föstudagur, 13. apríl 2007

Hið fölbláa man



Hvernig er spáin? spurði ég Hannes á Skæpinu í gærkvöldið og hann sagði að von væri á suðlægum áttum og allt upp í átta stiga hita og var kampakátur með blíðuna (þið sjáið hvað gneistar af rómantík á milli okkar!). Ég fékk strax samviskubit yfir mínu veðri og var að hugsa um að þegja yfir því. En svo tók stærilætið yfir og ég stóðst ekki mátið: Helgarspáin hér er glampandi sól og 23 stiga hiti. Já sagði Hannes.

Veit ekki hvort hún á eftir að standast en það hefur engu að síður hlýnað hér verulega og dagarnir góðir. Reyndar þarf maður að búa sig út í daginn eins og í fjallaferð á Íslandi. Vettlingar og ullarsokkar í morgunþokunni sem er ísköld og hlýrabolur fyrir heimferðina síðdegis. Og með veðraskiptunum stóð ég skyndilega frammi fyrir því að afklæðast mínum 70 den sokkabuxum, henda af mér treflinum og týna af mér ullarpeysurnar. Og þá blasir við - jájá – hið fölbláa man. Það er erfitt að lýsa mínum natúrella vetrarhúðlit en kannski er það best gert með undanrennu. Það er þessi blágrágræni glæri tónn – sem setterast jafnvel út í mysulit. En hann er að minnsta kosti ekki mikið augnayndi svona þegar hann kemur fyrst út úr vetrarskápnum.

Ég er ekki mikil ljósakona og á erfiðar minningar frá barnæsku þar sem fölum og mjóum börnum úr Laugarneshverfinu var stefnt vikulega í Laugarnesskólann í ljósaherbergið. Þar lágum við á bekkjum í hrönnum, allsber og aumingjaleg, með kolsvört ljósagleraugu og hvítklædd kona sagði gaf okkur reglulegar skipanir um að snúa. Eins og kjúklingar á teini hlýddum við í einu og öllu þannig að ég brann að minnsta kosti jafnt á öllum hliðum. Það var alltaf einhvers skrítin lykt þarna og það tók mig akkúrat viku að jafna mig af mesta brunanum og þá var kominn tími til að mæta aftur.

Hér virðist vera fátt um drápsljósabekki en í apótekum vella úr hillunum brúnkukrem og froður af öllum gerðum og því ákvað ég um páskana að fjárfesta í mínum fyrsta brúnkubrúsa. Verandi flumbra var valið hvorki vandað né miðað við húðlit þannig að eftir fyrstu tilraun var ég eins og fölur gíraffi. Stórir dökkbrúnir blettir hér og þar og í gegn skein minn blágræni tónn. Sem betur fer er dóttla mun meiri fagurkeri í brúnkufræðum en ég og hjálpaði mér að velja annan brúsa sem ætlaður er fölari fljóðum. Er búin að bera á mig tvisvar og er ekki frá því að ég sé orðin örlítið fallegri.

Jæja, þá er bara að snúa sér aftur að skrifunum. Sendi frá mér kafla á annan í páskum og ætlaði glaðbeitt að vinda mér í næsta. Hef svo bara átt hörmungarskrifdaga sem fara í lítið annað en að snúast í örvæntingafulla hringi bæði fískiskt og andlega. Bar mig illa við Michele sem sagði mér að vera ekki að hugsa of mikið um að byrja á réttu setningunni. Réttu setningunni! Ég er sko löngu hætt að biðja um hana. Nú myndi hvaða setning sem er duga.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl mín kæra. Mér finnst þér bara fara svo vel þessi blágrágræni litur að þú megir nú bara alls ekkert vera mikið að hreyfa við honum. Enda fer hann svo vel við freknurnar þínar.

Hér er bara enn þungskýjað og held að himnarnir hafi hreinlega opnast hér í gærkvöldi enda varð bara allt hreinlega vitlaust í smá tíma. Hávaðinn og eldglæringarnar um allt og þvílíka gríðarlega rigningin. Maður sá götuna fyllast á augabragði og fara að flæða yfir gangstéttirnar af götunni. Ótrúlegt sem það gekk mikið á, ég varð bara dauðskelkuð og hélt það væri skollið á stríð smástund :-) Knús frá Spáni en þar er enn þungskýjað þrátt fyrir að veðursólukkugrísinn minn sé farinn heim. Þurý

Nafnlaus sagði...

þetta á allt eftir að ganga hjá þér:) sjáðu bara til! bæði brúnkan og kaflarnir þínir