þriðjudagur, 10. apríl 2007

Páskaannáll


Þriðji í páskum að klárast og við dóttlan búnar að gera það gott. Vitum samt ekkert hvurt dagarnir hlupu en eldsnemma í fyrramálið á sú yngri að mæta í rútu og hossast í henni út á flugvöll og fljúga svo heim úr sólinni og í hretið.

Við höfum haft það ljómandi gott saman, sofið hlið við hlið, önnur á hermannabedda og herbergið mitt eins og flóttamannabúðir.Vorum búnar að útvega okkur íbúð yfir hátíðarnar en leið svo ljómandi vel hérna á Divinty Road að við fórum hvergi. Ákváðum að taka 5 tíma á dag í próflestur og ritgerðarsamningar en eyða rest í meira spennandi hluti eins og búðarráp og miðbæjarrölt. Veðurguðirnir voru okkur heldur betur hliðhollir og sólin skein og hitinn rauk upp úr öllu valdi og gladdi okkur mikið.

Fékk lánað hjól handa Rönku sem var í fyrstu treg til að stíga á bak og bar við alls konar fyrri áföllum í bernsku en eftir að hafa látið til leiðast hjólaði hún eins og herforingi um allan bæ á vinsti akgrein. Fannst reyndar hjálmurinn ekki passa nægilega vel við skvísuídentitetið en lét sig líka hafa það að bera hann.

Höfum verið heldur slappar í eldamennsku og látið aðra sjá um þá deild. Farið út að borða og prufað portúgalskan, ítalskan og tælenskan mat og að auki heimalagað lambalæri hjá Ingrid umsjónarkennara og hennar manni, Julían héraðsdómara.

Ákváðum að halda páskadaginn sérlega heilagan og læra ekki neitt. Fórum með alíslensku páskaeggin okkar í gönguferð upp í South Park og lágum þar í sólinni og kepptumst við sólina að klára súkkulaðið og samkvæmt Michele sem er með gráðu í næringarfræði settum við líklega ofan í okkur einar 3000 kaloríur af hreinum sykri á sólarhring. Við vorum líka svolítið skrítnar bæði á meðan og á eftir – mest að innan.

Höfum skemmt okkur vel með foreldrum Michele sem er hér líka í páskareisu og mest erum við skotnar í pabbanum Bert sem skilur ekki orð í ensku en hlær engu að síður glaðlega með okkur þegar að tökum vitleysingsköst. Í dag var svo síðasti sjéns að ná í búðir og við lögðumst í víking eftir að hafa setið yfir ritgerðum framan af degi. Spændum upp peysur í lágvöruversluninni Primark þar sem verðlag er lyginni líkast en litum svo aðeins í dýrari búðir til að eyða nú örugglega því sem við spöruðum í þeirri ódýru. Nú ætlar dóttla að gera hetjulega tilraun til að koma kaupfengnum í ferðatöskuna en ef það ekki gengur er bara spurning um að mæta á völlin í nokkrum lögum. Mikið verður nú tómlegt án hennar.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sætar í sólinni, mæðgur! Hér á skerinu er enn vetur og mér er enn lítið farið að hlýna eftir veturinn kalda. Er búin að fá nóg af þessu og ætla að heimsækja Eygló til Köben í næstu viku. Þar er hitastig og vorkoma á eitthvað líku reki og hjá þér. Þar á sem sé að fara í búðir (skrýtið) og veitingahús og hjóla um bæinn. Fleiri skvísur en Ranka þín sem tóku upp nýja siði í útlöndum. Mín er sem sé búin að átta sig á að það er hægt að hjóla á háhæluðum stígvélum og halda lúkkinu. Ég hef ekki séð neitt minnst á hjálm þar á bæ raunar. En hún ætlar að leigja hjól fyrir mömmuna.
Njóttu lífsins! Svala

Nafnlaus sagði...

Hi Svala min.
Skemmtu ther vel i Koben med thinni dottlu - maelimed svona dogum their lyfta manni verulega upp! Ragnheidur hefdi orugglega aldrei latid sja sig med hjalm ef hun aetti ekki svona vonda modur!
Ha det bra og hilsen til Eyglo