fimmtudagur, 1. júlí 2010
Skuggabaldur fer í bakarí
Kominn júlí og enn hefur hitinn hækkað hér í Flórens. Það dugar mér að sitja á stól og anda til að svitna vel og rækilega. Í daglegum túr um borgina eru kirkjur, bankar og betri búðir orðið eina skjól mitt. Þar er skuggsælt og svalt. Í morgun lagði ég í hann upp úr hálfátta en þá hafði sólin haft eina þrjá tíma til að velgja þennan hluta heimsins og staðið sig frammúrskarandi. Ég ákvað að hlaupa niður í Cascine garðinn því þar er einna helst hægt að finna skjól undir trjákrónum. Reyndar voru þá borgaryfirvöld búin að loka drjúgum parti garðsins þar sem fallin tré liggja þvers og kruss eftir stórveður á 17. júní. Þeir eru seinni á sér hér að laga það sem aflaga fer en í Póllandi. Þar mátti maður varla missa kortið sitt á stéttina án þess að því hefði þrifalega verið sópað upp. Kannski er enginn vinnuskóli hér í Flórens? Samkvæmt prógrammi Sigga átti ég leika mér í fartleik sem felst í því að taka alls konar skemmtilega spretti inn á milli hefðbundins hlaups. Það gat ég bara engan veginn nema að maður megi kalla það fartleik að hlaupa silalega og standa svo grafkyrr þess á milli á gatnamótum. Það er auðvitað mismunandi hraði ef út í það er farið! Datt í hug að bæta aðeins við dagsskammtinn til að auðvelda mér restina af vikunni en þegar ég var búin að vinda úr hlaupatoppnum mínum á einum gatnamótunum ákvað ég að fara bara heim. Ég fann mér smá möntru að kyrja á heimleiðinni. Hún var svona: hiti er bara hugarástand- hiti er bara hugarástand - hiti er bara hugarástand (þetta er ný útgáfa af hefðbundinni möntru sem gengur út á að þreyta sé bara hugarástand) en mér kólnaði eiginlega ekkert við þetta. Ég fann hins vegar nýtt bakarí á heimleiðinni og er alveg að verða sérfræðingur í þeim. Í þessu bakaríi voru 168 tegundir af alveg eins hvítu brauði en svo tvær öðru vísi. Keypti þá til hægri sem reyndist heiðgult sojabrauð með hveitikjörnum - og reyndist við frekari kynni alveg ljómandi gott.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Eins gott að hann haldist heitur áfram svo þú svitir vel út öllu þessu brauði.
Rosa gaman að lesa lýsingar þínar. Þú verður búin að kanna alla stigu Flórens innan tíðar. Segið svo að hlaup séu ekki nytsamleg.
Bestu kveðjur í sólina,
Þóra
Skrifa ummæli