mánudagur, 30. apríl 2007
Hóst og hnerri og brotin sjálfsmynd
Mér finnst algjörlega óviðeigandi að vera með kvef og hálsbólgu í sól og blíðu – þetta eru vetrarveikindi sem eiga hreinlega ekki við á öðrum árstíðum – fussum svei og fari þau systkin hósti og hnerri nú í rass og rófu.
Fór með Michele og hálsbólgunni og Möru vinkonu Michele að punta á laugardaginn. Það var erfitt en mest fyrir sjálfsálitið. Hér hef ég alltaf staðið í þeirri trú að í sambandi okkar Michele sé ég íþróttaálfurinn sem get allt og hún svona meira sófakartaflan. Ég heimtaði því að fá að stjaka og eftir smá kennslustund á bakkanum héldum við þrjár á vit ævintýranna. Þau ævintýri fólust fyrst og fremst í því að ég stímdi á allt og alla sem var að finna á þeirri kílómetralangri leið sem mér tókst með herkjum að skikksakka. Michele og Mara voru ýmist hálfar upp í bátum hjá öðrum bytnuförum, klesstar upp við aldargamla veggi eða geirnegldar inn í tré og runna. Fuglar skræktu á mig og börn hlógu. Var orðin veruleg móð og uppgefin þegar að Michele baust til að taka við og viti menn – hér var kominn endurborinn gondólisti sem stýrði okkur mjúklega á leiðarenda – bara nokkuð hratt. Kom í land með brotna sjálfsmynd sem batnaði nú ekki við það að vakna næsta dag undirlögð í harðsperrum sem Michele kannast hvergi við að finna í eigin kroppi. Ansans árans!
Í gær buðum við Michele svo leigusölum til matarveislu. Hafði lengi staðið til en erfitt að finna stund og stað þar sem allir voru á sama stað á sama tíma. Borðuðum í garðinum og byrjuðum á íslensku brennivíni, þykku úr frystinum og mauluðum með flatkökur með hangikjöti og harðfisk. Þjóðarrétturinn vakti mikla lukku hjá hjónunum sem gáfu nágrönnunum smakk yfir garðvegginn. Michele bauð næst um á lúxembúrgska baunasúpu áður en við skelltum okkur í parmavafinn skötsel með sítrónu- og kaperssósu. Skötuselurinn átti að vera íslenskt dæmi og var góður. Að lokum toppuðum við kvöldverðinn með eftirrétti innfæddra - karamelluklístursbúðingi (Sticky Toffeee Pudding) sem er djúsí kaloríubomba sem ég á eftir að prófa einhvern tíma heima.
Fræðistörfum miðaði því miður lítið en það er mánudagur og því rétti tíminn til að byrja nýtt líf – ekki satt?
laugardagur, 28. apríl 2007
Heilsuleysi
Ég er kona sem verð - sem betur fer afar - sjaldan veik og tek því öllum lasleika óstinnt upp. Búin að vera í mér einhver luðra síðan ég kom að heiman. Hélt fyrst að þetta væri bara afleiðing svefnleysis og útistáelsis sem það hefur líklega verið. En líklega hef ég tekið með mér hálsbólgu og hausverk sem ég vildi að hefði verið tekinn af mér í tollinum. Er því búin að lufast í og úr vinnu, ekkert miðað í skriftum, orðið döpur og leið og fyllst vantrú á eigin getu. Með hroll og hausverk og ekki farið út að hlaupa og pínulítið eitthvað viðkvæm til sálarinnar. Sat í hádeginu í gær með samlokuna mína í staffaherberginu og lærði allt um matarpuntka frá konunum sem eru þyngdareftirlitinu (Weight Watches)og kannski var það þess vegna sem ég endaði vinnudaginn á því að borða 175 grömm af þurrkuðum ávöxtum og hnetum. Veit ekki hvað það eru margir punktar en dugar að minnsta kosti sem nasl til tveggja daga í erfiðum fjallaferðum – svo mikið veit ég. Heima beið svo Michelle með nýju, íslensku pönnukökupönnuna sem ég færði henni frá fróni æst í að vígja hana. Ég fór móð upp í herbergi og náði í pönnukökuuppskriftina frá mömmu sem aldrei bregst og veðraðist öll upp við að sýna Michelle hvernig á að baka alíslenskar pönnukökur. Fannst hún ekki sýna okkar þjóðararfi næga virðingu. Hún vildi fara að bræða á þær ost og gera alls konar hundakúnstir sem ég harðneitaði að taka þátt í.
- Þetta eru íslenskar pönnukökur - sagði ég –og það á að borða þær rúllaðar með sykri og ekki í kvöldmatinn!
Það er ekki nema von að allt sé að fara norður og niður þegar fólk ber ekki lengur virðingu fyrir menningu annarra. Borðuðum þær rúllaðar í kvöldmat og ég offraði með flatkökum og hangikjöti og harðfiski sem Michele sagði að minnti sig á gullfiskafóður. Veit ekki hvað þau er vön að borða heima hjá henni en setti snúðug harðfiskinn inn í skáp og sagði að hún fengi hvort sem er ekki meira.
Drakk þrjá punkta af rauðvíni áður en ég fór að sofa og horfði á skandinavana dæma júróvísíónlögin. Hljómar dálítið dapurt að vera einn á kojufylleríi inni í herbergi á föstudagskvöldi. Kláraði svo að lesa bókina um inspektor Morse í morgun þar sem hann hreinlega dó í rúminu hjá mér. Lewis yfirbugaður af sorg og ég fór að gráta – meira samt yfir Lewis en Morse. Andlát Morse kom svo sem ekki á óvart því undir titlinum stendur: The final inspector Morse mystery. Mér fannst bara svo sorglegt þegar að Morse er að reyna á dánarstundinni að skila kveðju til vinar síns Lewis en hjúkkan heyrir ekki hvað hann er að segja. Fór að segja Michele og Winifred frá endinum í hádeginu og fékk þá aftur tár í augun og varð klökk og þær bara hlógu enda kaldlyndar konur sem ekkert þekktu til þeirra félaga.
En sem sagt eftir að ég var búin að syrgja Morse um stund ákvað ég að segja hálsbólgum og andlegum luðrum stríð á hendur. Stal meyjahári af Michele (hún er nær því að vera það en ég) sem ég kveikti í og hrærði öskunni saman við froskablóð úr garðinum og tók inn með Strepsil og fór svo út að hlaupa – fyrst í peysu og svo ber. Tók þetta með Dressmanntaktinum – hægara en ég hélt að væri hægt (í merkingunni mögulegt) en kom samt móð og sveitt til baka og nú á ég eftir að sjá hvort að heilsan- bæði sú andlega og hin líkamlega – er að koma eða fara. Við Michele erum á leiðinni í róður (eða stjökun) niður á Thames – eigum líka eftir að kaupa fisk í veislu fyrir morgundaginn á markaðnum og gengur illa að skipulegga ferðina. Stakk upp á því að við keyptum fyrst fiskinn og færum með hann á sjó í svona öfuga veiðiferð en hún er hrædd um að það muni slá eitthvað í hann við það.
föstudagur, 27. apríl 2007
Af fuglum og fötum
Ætlaði eiginlega að blogga í dag um fugla. Segja frá því hvernig ég vakna á hverjum morgni – eða kannski nóttu – um fimmleytið á Divinity Road við þessa líka frábæru margradda hljómkviðu. Hef þá legið í áfram, hlustað og velt fyrir mér af hverju þeir fara allir að syngja sem einn á þessum tíma. Hvort að einn vekur annan og svo koll af kolli. Og halda þeir áfram svona allan daginn eða þagna þeir? Næ aldrei að svara þeirri spurningu heldur sofna aftur frá henni ósvarðri. Las svo í Mogganum í gær eða fyrradag um erlenda vísindamenn sem höfðu rannsakað fugla og komust að því að þeir syngja svona á næturnar og í morgunsárið því þá er eini tíminn til að þeir fái að njóta sín í borgarkliðnum. Þeir eru að helga sér svæði og ná sér í maka með kvakinu. Nú get ég sofið áfram róleg á morgnana.
En ég var sem sagt að hugsa um föt í morgun og það kom auðvitað ekki til af góðu. Þegar við Hannes þurfum af einhverjum ástæðum að klæða okkur upp á fer hann í jakkafötin og heldur uppi rauða bindinu og því gráa og segir við mig: Hvort? Gráa – segi ég (enda valdi ég það á sínum tíma). Þegar að mikið stendur til segi ég: Ættirðu ekki að vera í dökkum sokkum? Og hann hlýðir því – eða ekki (eftir því hvernig forhollið hjá okkur er hverju sinni).
Mín uppáklæðning krefst hins vegar margra daga úthugsaðrar og yfirvegaðrar strategíu. Byrjar andlega með því að ég fer í gegnum fataskápinn í huganum og set saman ýmsa möguleika. Útiloka strax sumt en held öðrum möguleikum opnum. Velti fyrir mér fyrirhuguðum aðstæðum og þarfagreini út frá félagslegu sjónarhorni (hverjir verða þarna og hvernig verður stemmningin). Leita svo inn á við í sjálfsígrundun (í hvernig stuði ég þessa dagana). Á síðustu stundu fokkast svo öll plön og strategíur upp – ég ríf allt út úr skápnum – máta og máta –hendi í hrúgu höfnuðum flíkum – dreg þær aftur upp úr hrúgunni og prófa aftur – máta bæði í mínum spegli og dóttlu. Pósa nokkur dæmi fyrir Hannes (sem segir í hvert sinn: Já þetta er flott) og dóttlu sem hallar undir flatt og segir: Já ókey. Sit smá stund á hrúgunni – hætti við að fara - næ áttum – finn sjálfa mig á ný og fer í það sem ég var fyrir löngu búin að ákvað að væri fínt. Er heillengi að hengja aftur upp öll fötin sem ég ætla ekki í.
Og þetta gerist á mínum heimavelli þar sem ég er eins og fiskur í vatni – en hvernig á ég að höndla tilveruna hér – á þurru landi? Horfði á mig í speglinum í morgun og spurði: Hver ertu eiginlega? Með glænýja útlenska og skrítna klippingu – og spáin er sól og 23 stiga hiti – en úti er þoka og skítakuldi og ég með hálsbólgu og kvef. Skápurinn fullur af svörtum fötum sem ég mætti með hingað í janúar. Sumarbuxurnar einu góðu í þvotti. Finnst húðlitar sokkabuxur kellingalegar en dökkbrúnu 80 denin ganga hreinlega ekki. Hlírabolur fellur engan veginn að hálsbólgunni og ég myndi krókna á leiðinni. Kannski get ég orðið svona goth eitthvað í minni svörtu múderingu eða verið eins og háskólstelpunar í götunni sem fara hér um allt í náttbuxunum sínum. Held ég fari kannski frekar í þeim í vinnuna. Ég er hvort sem er hálflasin í dag.
PS Aldrei þessu vant las Hannes bloggið mitt og segir það lygi að hann hafi talið Stikilsberjafinn vera á flatbytnu. Eins og allir vel greindir og lesnir vita var hann á fleka (þ.e.a.s. Finnur).
þriðjudagur, 24. apríl 2007
Ævintýrahelgi að baki
Þriðjudagur og þrumuhelgi að baki. Gat ekki skrifað fyrr því ég er búin að lifa svo tvöföldu lífi að hluta undanfarið að ég var komin með verki í lygagenið sem er samt yfirleitt í ágætri þjálfun. Skil ekki hvernig samráðsfurstar og fjármálaplottarar fara að því að halda kjafti yfir sínum planeringum. En sem sagt, Áslaug vinkona varð hálfrar aldargömul á föstudaginn og hélt upp á það með pompi og prakt. Bauð mér að sjálfsögðu og varð (að sjálfsögðu!) leið þegar ég sagðist ekki komast. Er samt búin að leyfa mér að fylgjast með undirbúningum og eftirvæntingunni og hafði ekki hugmynd um að ég var fyrir löngu búin að kaupa mér flugmiða heim. Og ég bara laug og laug út í eitt og grét næstum í okkar síðasta skæpsamtali á fimmtudaginn þar sem ég óskaðið henni til hamingju fyrirfram. Flaug svo heim um kvöldið alsæl að hitta mitt fólk. Var reyndar alveg búin að gleyma því hvernig er að sofa við hliðina á einhverjum öðrum en sjálfri mér. Og eftir seinkun á seinni flugvél og kjaftagang og kelerí lá ég og starði upp í loftið á Hjarðarhaganum á meðan Hannes hraut dátt við hliðina á mér. Kötturinn – sem ég taldi mig hafa saknað líka – vaknaði svo hálffjögur og vildi út og ég notaði tækifærið og dró sængina inn í stofusófa. Var þar enn vakandi þegar pápi gamli úr ameríku sem gisti hjá okkur um helgina mætti á fætur klukkan fimm – alsæll að fá mig í kompaní yfir morgunkaffinu. Hefði betur keypt mér baugahyljara í fríhöfninni.
Notaði föstudaginn til að kaupa afmælisgjöf fyrir Áslaugu. Langaði bara til að gefa henni bekk með árituðu spjaldi og tókst vel að útvega hvoru tveggja og fá mömmu með í gjöfina og gefa pullur. Reyndi að leggja mig í eftirmiddaginn en gekk brösuglega. Við Kristján maður Áslaugar – sem var með í vitorðinu vonda – vorum búin að velta fyrir okkur mögulegum innkomun mínum í partýið – en enduðum á einföldum leik. Mamma og hennar Hjálmar, Hannes og dóttla mættu á tilskyldum tíma en ég sat út í bíl og beið um stund en mætti svo og fékk að upplifa það að sjá Áslaugu í alvöru missa andlitið. Og það var sko gaman. Veislan hennar frábær og svo gaman að við vildum helst ekki hætta í henni og reyndum að vera eins lengi og við mögulega gátum.
Var enn baugóttari á laugardagsmorgun en varð bara að fara á fætur og út á Nes að hitta félaga í TKS. Þeirra hef ég líka saknað sárlega. Timburmennirnir flugu út á haf þar sem ég hljóp á milli Betu og Þóru og allt var eins og það átti að vera. Ákvað samt að stinga af úr sprettunum og fékk að kyssa marga bless. Hlauparar eru soddan góðmenni og gæðingar. Pabbi pantaði saltfisk í kvöldmat sem við keyptum eftir göngutúr um Öskjuhlíðina þar sem Hannes var dreginn timbraður með. Hann hefur ekki enn séð hlaupaljósið og heldur að það sé betra að sofa úr sér áfengisbölið. Saltfiskurinn reyndist ósaltur en pabbi kurteis kvað hann góðan. Dóttlu fannst skrítið að fá fisk í matinn á laugardagskveldi.
Á sunnudaginn vorum við svo mætt upp úr hádegi í fermingarveislu Hafsteins bróðursonar míns í Grafarvoginum, ófull. Fermingardrengurinn afar myndarlegur og flottur – og það er víst töff en ekki gleymska að girða ekki skyrtuna ofaní fermingarbuxurnar. Sátum og úðuðum í okkur góðum veitingum, spjölluðum við ættingja og hin ættin sló í gegn því hún kann að syngja en ekki við mín megin. Sem betur fór tók faðir fermingabarnsins lagið og lagaði aðeins stöðuna fyrir okkur. Keyrðum heim frænkur og ég fór og kaus til vonar og vara. Fegin að vera í fermingarveislufötunum því mér finnast kosningar hátíðlegar og ef ég ætti hatt frekar en ljótar ullarhúfur þá myndi ég setja hann upp þegar ég nota atkvæðisréttinn. Komum við hjá fimmtugu konunni að skoða afmælisgjafir. Pabbi gamli var ekki búinn að skila sér heim klukkan 10 og við orðin áhyggjufull enda er hann yfirleitt sofnaður fyrir þann tíma. Sá hann fyrir mér sofandi hér og þar um bæinn en hann mætti glaðvakandi til okkur rétt um hálfellefu.
Fundaði með leiðbeinendum mínum á mánudagsmorgun og fannst það gott. Hefur verið boðið og næstum skipað af leiðbeinandanum hér ytra að nota maímánuð í verkefnið og fara ekki heim fyrr en að síðasti kafli er kominn nokkurn vegin í hús. Fór heim með þessi skilaboð til fjölskyldunnar. Hannesi fannst þetta hið besta mál enda las ég eftirfarandi stjörnuspá hans fyrir daginn í dag:Það finnst fátt betra en að friður og samhljómur umfaðmi fjölskylduna þína. Þá flýtur upp úr ástarbikarnum þínum og þú fyrirgefur þeim flest. Ekki skrítið að hann sé sáttur við að ég verði lengur í burtu ef það fylgir brottförinni þessi líka friður og samhljómur! Kötturinn lét sér fátt um finnast en dóttlan mín sat og hágrét móður sína þegar ég sneri til baka eftir gleymdri myndavél. Varð til þess að ég grét líka í flugvélinni.
Á eftir að ræða betur endanlega brottför við heimamenn og notaði daginn í dag að hugsa minn gang og koma mér í samt lag aftur eftir ævintýrahelgi. Ætla að kasta mér kaflann minn enda segir spáin mín eftirfarandi: Innra með þér vex þörf fyrir að sanna þig. En svo bæta þeir við: Þú ert ekki í skapi fyrir megrun eða hreyfingu, svo snúðu þegar að heilanum og hæfileikunum. Og ég sem hélt að mínir hæfileikar fælust m.a. í hlaupunum og ætlaði einmitt að fara út að hlaupa.
fimmtudagur, 19. apríl 2007
Af flatbytnum og fleira
Ef að sólin ætlar að halda þessu áfram fer vatnsbúskapur Breta að verða til vandræða og ég get örugglega aldrei klárað ritgerðina mína. Sit í kjallaranum og mæni út í góða veðrið og finn til hinnar íslensku skyldu að stökkva út í blíðuna. Skammast út í Michele leigufélaga fyrir að sitja inni á góðu degi og dreg hana út í gönguferðir um leið og ég mæti heim úr vinnu. Kaffihús og barir blómstra og þar sitja utandyra hálfber og hálfkennd ungmenni og njóta tilverunnar og puntleigur sprottnar upp alls staðar. Ég á enn eftir að prófa að punta og veit ekki einu sinni hvað slíkur bátur heitir upp á íslensku. Reyndi að rifja upp með Hannesi um daginn hvort að Stiklilsberjafinnur hefði verið á flatbytnu en við vorum ekki viss. Punt er sem sagt svona flatur bátur - kannski bara flatbytna - sem er stjakað með löngu priki og lítur út fyrir að vera hinn skemmtilegasti ferðamáti. Verða að prófa það áður en ég fer heim.
Stalst úr skriftum á kennslufræðinámskeið hjá kennslumiðstöð Oxford háskóla í fyrradag. Bara til að sjá hvernig þeir gera hlutina hér. Námskeiðið var haldið í Pembroke skólanum sem ég vissi ekki alveg hvar var. Hitti svo við innganginn ungan mann sem var einmitt á sömu leið og ég svo við urðum samferða. Hann var Juan frá Barcelóna og þegar ég kynnti mig frá Íslandi horfði hann brosandi á mig og spurði á algjörlega lýtalausri íslensku: Viltu giftast mér? Ég varð kjaftstopp enda þekkti ég ekki manninn en leist samt bara nokkuð vel á hann en áður en ég gat stunið upp svari bætti hann við: Haltu kjafti og rassgat í bala. Líka á svona hljómfagurri og kórréttri íslensku. Ég tók því þannig að hann væri flagari og meinti ekki neitt með bónorðinu. Ansans.
Fór að hitta þær ágætu stöllur, Margréti og Elínu út í háskólagarði þar sem við sátum í sólinni og borðuðum samlokur frá Taylors og gjóuðum augunum á strákana sem voru að spila krikkett í hvítum buxum og vaffhálsmálspeysum. Þær sögðu mér frá því að ungur maður hefði dáið í hjólaslysi í gær þegar að stór öskubíll keyrði á hann á gatnamótum sem við förum allar um reglulega og höfum alltaf talið öruggan umferðarstað. Meðal annars oft stolist yfir á rauðu. Erum hættar því í bili.
þriðjudagur, 17. apríl 2007
Heimsókn í kennslumiðstöð
Mánudagurinn minn var ekki til mæðu en hann var öðruvísi en aðrir. Hafði lengi langað til að heimsækja Kennslumiðstöð þeirra í Oxford Brooks sem er ‘hinn’ háskólinn hér í Oxford. Og hann er í alvöru ‘hinn’ í félagslegri merkingu þess orðs. Þar ganga börnin ekki um í hvítum skyrtum og skikkjum og skólastofur ekki byggðar á miðöldum. Kennsluhættir kannski líkari því sem við þekkjum heima. ‘Hinnið’ felst líka í staðsetningu hans eins og ég komst að raun um þar sem ég hjólaði í 45 mínútur í sólinni að mér fannst hálfa leið til London. Lagði upp í ferðina í mínum besta galla, vel púðruð á nefinu og með gloss og alles en mætti á áfangastað rauð og móð og bullsveitt og þeir sem tóku á móti mér þótti mikilvægast að byrja á því að bera í mig vatn. Fékk að gramsa í bókunum þeirra og skoða það sem þeir hafa gefið út sjálfir af kennsluefni og við ræddum mikilvægi góðrar staðsetningar svona miðstöðva. Þau voru áður staðsett í aðalkampusnum í Oxford en voru flutt í hagræðingarskyni fyrir fjórum árum og hafa ekki séð nokkra sálu síðan – nema þá einhverja furðu- og farfugla eins og mig. Drakk hjá þeim svolítið meira vatn og kvaddi þá með virktum og hjólaði aftur heim.
Heima beið mín það ábyrgðarhlutverk að opna fyrir ræstingakonunum þeim Lynn og Lukku sem koma á Divinty Road yfirleitt á mánudögum. Átti von á þeim upp úr eitt en þær mættu galsvaskar með þúsund hreinsiefni klukkan hálffimm og fóru um húsið eins og hvítur stromsveipur nema að þær skúruðu ekkert hjá okkur Michele á háaloftinu. Ég þorði ekki að kvarta heldur borgaði þeim bara uppsett verð og þær fóru og kvöddu með virktum.
Ástarmál Villa prins voru snarlega tekin úr umræðu fjölmiðlanna í gær eftir sorgaratburðina í Viriginíu og í stað þess mættir í fréttatíma alvarlegir jakkalakkar til að ræða um aðgengi hins almenna ameríkuborgara að vopnum. Í febrúar las ég mjög athyglisverða bók eftir konu að nafni Lionel Shriver. Bókin heitir We need to talk about Kevin og er afar sterk lesning og ég var hálfmiður mín á meðan ég var að lesa hana. Sögumaður er móðir drengs sem situr í fangelsi eftir af að hafa skotið skólafélaga sína og hún rekur sögu hans frá fæðingu og líf fjölskyldunnar í bréfum til fyrrum eiginmanns síns. Bókin er ekki bara sálfræðilega vel gerð heldur hefur höfundur augsýnilega unnið alla undirbúningsvinnu vel og þetta er ein af þessum bókum sem halda áfram að lifa í kollinum á manni löngu eftir síðasta punt. Mér þótti samt merkilegt að sjá Lionel Shriver mætta í fréttatíma í gær – sem sérfræðing í skólaskotárásum - til að útskýra Virgníuatburðinn. Það sýnir kannski hvað skilin á milli raunveruleikans og ímyndunarinnar eru orðin óljós.
sunnudagur, 15. apríl 2007
Helgarblogg
Veðrið heldur áfram að leika við fólk hér í Oxford (og auðvitað aðra nágranna okkar hér í Bretlandi). Helgarplönin voru að skríða áfram með næsta kafla og ýmis önnur verkefni sem aðrir eru að bíða eftir að ég klári. En svo er bara erfitt fyrir auman Íslending að sitja undir súð í 24 stiga hita og sól. Ég hef meira að segja farið út að hlaupa snemma á morgnana til að ná morgunþokunni - annað væri of heitt.
Sat yfir kaflanum mínum til klukkan þrjú í gær en gafst þá upp og fór í mikla skemmtiferð með Michele. Hjóluðum niður að á og áfram út í vestur Oxford þar sem við heimsóttum veitingastaðinn The Fishes. Hafði heyrt um hann í einhverju hádeginu í staffaherberginu og hann reyndist ídeal fyrir svona nestiskonu eins og mig. Staðurinn stendur niður við á í litlu þorpi og þar er hægt að borða venjulega eða fara í lautarferð. Þá pantar maður sé tilboð við barinn og fær svo körfu með köflóttum dúk og veitingum og getur annað hvort tyllt sér á bekki eða fengið lánuð teppi til að sitja á. Sátum í sólinni og borðuðum kalt kjöt, hummus, sólþurrkaða tómata, sveppapaté og brauð og ég lagði á ráðin um svona stað heima – yrði kannski takmarkaður rekstargrunnur.
Hjóluðum sælar og saddar í sólinni í bíó og þó ég hefði vissar efasemdir um ágæti þess að láta sig hverfa inn í myrkrið í blíðunni var tímanum þar afar vel varið. Sáum þýsku myndina The lives of others (heitir örugglega almennilegu þýsku nafni) sem var aldeilis frábær, fróðleg, hlý og mannleg og þeirrar gerðar að maður kemur betri kona út. Ekki spillti fyrir að aðalpersónan var eins og snýtt út úr nefinu á Benedikti Erlingssyni (sem er þó enn myndarlegri!). Eyddi svo kvöldrest í að horfa á söngvakeppni framhaldsskólanna og kjafta við Áslaugu vinkonu á skæpinu. Hún er að verða fimmtug núna síðar í vikunni og á von á 120 gestum í gleðskapinn. Hún er bæði búin að búa til ólífubollur og kaupa undir þær servíettur. Áslaug vinkona mín hefur ítrekað reynt að kenna mér lífsmóttóið: Einfaldaðu líf þitt. Ég vona að hún hafi ekki tekið þetta mottó sitt of alvarlega. Við mamma hennar og nokkrar konur í viðbót höfum smá áhyggjur af afmælinu en ef ég þekki mína rétt á hún eftir að rúlla þessu upp með sóma. Og segja mér síðar nákvæmlega frá öllu sem ég missi af.
Vaknaði inn í enn einn sólardaginn í morgun og varð að fara aftur út að hlaupa stutta Theimshringinn minn. Létt í lund enda hafði ég ekki hugmynd um þá stórviðburði sem dunið höfðu yfir bresku þjóðina. Vilhjálmur prins sagði sem sagt henni Kötu sinni upp í gær og hún er mjög leið en mamma hennar víst enn daprari enda segja blöðin hér að hún sé agalega mikið snobb sem er alls ekki viðeigandi þegar að haft er í huga að hún er bara fyrrverandi flugfreyja. Kata sem er búin að vera kærasta Villa held ég í fimm ár fór eitthvað að setja honum stólinn fyrir dyrnar og fúlast yfir því að hann er alltaf að djamma með hendurnar á brjóstinu á brasilískum pæjum og launskotinn í annarri ljóshærðri - og þá var hann bara ekki til í þetta lengur. Segir eins og satt er að hann sé bara 24 ára strákur og að Kata sé ekki baun skemmtileg lengur.
En þetta hafði ég sem sagt ekki hugmynd um þar sem hljóp meðfram ánni og naut þess að horfa á ræðara spreyta sig inn um endur og svani. Sat svo yfir verkefnum fram eftir degi en gafst upp undir fjögur og dró Michele aftur niður að á í göngutúr. Fundum loksins bakaríið sem er hér í nágrenninu og ég hafði lesið um í bókinni minni um götuna mína. Það er í lítilli hliðargötu, í ofurvenjulegu húsi og er víst rekið af ekkju sem býr bara til venjuleg brauð og selur nágrönnunum. Hún varð eitthvað leið á bakstrinum og ákvað að hætta en nágrannarnir urðu enn leiðari en hún og sendu allir sem einn börnin sín grátandi til hennar að biðja hana um að hætta við að hætta. Lágum á glugganum og fannst ekki mikið til koma en set búðarskiltið með sem mynd. Það sýnir opnunartímann og svo þessa frábæru setningu: Eða þarf til brauðið klárast!
Borðuðum svo kvöldmatinn út í garði.
föstudagur, 13. apríl 2007
Hið fölbláa man
Hvernig er spáin? spurði ég Hannes á Skæpinu í gærkvöldið og hann sagði að von væri á suðlægum áttum og allt upp í átta stiga hita og var kampakátur með blíðuna (þið sjáið hvað gneistar af rómantík á milli okkar!). Ég fékk strax samviskubit yfir mínu veðri og var að hugsa um að þegja yfir því. En svo tók stærilætið yfir og ég stóðst ekki mátið: Helgarspáin hér er glampandi sól og 23 stiga hiti. Já sagði Hannes.
Veit ekki hvort hún á eftir að standast en það hefur engu að síður hlýnað hér verulega og dagarnir góðir. Reyndar þarf maður að búa sig út í daginn eins og í fjallaferð á Íslandi. Vettlingar og ullarsokkar í morgunþokunni sem er ísköld og hlýrabolur fyrir heimferðina síðdegis. Og með veðraskiptunum stóð ég skyndilega frammi fyrir því að afklæðast mínum 70 den sokkabuxum, henda af mér treflinum og týna af mér ullarpeysurnar. Og þá blasir við - jájá – hið fölbláa man. Það er erfitt að lýsa mínum natúrella vetrarhúðlit en kannski er það best gert með undanrennu. Það er þessi blágrágræni glæri tónn – sem setterast jafnvel út í mysulit. En hann er að minnsta kosti ekki mikið augnayndi svona þegar hann kemur fyrst út úr vetrarskápnum.
Ég er ekki mikil ljósakona og á erfiðar minningar frá barnæsku þar sem fölum og mjóum börnum úr Laugarneshverfinu var stefnt vikulega í Laugarnesskólann í ljósaherbergið. Þar lágum við á bekkjum í hrönnum, allsber og aumingjaleg, með kolsvört ljósagleraugu og hvítklædd kona sagði gaf okkur reglulegar skipanir um að snúa. Eins og kjúklingar á teini hlýddum við í einu og öllu þannig að ég brann að minnsta kosti jafnt á öllum hliðum. Það var alltaf einhvers skrítin lykt þarna og það tók mig akkúrat viku að jafna mig af mesta brunanum og þá var kominn tími til að mæta aftur.
Hér virðist vera fátt um drápsljósabekki en í apótekum vella úr hillunum brúnkukrem og froður af öllum gerðum og því ákvað ég um páskana að fjárfesta í mínum fyrsta brúnkubrúsa. Verandi flumbra var valið hvorki vandað né miðað við húðlit þannig að eftir fyrstu tilraun var ég eins og fölur gíraffi. Stórir dökkbrúnir blettir hér og þar og í gegn skein minn blágræni tónn. Sem betur fer er dóttla mun meiri fagurkeri í brúnkufræðum en ég og hjálpaði mér að velja annan brúsa sem ætlaður er fölari fljóðum. Er búin að bera á mig tvisvar og er ekki frá því að ég sé orðin örlítið fallegri.
Jæja, þá er bara að snúa sér aftur að skrifunum. Sendi frá mér kafla á annan í páskum og ætlaði glaðbeitt að vinda mér í næsta. Hef svo bara átt hörmungarskrifdaga sem fara í lítið annað en að snúast í örvæntingafulla hringi bæði fískiskt og andlega. Bar mig illa við Michele sem sagði mér að vera ekki að hugsa of mikið um að byrja á réttu setningunni. Réttu setningunni! Ég er sko löngu hætt að biðja um hana. Nú myndi hvaða setning sem er duga.
þriðjudagur, 10. apríl 2007
Páskaannáll
Þriðji í páskum að klárast og við dóttlan búnar að gera það gott. Vitum samt ekkert hvurt dagarnir hlupu en eldsnemma í fyrramálið á sú yngri að mæta í rútu og hossast í henni út á flugvöll og fljúga svo heim úr sólinni og í hretið.
Við höfum haft það ljómandi gott saman, sofið hlið við hlið, önnur á hermannabedda og herbergið mitt eins og flóttamannabúðir.Vorum búnar að útvega okkur íbúð yfir hátíðarnar en leið svo ljómandi vel hérna á Divinty Road að við fórum hvergi. Ákváðum að taka 5 tíma á dag í próflestur og ritgerðarsamningar en eyða rest í meira spennandi hluti eins og búðarráp og miðbæjarrölt. Veðurguðirnir voru okkur heldur betur hliðhollir og sólin skein og hitinn rauk upp úr öllu valdi og gladdi okkur mikið.
Fékk lánað hjól handa Rönku sem var í fyrstu treg til að stíga á bak og bar við alls konar fyrri áföllum í bernsku en eftir að hafa látið til leiðast hjólaði hún eins og herforingi um allan bæ á vinsti akgrein. Fannst reyndar hjálmurinn ekki passa nægilega vel við skvísuídentitetið en lét sig líka hafa það að bera hann.
Höfum verið heldur slappar í eldamennsku og látið aðra sjá um þá deild. Farið út að borða og prufað portúgalskan, ítalskan og tælenskan mat og að auki heimalagað lambalæri hjá Ingrid umsjónarkennara og hennar manni, Julían héraðsdómara.
Ákváðum að halda páskadaginn sérlega heilagan og læra ekki neitt. Fórum með alíslensku páskaeggin okkar í gönguferð upp í South Park og lágum þar í sólinni og kepptumst við sólina að klára súkkulaðið og samkvæmt Michele sem er með gráðu í næringarfræði settum við líklega ofan í okkur einar 3000 kaloríur af hreinum sykri á sólarhring. Við vorum líka svolítið skrítnar bæði á meðan og á eftir – mest að innan.
Höfum skemmt okkur vel með foreldrum Michele sem er hér líka í páskareisu og mest erum við skotnar í pabbanum Bert sem skilur ekki orð í ensku en hlær engu að síður glaðlega með okkur þegar að tökum vitleysingsköst. Í dag var svo síðasti sjéns að ná í búðir og við lögðumst í víking eftir að hafa setið yfir ritgerðum framan af degi. Spændum upp peysur í lágvöruversluninni Primark þar sem verðlag er lyginni líkast en litum svo aðeins í dýrari búðir til að eyða nú örugglega því sem við spöruðum í þeirri ódýru. Nú ætlar dóttla að gera hetjulega tilraun til að koma kaupfengnum í ferðatöskuna en ef það ekki gengur er bara spurning um að mæta á völlin í nokkrum lögum. Mikið verður nú tómlegt án hennar.
fimmtudagur, 5. apríl 2007
Hinn sanni páskaandi
Góðan dag.
NÚ GENGUR senn í garð helgasti
árstími okkar kristinna manna. Það
er ljóður á ráði að það virðist vera
sem helgistundum fylgi mikil
óráðsía. Á jólunum liggja börnin
organdi og heimta sífellt stærri
pakka, í stað þess að minnast fæðingar
Krists. Á páskunum liggja
börnin organdi í sykursjokki eftir að
hafa graðgað í sig súkkulaði í lítravís.
Ég þoli ekki börn. Sjálf átti ég
erfiða æsku og hagaði mér aldrei
eins og barn. Ég var ekki alin upp
við stanslaust gjafaflóð, heldur var
ég látin vinna fyrir mat mínum og
var reglulega hýdd. Þess ber ég enn
merki. Þá var ég ekki ánægð með
þessa meðferð, en í dag sé ég að hún
var mér fyrir bestu. Ef ekki hefði
verið fyrir umræddar barsmíðar
lægi ég liggjandi í gólfinu organdi á
meiri sykur og gjafir. Þess í stað er
ég þakklát fyrir það sem ég hef og
ætla ekki að borða súkkulaði á páskunum.
Þó má vera að ég fái mér epli.
Og svo eru það fermingarnar. Þegar
ég var yngri þótti það munaður að fá
á annað borð að vera fermdur. Nú
telst enginn maður með mönnum
nema hann fái fermingarveislu fyrir
mörg hundruð þúsund og helst gjafir,
einkum tölvuspil og sælgæti!
Þetta ætti ekki að heita ferming
lengur. Þetta ætti að heita Óráðsía.
Það er að vísu líka nafn á landi en
fermingar gætu einnig kallast það.
Fermingarbörn mæta jafnvel í
veislurnar á gulum limósíum sem
hæfa klámkóngum. Ég vil því skora
á þegna þessa lands að koma með
okkur félögum í Femínistafélagi Íslands
og mótmæla óráðsíunni (fermingunni,
jólum og páskum) fyrir utan
Hallgrímskirkju á Pálmasunnudag.
Hættum að vera gráðug, fáum okkur
eins og einn ávöxt til hátíðabrigða en
lifum annars meinlætalífi! Að lokum
vil ég hrósa Morgunblaðinu fyrir
dálkinn Orð dagsins. Þar er oft að
finna þarfan boðskap á þessum síðustu
og verstu tímum. Knaparnir
fjórir nálgast óðum.
Guðrún Jónsdóttir.
Ja sussum svei! Stóðst ekki mátið eftir að hafa lesið Netmoggann minn í morgun og rekist á þessa ljúfu páskakveðju. Verst að komast ekki með í mótmælin - en ég fæ mér bara páskaepli (bara hálft) í staðið og bíð svo skíthrædd eftir knöpunum fjórum.
Upp er runninn...
Skínandi fallegur skírdagur hér í Oxford. Reyndar vita þeir hér í kringum mig ekkert af honum svo ég geng um eins og trúboði og segi þeim frá síðustu kvöldmáltíðinni sem þeir segja að eigi sér engan sérstakan dag. Þeir kalla líka föstudaginn langa ‘föstudaginn góða’ svo það er ekki von á góðu úr þeirri áttinni. Andrew skrifstofufélagi taldi það mun skynsamlegra að kalla hann langan en góðan – ef maður setti sig í spor þess sem væri á krossinum. Það ku vera aðal verslunardagurinn að vori þannig að heilagleikinn er einhvern veginn minni hér en ég á að venjast. Enda hjólaði ég bara að venju í vinnuna í morgun og sólin skein en þessi 16 stig sem veðurfréttirnar lofuðu í gær eru ekki alveg mætt og það blés köldu inn að beini.
Dóttla situr í þessum skrifuðu orðum í flugvél og nálgast landið óðfluga. Er vonandi að kaupa sælgætiskassann sem ég bað hana um í flugbútíkinni og með lýsið frá Hannesi í ferðtöskunni. Verst ég gleymdi að biðja um meira gulrótarappelsínumarmelaði. Þarf að fara sparlega með rest ef hún á að duga fram í maí.
Angurværðin blásin af og rétturinn minn (melónusneiðar með parmaskinku, balamsýrópi og parmaseanosti) í starfsmannaboðinu þótti til fyrirmyndar. Kaflabjáninn er að taka á sig einhvers konar mynd sem ég get sætt mig við og nú er bara að bretta upp ermar og sjá hvað ég kemst langt með hann áður en ég fer að taka á móti Rönku úr rútunni síðdegis. Hlakka mikið til að faðma hana.
Dóttla situr í þessum skrifuðu orðum í flugvél og nálgast landið óðfluga. Er vonandi að kaupa sælgætiskassann sem ég bað hana um í flugbútíkinni og með lýsið frá Hannesi í ferðtöskunni. Verst ég gleymdi að biðja um meira gulrótarappelsínumarmelaði. Þarf að fara sparlega með rest ef hún á að duga fram í maí.
Angurværðin blásin af og rétturinn minn (melónusneiðar með parmaskinku, balamsýrópi og parmaseanosti) í starfsmannaboðinu þótti til fyrirmyndar. Kaflabjáninn er að taka á sig einhvers konar mynd sem ég get sætt mig við og nú er bara að bretta upp ermar og sjá hvað ég kemst langt með hann áður en ég fer að taka á móti Rönku úr rútunni síðdegis. Hlakka mikið til að faðma hana.
þriðjudagur, 3. apríl 2007
Depressjónir
Ég veit að ég á ekki að vera að belgja mig yfir depressjónum og ræða um mínar sem koma – sem betur fer – afar sjaldan og endast venjulega stutt. Enda standa þær depressjónir ekki undir nafni og eru mun frekar í ætt við dagsdepurð og angurværð (sem mér finnst svo fallegt orð og skáldlegt). Það er yfir mér örlítil angurværð – það hljómar vel og lýsir ástandinu á mér í augnablikinu. Angurværðin stafar fyrst og fremst af því að ég er í basli í skrifunum og þar sem þau eru nú u.þ.b. 95% af daglegum athöfnum í vöku (og stundum eru þau líka að lauma sér í draumana) endurspeglar gengið þar svona almenna Nasdaq vísitölu sálarinnar. Angurværðin mín lýsir sér einna best í verulegu andleysi þannig að ég get ekki einu sinni bullað almennilega – og því ekki bloggað. Mér dettur ekkert í hug að segja í símtölum – sem betur fer eru þau ekki mörg og mest frá fólki sem elskar mig og bara tekur mér eins og hverju öðru hundsbiti og í gær settist ég við eldhúsborðið á móti leigusalanum og datt ákkúrat ekkert umræðuefni í hug. Drakk tebollann minn, brosti vandræðalega og stóð svo upp, setti bollann í uppþvottavélina og sagði: Jæja þá er ég farin upp til mín. Hún sagði: Já. Og ég er konan sem þarf yfirleitt að segja svo margar sögur í einu að örþreyttir áheyrendur mega hafa sig alla við að halda megin söguþráðum á lofti. Og oft missi ég þá sjálf og þarf stundum að rekja mig langar leiðir til baka.
Og á morgun ætla kellurnar í deildinni sem borða saman í staffaherberginu í hádeginu að slá saman í matarpúkk og allir búnir að skrifa sig á lista og láta vita hvað þeir ætla að koma með. Ég stóð við listann í gær með pennann á lofti þar til mig var farið að verkja í handlegginn og hugsaði: Hvað ertu búin að elda oft eitthvað í lífinu. Láttu þér nú detta eitthvað í hug! En ekkert gekk.
Í hádeginu í dag skráði ég nafnið mitt á listann en setti spurningarmerki við hvers konar veitingar. Ætli mér sé ekki hollast að hypja mig heim snemma til að ég geti staðið með vonleysissvip fyrir framan hillurnar í Teaco þar til fer að kvölda.
Annars er þriðjudagshlaup í dag. Eftir tímaskiptin um daginn hittist hópurinn nú í Shotover (sem ég veit aldrei hvort er borið fram sjott eða sjút) sem kallar á smá hjólaferðalag hjá mér en á móti kemur að þetta er skemmtilegt útivitarsvæði með alls konar brekkum. Kannski að endrófínið nái að reka úr mér angurværðina.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)