sunnudagur, 15. apríl 2007
Helgarblogg
Veðrið heldur áfram að leika við fólk hér í Oxford (og auðvitað aðra nágranna okkar hér í Bretlandi). Helgarplönin voru að skríða áfram með næsta kafla og ýmis önnur verkefni sem aðrir eru að bíða eftir að ég klári. En svo er bara erfitt fyrir auman Íslending að sitja undir súð í 24 stiga hita og sól. Ég hef meira að segja farið út að hlaupa snemma á morgnana til að ná morgunþokunni - annað væri of heitt.
Sat yfir kaflanum mínum til klukkan þrjú í gær en gafst þá upp og fór í mikla skemmtiferð með Michele. Hjóluðum niður að á og áfram út í vestur Oxford þar sem við heimsóttum veitingastaðinn The Fishes. Hafði heyrt um hann í einhverju hádeginu í staffaherberginu og hann reyndist ídeal fyrir svona nestiskonu eins og mig. Staðurinn stendur niður við á í litlu þorpi og þar er hægt að borða venjulega eða fara í lautarferð. Þá pantar maður sé tilboð við barinn og fær svo körfu með köflóttum dúk og veitingum og getur annað hvort tyllt sér á bekki eða fengið lánuð teppi til að sitja á. Sátum í sólinni og borðuðum kalt kjöt, hummus, sólþurrkaða tómata, sveppapaté og brauð og ég lagði á ráðin um svona stað heima – yrði kannski takmarkaður rekstargrunnur.
Hjóluðum sælar og saddar í sólinni í bíó og þó ég hefði vissar efasemdir um ágæti þess að láta sig hverfa inn í myrkrið í blíðunni var tímanum þar afar vel varið. Sáum þýsku myndina The lives of others (heitir örugglega almennilegu þýsku nafni) sem var aldeilis frábær, fróðleg, hlý og mannleg og þeirrar gerðar að maður kemur betri kona út. Ekki spillti fyrir að aðalpersónan var eins og snýtt út úr nefinu á Benedikti Erlingssyni (sem er þó enn myndarlegri!). Eyddi svo kvöldrest í að horfa á söngvakeppni framhaldsskólanna og kjafta við Áslaugu vinkonu á skæpinu. Hún er að verða fimmtug núna síðar í vikunni og á von á 120 gestum í gleðskapinn. Hún er bæði búin að búa til ólífubollur og kaupa undir þær servíettur. Áslaug vinkona mín hefur ítrekað reynt að kenna mér lífsmóttóið: Einfaldaðu líf þitt. Ég vona að hún hafi ekki tekið þetta mottó sitt of alvarlega. Við mamma hennar og nokkrar konur í viðbót höfum smá áhyggjur af afmælinu en ef ég þekki mína rétt á hún eftir að rúlla þessu upp með sóma. Og segja mér síðar nákvæmlega frá öllu sem ég missi af.
Vaknaði inn í enn einn sólardaginn í morgun og varð að fara aftur út að hlaupa stutta Theimshringinn minn. Létt í lund enda hafði ég ekki hugmynd um þá stórviðburði sem dunið höfðu yfir bresku þjóðina. Vilhjálmur prins sagði sem sagt henni Kötu sinni upp í gær og hún er mjög leið en mamma hennar víst enn daprari enda segja blöðin hér að hún sé agalega mikið snobb sem er alls ekki viðeigandi þegar að haft er í huga að hún er bara fyrrverandi flugfreyja. Kata sem er búin að vera kærasta Villa held ég í fimm ár fór eitthvað að setja honum stólinn fyrir dyrnar og fúlast yfir því að hann er alltaf að djamma með hendurnar á brjóstinu á brasilískum pæjum og launskotinn í annarri ljóshærðri - og þá var hann bara ekki til í þetta lengur. Segir eins og satt er að hann sé bara 24 ára strákur og að Kata sé ekki baun skemmtileg lengur.
En þetta hafði ég sem sagt ekki hugmynd um þar sem hljóp meðfram ánni og naut þess að horfa á ræðara spreyta sig inn um endur og svani. Sat svo yfir verkefnum fram eftir degi en gafst upp undir fjögur og dró Michele aftur niður að á í göngutúr. Fundum loksins bakaríið sem er hér í nágrenninu og ég hafði lesið um í bókinni minni um götuna mína. Það er í lítilli hliðargötu, í ofurvenjulegu húsi og er víst rekið af ekkju sem býr bara til venjuleg brauð og selur nágrönnunum. Hún varð eitthvað leið á bakstrinum og ákvað að hætta en nágrannarnir urðu enn leiðari en hún og sendu allir sem einn börnin sín grátandi til hennar að biðja hana um að hætta við að hætta. Lágum á glugganum og fannst ekki mikið til koma en set búðarskiltið með sem mynd. Það sýnir opnunartímann og svo þessa frábæru setningu: Eða þarf til brauðið klárast!
Borðuðum svo kvöldmatinn út í garði.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Sæl mín kæra.
Ég hef margsagt að það sé skemmtilegt að lesa bloggið þitt. Ert snillingur að skrifa. Af hverju gerir þú það ekki bara að atvinnu?
En ég held þú hafir stolið veðrinu mínu. Hér var búið að vera 30 stiga hiti vikum saman fram að páskum en síðan er búið að vera stórfurðulegt veður hérna. Þrumur og eldingar marga daga í röð og rigning. Og það fylgja þessu svo ótrúlega furðulegir skellir. Húsið nötraði og skalf í nótt og rúðurnar hristust. Getur ímyndað þér hvað það er notalegt og róandi að sofa við þetta.
Svo er þetta svo íslenskuleg veðrátta því hún er svo breytileg yfir daginn. Í morgun var til dæmis rigning, síðan birti til í hálftíma svo varð aftur þungskýjað og svona var þetta fram eftir deginum þangað til seinnipartinn að það var svakasól í tvo tíma. Allt frekar íslenskulegt nema sólin náttúrlega.
Sendi þér knús í sólina með smá öfundartón samt og sendi þér síðan fullt af orku í verkefnið sem ég á nú samt varla til. hehe
Knús Þurý
Skil samt ekki hvað hún Kata er að agnnúast út í Kalla greyið fyrir að vera að vesenast í annarra brjóstum svona víða. Hélt þetta væri sjálfsagt mál að hann gerði það sem hann vildi enda með blátt blóð í æðunum. Knús Þurý
Skrifa ummæli