustaði ég á allar íslenskar fréttir, horfði á Kastljós og Spaugstofnuna þannig að erlend menningaráhrif hafa verið lítil þess helgina. Reyndar brugðum við okkur Michell samleigjandi í bíó í gærkvöldi þar sem ég var elst af fullum sal áhorfenda og veit núna hverning pabba leið þegar hann kom að heimsækja mig í Penn State forðum tíð og fannst hann vera eins og í sögunni af Dorian Gray.

Tók örlítinn hlaupatúr um næsta nágrenni í gær og ákvað að hlaupa langhlaup með hlaupaklúbbnum kl. 10 í morgun og láta reyna á fyrri meiðsl enda skein sólin og dagurinn svo bjartur. Lagði af stað hjólandi og svo örugg með mig að ég ákvað að fara nýja og ,,styttri" leið en hálftíma síðar var orðið nokkuð ljóst að ég hef enn ekki alveg náð áttum hér í Oxford og var rammvillt og búin að missa af hlaupi þann daginn.

Fór í staðin í göngutúr síðdegis að skoða Kristskirkjuengi (Christ Church Meadows). Þorði ekki á hjólinu eftir síðasta túrinn um Oxford Parks enda kom í ljós að engin eru ekki ætluð hjólreiðafólki sem hér er sett í flokk með ökutækjum fremur en gangandi. Engið var fallegt og firðsælt og niður við á voru nemendur að þrífa róðrarbáta fyrir framan bátaskýli sinna klúbba. Hugaði með mér að hér væri gott fyrir unga háskólanema að rölta um og hugsa hinar háleitari hugsanir. Sá líka marga sem virtust mjög hugsandi en eftir á að hyggja gætu þetta verið sömu nemendur og veltust fullir um götur miðbæjarins í gærkvöldi og því verið brúnaþungir af öðru en akademískum þönkum.

Christ Church College er hins vegar afar glæsilegur skóli sem Hinrik áttundi kom á laggirnar sem viðbót við dómkirkjuna sem reist var snemma á þrettándu öld. Fyrir utan það að vera glæsileg bygging er skólinn þekktur fyrir að hýsa stærðfræðikennarann Charles Dogdson sem skrifaði söguna um Lísu í Undralandi undir dulnefninu Carol Lewis.

Ég fór ekki inn því að þegar ég loks fæ aðgangskort má ég líta við ókeypis og svo er Julian dómari, maður Ingrid, heiðursdoktor við skólann og hefur boðið mér að koma með sér í hádegismat og sitja með honum við háborðið. Ég hélt reyndar að hann væri að gantast með háborðið en það er víst hreina satt og staðsett í borðsal sem lék borðsalinn í Harry Potter!

föstudagur, 12. janúar 2007

Andlegur timburmannadagur

Ég átti svo sem alveg von á því að það kæmi smá dalverpi í tilveruna á þessum tímapunkti. Fyrstu dagarnar á nýjum stað fara svo gjarna í að reyna að átta sig á tilverunni og þau skyndikynni geta verið orkufrek. Og svo áttar maður sig á því að...
  • maður er aleinn í útlöndum og allir hinir heima og svei mér ef ég er ekki með snert af heimþrá
  • það má ekki víst ekki hjóla í gegnum Oxford Parks til að komast í skólann eins og ég hefði átti að vita sagði hann starfsmaðurinn sem hjólaði mig uppi til að skamma mig
  • bæjarkortið liggur heima í íþróttatöskunni og leiðin heim er síður en svo ljós
  • ég átti að fylla út eyðublað með myndunum og það liggur nú læst inn á skrifstofu hjá Ingrid svo það dregst enn að ég komist í netsamband í skólanum
  • bráðabirgðakortið mitt í skólann virkar bara ekkert svo ég þarf að sæta lagi að komast inn á daginn
  • það virðist eiga að leggja niður netsambandið mitt við Ísland um óákveðinn tíma - það hljómar ekki vel!

EN! Hannes hringdi í mig þar sem ég sat döpur á skólaháaloftinu og gladdi mig. Og Eric á bókasafninu bauð mér á bókasafnskynningu sem var hin gagnlegasta. Og ég komst heim kortalaus og keypti í matinn og fann meira að segja krydddeildina sem ég hafði ekki fundið í Tesco fram að þessu þannig að nú á ég bæði salt og pipar. Og meðleigjandinn Michelle spurði hvort ég vildi ekki slást í för með henni og vinkonu og fara á bíó á morgun. Svo maður ætti ekki að vera að væla og ég hætti því hér með enda er þetta að verða hin leiðinlegasta færsla.

fimmtudagur, 11. janúar 2007

Það getur vel verið...

að fjarlægðin geri fjöllin blá en hlaup gera hins vegar fjarlægðir að engu. Er síðustu daga búin að paufast hér um ýmist á eigin fótum eða lánshjólinu leitandi að réttum leiðum með kortið límt á nefið og fundist ég vera að fara í langferð í hvert sinn sem ég legg Divinity Road að baki.

Í kvöld ákvað ég svo að leita uppi götuhlaupaklúbbinn Hedington Road Runners http://www.headingtonrr.34sp.com/index.shtml eftir að hafa lesið heimasíðuna þeirra þrjátíu sinnum til öryggis. Þeir sem ekki hafa gaman af hlaupum hætta svo bara lestrinum hér.

Nú það tók mig um 20 mínútur að hjóla upp í Oxrad íþróttahúsið með hlaupadótið í bakpokanum en hjartað í buxunum - aðallega út af umferðinni. Í afgreiðslunni tók á móti mér elskuleg stúlka og lét mig fá fréttabréf og sagði mér að bíða þar til aðrir klúbbfélagar kæmu til að hjálpa mér að finna út úr hlutunum. Spurði hana hvort hún héldi kannski að enginn myndi mæta og hún leit á mig hissa...sem er ekki skrítið því í upphitun mættu á milli 60-70 manns í það minnsta.

Það þarf nú ekkert að lýsa hlaupurum fyrir hlaupurum en það fór sérstök vellíðunatilfinning um mig alla þar sem ég hljóp hring eftir hring með háum hnélyftum ásamt 69 skrítunum manneskjum af öllu tagi, gerðum og aldri. Allir samt með þennan gleðilega ídíótasvip sem segir: Lalalalalalala nú er gaman og ég er að fara út að hlaupa.

Það voru engir pæjuþjálfarar þarna með gettóblastera heldur vorum við svona eins og vísundahjörð hlaupandi hring eftir hring innanhúss og einn í hópnum æpti upp æfingar. Að lokinni upphitum stóðu menn á bekkjum og æptu upp tilkynningar, fögnuðu nýliðum og skipuðu mönnum í hlaupahraðahópa. Ég er alltaf í smábasli með þessar mílur - hélt að það væri búið að taka upp metrakerfið alls staðar og get ómögulega reiknað úr hvað ég er margar mínútur að hlaupa míluna en með leiðsögn ákvað ég að fara með Mike sem sagðist ætla að hlaupa míluna á átta á hálfri eða þar um bil.

Svo var lagt í hann - út og suður Oxford og þegar að fyrirliðinn frétti að ég væri nýkomin í kaupstaðinn ákvað hann að sveigja af braut og taka allan hópinn í skoðunarferð um miðbæinn. Þar benti hann glaðbeittur á kirkjur og skóla, minnismerki og merkisstaði - og ég þóttist auðvitað aldrei hafa séð neitt af þessu áður og sagði bara ó rilí út í eitt.

Og áður en yfir lauk vorum við búin að hlaupa allar þær götur sem ég hef farið með erfiðismunum síðustu daga og gott betur en það. Og ég búin að kynnast tveimur kennslukonum og honum Hugó. Í lok hlaups eru menn hér svo ekkert að ana heim í ýsu og kartöflur heldur var barinn opinn fyrir þá sem vildu, aðrir drukku vatn og svo stóðu menn í stórum og smáum hópum og ræddu saman...um hlaup. Ég hjólaði heim öllu ratvissari en fyrr.

Mér tókst reyndar að komast í skólann í dag - með smá villuútúrdúr. Þar vildi afgreiðslukonan fyrst ekki opna fyrir mér. Sat ein á háaloftinu og vann í friði og spekt. Sat ein á bókasafninu og las í friði og spekt. Sat ein í hádegismat með samlokuna mína og borðaði í friði og spekt. Það yrti sem sagt enginn á mig í allan dag - en það svo sem í lagi því ég er nú frekar til baka og lítt málgefin.

miðvikudagur, 10. janúar 2007

Það smáa í því stóra

Öllum stórum verkefnum fylgja einhver smærri og þau smáu reyndust mér svo stór í dag að ég komst aldrei almennilega í það stóra. Fyrst var að vandinn við að blogga. Ég var varla búin að fagna minni fyrstu færslu þegar ég uppgötvaði að ég kunni ekki að skrá mig aftur inn á mína eigin síðu og virtist lengi vel hafa verið gerð útlæg þaðan. Alls konar tilraunir og neyðarbréf til dóttlu dugðu þó á endaum til að bjarga málum - eins og þessi færsla sýnir.

En stóra vandamál dagsins í dag var að útvega mér passamynd af sjálfri mér sem að deildaskrifstofustjóri sagði mig þurfa til að fá aðgangskort að skóla og bókasöfnum.

Bölvaði í hljóði yfir því að hafa ekki tekið með afganginn af myndunum sem ég þurfti að taka í Leicester um árið þegar að peningaveskinu var stolið frá mér í skátabúðinni.

Ég lagði því að stað í leiðangur síðdegis en hafði litla hugmynd um hvar ég ætti helst að bera niður. Ég veit að það er hægt að taka svona myndir í Kringlunni heima en fann ekkert hér sem gæti verið Kringla. Eftir að hafa ráfað ögn um bæinn brá ég mér inn í búð og spurði þá afgreiðslustúlkuna sem mér fannst elskulegust á svipinn hvort hún vissi hvert ég gæti snúið mér fyrir myndatöku. You want booth? spurði hún og ég sagði já enda vildi ég bara finna svona myndaklefa en ekki alvöru ljósmyndara. Go to booth! sagði hún þegar ég horfði á hana skilningslausum augum og fannst lítil hjálp í henni þessari. Eftir smá pauf kom þó í ljós að ég átti að fara í Booths - stórapótek þeirra tjalla.

Þangað fór ég og fann myndklefann í barnafatadeildinni. Settist móð á koll og gerði allt eins og konuröddin í klefanum sagði mér að gera það. Hún hefði samt betur sagt mér að greiða mér því þegar myndirnar duttu í hendurnar á mér sýndu þær mædda og úfna miðaldra konu sem ég kannast eiginlega ekkert við. Verð samt að treysta því að hún dugi á aðgangskortið mitt.

Fyrsta tilraun til bloggunar

Jæja - þá er bara að blása á puttana og sjá hvernig gengur að ganga bloggtæknni á hönd á gamalsaldri. Langar til að halda úti bloggi á meðan ég dvel hér í Oxford næstu mánuðina. Slíkt bæði kemur mér inn á tölvuöld og ef þetta er ekki of skemmtilegt - sparar mér tíma við bréfaskriftir. Nú á allur tíminn að fara í stóra verkefnið mitt svo að ég geti snúið heim í vor léttari í lund og með góða samvisku.

Kom á sunnudaginn seint til minna nýju heimkynna. Leigi kames undir súð hjá þeim hjónum Winifred og Patrick. Winifred er komin á eftirlaun en var áður meinalæknir og er sérdeilis fínn og ljúfur leigusali. Patrick er hagfræðingur og vinnur mikið í Rússlandi svo hann hef ég enn ekki hitt. Í húsinu leigir líka Michelle sem er glaðleg stelpa frá Lux sem hér starfar að heilbrigðisrannsóknum. Hún er hjálpsöm og er á þessum stutta tíma bæði búin að hjálpa mér með hjólalása og að tengjst þráðlausa netinu á heimilinu.

Herbergið mitt er undir súð og mér finnst ég svolítið eins og ungmær komin á heimavist. Ég hef hins vegar fullan aðgang að eldhúsi og þvottavél og allir afar afslappaðir í umgengni. Hefur þó aðeins þurft að skamma mig því ég mundi ekki strax eftir að þrílæsa útidyrahurðinni - þeir skilja það þeir sem mig þekkja! Svo hafa ljós verið sett upp af rafvirkja sem annað hvort hefur skrítinn húmor eða er eitthvað veikur á sinni því það þarf ótrúlegt hugmyndaflug til að átta sig á hvernig á að kveikja hér ljós og slökkva. En það á vonandi eftir að lærast með tímanum.

Hef aldri áður komið til Oxford og finnst merkilegt að hér sé fullur bær að ungu fólki sem finnst það í hæsta máta eðlilegt að lifa og búa og læra í skólum sem allir líta út eins og skólinn hans Harry Potter (og reynar var hluti myndarinnar tekinn í einum slíkum). Er búin að fara einn bæjarrúnt um miðbæinn og það er nóg að skoða. Ætla samt að geyma túrhestaferðir þar til Ránka mín kemur í heimsókn í byrjun febrúar.

Fór í skólann í gær að hitta prófessorinn minn hana Ingrid. Menntunarfræðideildin er í norðurhluta Oxford sem er fínni hluti borgarinnar og er staðsett í einum 5-6 byggingum sem standa þó allar þétt. Þetta eru rismikil hús sem voru byggð sem fjölskylduhíbýli þegar að prófessorum við skólann var opinberlega leyft að giftast. Ég fæ aðstöðu undir súð í heldur óvistlegu herbergi en þar er þó tölva og prentari og á næstu hæð þetta fína bókasafn og svo fræðimenn sem ég fæ vonandi að spjalla eitthvað við. Ég má sitja öll seminör en á eftir að kynna mér þau.

Ingrid bauð mér heim eftir að ég var búin að hitta alla á skrifstofu deildarinnar og þar eldaði maðurinn hennar, Julian héraðsdómari, fyrir okkur nautakássu og bökuð epli en við Ingrid létum okkur nægja að dáðst að og leika við nýju kettina þeirra, þau Tilly og Milos. Þetta eru augsýnilega mjög ábyrgðarlaus hjón því eftir að hafa gefið mér Kir Royal í fordrykk og rauðvín með matnum sendu þau mig heim í myrkri og roki á hjóli sem þau vildu endilega lána mér á meðan ég er hér. Ég krossaði putta, steig á bak og hélt út í óvissuna en var afar glöð þegar ég komst heil á húfi hér upp Divinity Road. Þarf að fara með hjólið í skólann þegar að að bicyle doktorinn er við og fá hann til að hækka fyrir mig sætið. Það er svo erfitt að hjóla með hnén upp við eyru.

Jamm og nú er bara að sjá hvort að mér tekst að birta þetta.