laugardagur, 28. apríl 2007

Heilsuleysi


Ég er kona sem verð - sem betur fer afar - sjaldan veik og tek því öllum lasleika óstinnt upp. Búin að vera í mér einhver luðra síðan ég kom að heiman. Hélt fyrst að þetta væri bara afleiðing svefnleysis og útistáelsis sem það hefur líklega verið. En líklega hef ég tekið með mér hálsbólgu og hausverk sem ég vildi að hefði verið tekinn af mér í tollinum. Er því búin að lufast í og úr vinnu, ekkert miðað í skriftum, orðið döpur og leið og fyllst vantrú á eigin getu. Með hroll og hausverk og ekki farið út að hlaupa og pínulítið eitthvað viðkvæm til sálarinnar. Sat í hádeginu í gær með samlokuna mína í staffaherberginu og lærði allt um matarpuntka frá konunum sem eru þyngdareftirlitinu (Weight Watches)og kannski var það þess vegna sem ég endaði vinnudaginn á því að borða 175 grömm af þurrkuðum ávöxtum og hnetum. Veit ekki hvað það eru margir punktar en dugar að minnsta kosti sem nasl til tveggja daga í erfiðum fjallaferðum – svo mikið veit ég. Heima beið svo Michelle með nýju, íslensku pönnukökupönnuna sem ég færði henni frá fróni æst í að vígja hana. Ég fór móð upp í herbergi og náði í pönnukökuuppskriftina frá mömmu sem aldrei bregst og veðraðist öll upp við að sýna Michelle hvernig á að baka alíslenskar pönnukökur. Fannst hún ekki sýna okkar þjóðararfi næga virðingu. Hún vildi fara að bræða á þær ost og gera alls konar hundakúnstir sem ég harðneitaði að taka þátt í.
- Þetta eru íslenskar pönnukökur - sagði ég –og það á að borða þær rúllaðar með sykri og ekki í kvöldmatinn!
Það er ekki nema von að allt sé að fara norður og niður þegar fólk ber ekki lengur virðingu fyrir menningu annarra. Borðuðum þær rúllaðar í kvöldmat og ég offraði með flatkökum og hangikjöti og harðfiski sem Michele sagði að minnti sig á gullfiskafóður. Veit ekki hvað þau er vön að borða heima hjá henni en setti snúðug harðfiskinn inn í skáp og sagði að hún fengi hvort sem er ekki meira.

Drakk þrjá punkta af rauðvíni áður en ég fór að sofa og horfði á skandinavana dæma júróvísíónlögin. Hljómar dálítið dapurt að vera einn á kojufylleríi inni í herbergi á föstudagskvöldi. Kláraði svo að lesa bókina um inspektor Morse í morgun þar sem hann hreinlega dó í rúminu hjá mér. Lewis yfirbugaður af sorg og ég fór að gráta – meira samt yfir Lewis en Morse. Andlát Morse kom svo sem ekki á óvart því undir titlinum stendur: The final inspector Morse mystery. Mér fannst bara svo sorglegt þegar að Morse er að reyna á dánarstundinni að skila kveðju til vinar síns Lewis en hjúkkan heyrir ekki hvað hann er að segja. Fór að segja Michele og Winifred frá endinum í hádeginu og fékk þá aftur tár í augun og varð klökk og þær bara hlógu enda kaldlyndar konur sem ekkert þekktu til þeirra félaga.

En sem sagt eftir að ég var búin að syrgja Morse um stund ákvað ég að segja hálsbólgum og andlegum luðrum stríð á hendur. Stal meyjahári af Michele (hún er nær því að vera það en ég) sem ég kveikti í og hrærði öskunni saman við froskablóð úr garðinum og tók inn með Strepsil og fór svo út að hlaupa – fyrst í peysu og svo ber. Tók þetta með Dressmanntaktinum – hægara en ég hélt að væri hægt (í merkingunni mögulegt) en kom samt móð og sveitt til baka og nú á ég eftir að sjá hvort að heilsan- bæði sú andlega og hin líkamlega – er að koma eða fara. Við Michele erum á leiðinni í róður (eða stjökun) niður á Thames – eigum líka eftir að kaupa fisk í veislu fyrir morgundaginn á markaðnum og gengur illa að skipulegga ferðina. Stakk upp á því að við keyptum fyrst fiskinn og færum með hann á sjó í svona öfuga veiðiferð en hún er hrædd um að það muni slá eitthvað í hann við það.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hef ég eitthvað smita þig af þessari leiðu:) hún fer vittu til!

Nafnlaus sagði...

Æi - nei örugglega ekki - þú ert soddan sólskinsbarn. En held að hún sé hvort sem er á bak og burtu XXX