þriðjudagur, 17. apríl 2007
Heimsókn í kennslumiðstöð
Mánudagurinn minn var ekki til mæðu en hann var öðruvísi en aðrir. Hafði lengi langað til að heimsækja Kennslumiðstöð þeirra í Oxford Brooks sem er ‘hinn’ háskólinn hér í Oxford. Og hann er í alvöru ‘hinn’ í félagslegri merkingu þess orðs. Þar ganga börnin ekki um í hvítum skyrtum og skikkjum og skólastofur ekki byggðar á miðöldum. Kennsluhættir kannski líkari því sem við þekkjum heima. ‘Hinnið’ felst líka í staðsetningu hans eins og ég komst að raun um þar sem ég hjólaði í 45 mínútur í sólinni að mér fannst hálfa leið til London. Lagði upp í ferðina í mínum besta galla, vel púðruð á nefinu og með gloss og alles en mætti á áfangastað rauð og móð og bullsveitt og þeir sem tóku á móti mér þótti mikilvægast að byrja á því að bera í mig vatn. Fékk að gramsa í bókunum þeirra og skoða það sem þeir hafa gefið út sjálfir af kennsluefni og við ræddum mikilvægi góðrar staðsetningar svona miðstöðva. Þau voru áður staðsett í aðalkampusnum í Oxford en voru flutt í hagræðingarskyni fyrir fjórum árum og hafa ekki séð nokkra sálu síðan – nema þá einhverja furðu- og farfugla eins og mig. Drakk hjá þeim svolítið meira vatn og kvaddi þá með virktum og hjólaði aftur heim.
Heima beið mín það ábyrgðarhlutverk að opna fyrir ræstingakonunum þeim Lynn og Lukku sem koma á Divinty Road yfirleitt á mánudögum. Átti von á þeim upp úr eitt en þær mættu galsvaskar með þúsund hreinsiefni klukkan hálffimm og fóru um húsið eins og hvítur stromsveipur nema að þær skúruðu ekkert hjá okkur Michele á háaloftinu. Ég þorði ekki að kvarta heldur borgaði þeim bara uppsett verð og þær fóru og kvöddu með virktum.
Ástarmál Villa prins voru snarlega tekin úr umræðu fjölmiðlanna í gær eftir sorgaratburðina í Viriginíu og í stað þess mættir í fréttatíma alvarlegir jakkalakkar til að ræða um aðgengi hins almenna ameríkuborgara að vopnum. Í febrúar las ég mjög athyglisverða bók eftir konu að nafni Lionel Shriver. Bókin heitir We need to talk about Kevin og er afar sterk lesning og ég var hálfmiður mín á meðan ég var að lesa hana. Sögumaður er móðir drengs sem situr í fangelsi eftir af að hafa skotið skólafélaga sína og hún rekur sögu hans frá fæðingu og líf fjölskyldunnar í bréfum til fyrrum eiginmanns síns. Bókin er ekki bara sálfræðilega vel gerð heldur hefur höfundur augsýnilega unnið alla undirbúningsvinnu vel og þetta er ein af þessum bókum sem halda áfram að lifa í kollinum á manni löngu eftir síðasta punt. Mér þótti samt merkilegt að sjá Lionel Shriver mætta í fréttatíma í gær – sem sérfræðing í skólaskotárásum - til að útskýra Virgníuatburðinn. Það sýnir kannski hvað skilin á milli raunveruleikans og ímyndunarinnar eru orðin óljós.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Hæ mín kæra. Það er nú algjör misskilningur að ég sé eitthvað að vinna hér af viti. Einhvernvegin er ég orðin alveg tóm og er bara alvarlega haldin af ritstíflu og kemst bara ekkert áfram. Eins og ég ætlaði að vera dugleg þessa vikuna.
Varst að spurja hvenær ég kæmi heim. Það verður 30 maí sem ég kem heim. En hvenær ferð þú heim?
Knús og faðmlög í sólina. Þurý
Skrifa ummæli