þriðjudagur, 24. apríl 2007
Ævintýrahelgi að baki
Þriðjudagur og þrumuhelgi að baki. Gat ekki skrifað fyrr því ég er búin að lifa svo tvöföldu lífi að hluta undanfarið að ég var komin með verki í lygagenið sem er samt yfirleitt í ágætri þjálfun. Skil ekki hvernig samráðsfurstar og fjármálaplottarar fara að því að halda kjafti yfir sínum planeringum. En sem sagt, Áslaug vinkona varð hálfrar aldargömul á föstudaginn og hélt upp á það með pompi og prakt. Bauð mér að sjálfsögðu og varð (að sjálfsögðu!) leið þegar ég sagðist ekki komast. Er samt búin að leyfa mér að fylgjast með undirbúningum og eftirvæntingunni og hafði ekki hugmynd um að ég var fyrir löngu búin að kaupa mér flugmiða heim. Og ég bara laug og laug út í eitt og grét næstum í okkar síðasta skæpsamtali á fimmtudaginn þar sem ég óskaðið henni til hamingju fyrirfram. Flaug svo heim um kvöldið alsæl að hitta mitt fólk. Var reyndar alveg búin að gleyma því hvernig er að sofa við hliðina á einhverjum öðrum en sjálfri mér. Og eftir seinkun á seinni flugvél og kjaftagang og kelerí lá ég og starði upp í loftið á Hjarðarhaganum á meðan Hannes hraut dátt við hliðina á mér. Kötturinn – sem ég taldi mig hafa saknað líka – vaknaði svo hálffjögur og vildi út og ég notaði tækifærið og dró sængina inn í stofusófa. Var þar enn vakandi þegar pápi gamli úr ameríku sem gisti hjá okkur um helgina mætti á fætur klukkan fimm – alsæll að fá mig í kompaní yfir morgunkaffinu. Hefði betur keypt mér baugahyljara í fríhöfninni.
Notaði föstudaginn til að kaupa afmælisgjöf fyrir Áslaugu. Langaði bara til að gefa henni bekk með árituðu spjaldi og tókst vel að útvega hvoru tveggja og fá mömmu með í gjöfina og gefa pullur. Reyndi að leggja mig í eftirmiddaginn en gekk brösuglega. Við Kristján maður Áslaugar – sem var með í vitorðinu vonda – vorum búin að velta fyrir okkur mögulegum innkomun mínum í partýið – en enduðum á einföldum leik. Mamma og hennar Hjálmar, Hannes og dóttla mættu á tilskyldum tíma en ég sat út í bíl og beið um stund en mætti svo og fékk að upplifa það að sjá Áslaugu í alvöru missa andlitið. Og það var sko gaman. Veislan hennar frábær og svo gaman að við vildum helst ekki hætta í henni og reyndum að vera eins lengi og við mögulega gátum.
Var enn baugóttari á laugardagsmorgun en varð bara að fara á fætur og út á Nes að hitta félaga í TKS. Þeirra hef ég líka saknað sárlega. Timburmennirnir flugu út á haf þar sem ég hljóp á milli Betu og Þóru og allt var eins og það átti að vera. Ákvað samt að stinga af úr sprettunum og fékk að kyssa marga bless. Hlauparar eru soddan góðmenni og gæðingar. Pabbi pantaði saltfisk í kvöldmat sem við keyptum eftir göngutúr um Öskjuhlíðina þar sem Hannes var dreginn timbraður með. Hann hefur ekki enn séð hlaupaljósið og heldur að það sé betra að sofa úr sér áfengisbölið. Saltfiskurinn reyndist ósaltur en pabbi kurteis kvað hann góðan. Dóttlu fannst skrítið að fá fisk í matinn á laugardagskveldi.
Á sunnudaginn vorum við svo mætt upp úr hádegi í fermingarveislu Hafsteins bróðursonar míns í Grafarvoginum, ófull. Fermingardrengurinn afar myndarlegur og flottur – og það er víst töff en ekki gleymska að girða ekki skyrtuna ofaní fermingarbuxurnar. Sátum og úðuðum í okkur góðum veitingum, spjölluðum við ættingja og hin ættin sló í gegn því hún kann að syngja en ekki við mín megin. Sem betur fór tók faðir fermingabarnsins lagið og lagaði aðeins stöðuna fyrir okkur. Keyrðum heim frænkur og ég fór og kaus til vonar og vara. Fegin að vera í fermingarveislufötunum því mér finnast kosningar hátíðlegar og ef ég ætti hatt frekar en ljótar ullarhúfur þá myndi ég setja hann upp þegar ég nota atkvæðisréttinn. Komum við hjá fimmtugu konunni að skoða afmælisgjafir. Pabbi gamli var ekki búinn að skila sér heim klukkan 10 og við orðin áhyggjufull enda er hann yfirleitt sofnaður fyrir þann tíma. Sá hann fyrir mér sofandi hér og þar um bæinn en hann mætti glaðvakandi til okkur rétt um hálfellefu.
Fundaði með leiðbeinendum mínum á mánudagsmorgun og fannst það gott. Hefur verið boðið og næstum skipað af leiðbeinandanum hér ytra að nota maímánuð í verkefnið og fara ekki heim fyrr en að síðasti kafli er kominn nokkurn vegin í hús. Fór heim með þessi skilaboð til fjölskyldunnar. Hannesi fannst þetta hið besta mál enda las ég eftirfarandi stjörnuspá hans fyrir daginn í dag:Það finnst fátt betra en að friður og samhljómur umfaðmi fjölskylduna þína. Þá flýtur upp úr ástarbikarnum þínum og þú fyrirgefur þeim flest. Ekki skrítið að hann sé sáttur við að ég verði lengur í burtu ef það fylgir brottförinni þessi líka friður og samhljómur! Kötturinn lét sér fátt um finnast en dóttlan mín sat og hágrét móður sína þegar ég sneri til baka eftir gleymdri myndavél. Varð til þess að ég grét líka í flugvélinni.
Á eftir að ræða betur endanlega brottför við heimamenn og notaði daginn í dag að hugsa minn gang og koma mér í samt lag aftur eftir ævintýrahelgi. Ætla að kasta mér kaflann minn enda segir spáin mín eftirfarandi: Innra með þér vex þörf fyrir að sanna þig. En svo bæta þeir við: Þú ert ekki í skapi fyrir megrun eða hreyfingu, svo snúðu þegar að heilanum og hæfileikunum. Og ég sem hélt að mínir hæfileikar fælust m.a. í hlaupunum og ætlaði einmitt að fara út að hlaupa.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Drífðu þig nú með þetta kona! Þú varst næstum því búin að koma mér aftur í vælugírinn með þessu bloggi!
Skrifa ummæli