föstudagur, 27. apríl 2007
Af fuglum og fötum
Ætlaði eiginlega að blogga í dag um fugla. Segja frá því hvernig ég vakna á hverjum morgni – eða kannski nóttu – um fimmleytið á Divinity Road við þessa líka frábæru margradda hljómkviðu. Hef þá legið í áfram, hlustað og velt fyrir mér af hverju þeir fara allir að syngja sem einn á þessum tíma. Hvort að einn vekur annan og svo koll af kolli. Og halda þeir áfram svona allan daginn eða þagna þeir? Næ aldrei að svara þeirri spurningu heldur sofna aftur frá henni ósvarðri. Las svo í Mogganum í gær eða fyrradag um erlenda vísindamenn sem höfðu rannsakað fugla og komust að því að þeir syngja svona á næturnar og í morgunsárið því þá er eini tíminn til að þeir fái að njóta sín í borgarkliðnum. Þeir eru að helga sér svæði og ná sér í maka með kvakinu. Nú get ég sofið áfram róleg á morgnana.
En ég var sem sagt að hugsa um föt í morgun og það kom auðvitað ekki til af góðu. Þegar við Hannes þurfum af einhverjum ástæðum að klæða okkur upp á fer hann í jakkafötin og heldur uppi rauða bindinu og því gráa og segir við mig: Hvort? Gráa – segi ég (enda valdi ég það á sínum tíma). Þegar að mikið stendur til segi ég: Ættirðu ekki að vera í dökkum sokkum? Og hann hlýðir því – eða ekki (eftir því hvernig forhollið hjá okkur er hverju sinni).
Mín uppáklæðning krefst hins vegar margra daga úthugsaðrar og yfirvegaðrar strategíu. Byrjar andlega með því að ég fer í gegnum fataskápinn í huganum og set saman ýmsa möguleika. Útiloka strax sumt en held öðrum möguleikum opnum. Velti fyrir mér fyrirhuguðum aðstæðum og þarfagreini út frá félagslegu sjónarhorni (hverjir verða þarna og hvernig verður stemmningin). Leita svo inn á við í sjálfsígrundun (í hvernig stuði ég þessa dagana). Á síðustu stundu fokkast svo öll plön og strategíur upp – ég ríf allt út úr skápnum – máta og máta –hendi í hrúgu höfnuðum flíkum – dreg þær aftur upp úr hrúgunni og prófa aftur – máta bæði í mínum spegli og dóttlu. Pósa nokkur dæmi fyrir Hannes (sem segir í hvert sinn: Já þetta er flott) og dóttlu sem hallar undir flatt og segir: Já ókey. Sit smá stund á hrúgunni – hætti við að fara - næ áttum – finn sjálfa mig á ný og fer í það sem ég var fyrir löngu búin að ákvað að væri fínt. Er heillengi að hengja aftur upp öll fötin sem ég ætla ekki í.
Og þetta gerist á mínum heimavelli þar sem ég er eins og fiskur í vatni – en hvernig á ég að höndla tilveruna hér – á þurru landi? Horfði á mig í speglinum í morgun og spurði: Hver ertu eiginlega? Með glænýja útlenska og skrítna klippingu – og spáin er sól og 23 stiga hiti – en úti er þoka og skítakuldi og ég með hálsbólgu og kvef. Skápurinn fullur af svörtum fötum sem ég mætti með hingað í janúar. Sumarbuxurnar einu góðu í þvotti. Finnst húðlitar sokkabuxur kellingalegar en dökkbrúnu 80 denin ganga hreinlega ekki. Hlírabolur fellur engan veginn að hálsbólgunni og ég myndi krókna á leiðinni. Kannski get ég orðið svona goth eitthvað í minni svörtu múderingu eða verið eins og háskólstelpunar í götunni sem fara hér um allt í náttbuxunum sínum. Held ég fari kannski frekar í þeim í vinnuna. Ég er hvort sem er hálflasin í dag.
PS Aldrei þessu vant las Hannes bloggið mitt og segir það lygi að hann hafi talið Stikilsberjafinn vera á flatbytnu. Eins og allir vel greindir og lesnir vita var hann á fleka (þ.e.a.s. Finnur).
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Við eigum þetta sko sameiginlegt! ég get verið heilu klukkutímana að máta einhver föt fyrir eitthvað og svo enda ég alltaf í því sama! Morganir geta verið sérstaklega erfiðir núna því ekkert virðist passa, en hér uppi á bókhlöðu eru þó nokkrir bara á náttbuxunum, kannski maður prófið það!
Las þetta fyrir Önnu Láru með mátunina hjá þér og við skellihlógum enda finnst mér oft ótrúlega margt fyndið og skemmtilegt sem þú skrifar. Ég legg til að þú leggir frá þér þetta doktorsverkefni og farir að skrifa skemmtilegar sögur til að lesa á kvöldin :-)
Er annars farin að líta löngunaraugum til sumarbústaðastundanna hjá okkur. Hlakka sannarlega til þess að hlaupa yfir til þín og spjalla. Svo er mig farið að langa dáldið í vöfflur hjá Steinari. Verðum að láta hann búa slíkt til handa okkur við fyrsta tækifæri.
Gangi þér annars svakalega vel við skrifin vinkona og bestu kveðjur úr Spánarveldi. Knús Þurý
Skrifa ummæli