fimmtudagur, 19. apríl 2007

Af flatbytnum og fleira


Ef að sólin ætlar að halda þessu áfram fer vatnsbúskapur Breta að verða til vandræða og ég get örugglega aldrei klárað ritgerðina mína. Sit í kjallaranum og mæni út í góða veðrið og finn til hinnar íslensku skyldu að stökkva út í blíðuna. Skammast út í Michele leigufélaga fyrir að sitja inni á góðu degi og dreg hana út í gönguferðir um leið og ég mæti heim úr vinnu. Kaffihús og barir blómstra og þar sitja utandyra hálfber og hálfkennd ungmenni og njóta tilverunnar og puntleigur sprottnar upp alls staðar. Ég á enn eftir að prófa að punta og veit ekki einu sinni hvað slíkur bátur heitir upp á íslensku. Reyndi að rifja upp með Hannesi um daginn hvort að Stiklilsberjafinnur hefði verið á flatbytnu en við vorum ekki viss. Punt er sem sagt svona flatur bátur - kannski bara flatbytna - sem er stjakað með löngu priki og lítur út fyrir að vera hinn skemmtilegasti ferðamáti. Verða að prófa það áður en ég fer heim.

Stalst úr skriftum á kennslufræðinámskeið hjá kennslumiðstöð Oxford háskóla í fyrradag. Bara til að sjá hvernig þeir gera hlutina hér. Námskeiðið var haldið í Pembroke skólanum sem ég vissi ekki alveg hvar var. Hitti svo við innganginn ungan mann sem var einmitt á sömu leið og ég svo við urðum samferða. Hann var Juan frá Barcelóna og þegar ég kynnti mig frá Íslandi horfði hann brosandi á mig og spurði á algjörlega lýtalausri íslensku: Viltu giftast mér? Ég varð kjaftstopp enda þekkti ég ekki manninn en leist samt bara nokkuð vel á hann en áður en ég gat stunið upp svari bætti hann við: Haltu kjafti og rassgat í bala. Líka á svona hljómfagurri og kórréttri íslensku. Ég tók því þannig að hann væri flagari og meinti ekki neitt með bónorðinu. Ansans.

Fór að hitta þær ágætu stöllur, Margréti og Elínu út í háskólagarði þar sem við sátum í sólinni og borðuðum samlokur frá Taylors og gjóuðum augunum á strákana sem voru að spila krikkett í hvítum buxum og vaffhálsmálspeysum. Þær sögðu mér frá því að ungur maður hefði dáið í hjólaslysi í gær þegar að stór öskubíll keyrði á hann á gatnamótum sem við förum allar um reglulega og höfum alltaf talið öruggan umferðarstað. Meðal annars oft stolist yfir á rauðu. Erum hættar því í bili.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert svo mikill snilli! Vá hvað ég skellihló hérna í horninu mínu í Þakklætisgötunni yfir bónorðinu og framhaldinu af því. Kannt svo sannarlega að segja skemmtilega frá enda viss um að þurrasta námsefni getur orðið skemmtilegt í meðförum þínum.

Knús frá Spáni en þar er sólin líka farin að gleðja sálina enda ábyggilega 30 stig í dag sem er enn ánægjulegra því spáin sagði skýjað. Þurý

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ

Tek undir með Þuru - hló hátt að fagurlega frambornu bónorðinu, enda elti ég síðuna þína uppi þar sem mamma sver að hún sé sú skemmtilegasta í netheimum (og varð ekki fyrir vonbrigðum!).

Annars bara kveðja til Oxford frá Köben,

Eygló Árna- og Svöludóttir

Nafnlaus sagði...

Og þá veistu það Guðrún mín! Og grunaðir það líklega áður að þú ert afbragðspenni. Slengi hér Eyglóar bloggi líka ef þú hefur gaman af að sjá í máli og myndum hvað við mæðgur brölluðum í Köben síðustu daga. Eygló er raunar ein af þessum skemmtilegu bloggurum og skemmtir okkur nær daglega með skrifum sínum. http://blog.central.is/kobeneyglo
Kveðja,
Svala

Nafnlaus sagði...

Sælar stöllu þrjár - er búin að vera heima um helgina og í litlu bloggsambandi. Sé á bloggingu þínu góða Eygló að þið mæðgur hafið átt ljúfar stundir saman. Góðar kveðjur til þín líka spánarkona.
gg