sunnudagur, 4. júlí 2010

Mitt síðasta hlaup


Jamm og já og þá er síðasta hlaupið hér í Flórens hlaupið (nema að ég fari í fyrramálið). Var ekki mjög einbeitt þegar að ég vaknaði sjö í morgun enda að baki langur en skemmtilegur gærdagur. Sá hófst með hlaupi en svo mættu hingað í morgunkaffi íslenskir kunningjar, Gerður og Gunnar (sem voru orðnir vinir við dagslok). Tókum strætó upp í Fiasole og í brennandi sól drógum við þau hjónin upp hverja brekkuna á fætur annarri að skoða útsýni og klaustur. Tókum þriggja tíma stopp á tjaldstæðinu þar sem er að finna veitingastað og sundlaug og þar með ískalt hvítvín og svölun í köldu vatni. Kaffi og campari soda á Casa de Popula því þar er líka útsýni í hina áttina og svo strætó langt suður yfir Arnó þar sem við héldum göngunni áfram, nú að leita upp sýningu Ragnars Kjartanssonar í EX3. Sátum í dásamlega svölum sal og horfðum á mömmu hans Kjartans hrækja á hann eins og hún ætlar að gera reglulega á fimm ára fresti á meðan hún lifir. Mér fannst þetta gaman. En þarna vorum við orðin verulega lúin svo við tókum bíl heim til þeirra Gunnars og Gerðar og pískuðum Gunnari út í eldhúsinu þar sem hann galdraði fram frábært sjávarréttarpasta. Við hin drukkum bara bjór á meðan. Við skötuhjón kvöddum svo þessa nýju vini og héldum gangandi heim með viðkomu á spænskum bar við Domuna til að fylgjast með Spánverjum vinna sinn leik- ég fagnaði ákaft. Vissi ekki að við (lesist Hannes) héldum með hinum sem ég man ekki núna hverjir voru.

En já svo voru það hlaupin. Eftir þennan dag var svolítil luðra í mér þegar að ég vaknaði þarna sjö og fór í hlaupafötin. Ræddi hlaupaplön við Hannes sem sagði að það hlyti að vera í lagi að svindla ærlega á prógrömmum í sumarfrí svo ég fór aftur úr hlaupagallanum og í rúmið. Lá þar í klukkutíma, fór aftur í hlaupafötin og hljóp af stað út í Cascino garðinn. Núna sagðist garmurinn vera batteríslaus svo ég gaf skít í tíma (og það var skynsamlegt) og skokkaði rólega af stað. Úff, ofan í hitann er nú rakara en nokkru sinni og mér fannst orðið erfitt að anda. Margir að hlaupa og ganga í garðinum og til að breyta til hljóp ég suður yfir á og meðfram henni og yfir næstu brú til baka yfir í garðinn. Þar sem ég hljóp rennsveitt eftir stígnum hljóp ég inn í mýfluguský og fann þær límast allar við andlitið á mér, háls og hendur. Reyndi að ná þeim af með bolnum mínum en gekk ekki vel. Fann vatnshana þegar ég kom í garðinn og þreif mig aðeins betur. Við endann á garðinum var ég orðin grútmáttlaus (10 km) og sá að hjónin í græna veitingaskúrnum voru mætt og farin að setja út borð og stóla. Hljóp til þeirra og fékk að kaupa hjá þeim orkudrykk, einhvers konar Gatorate og settist hjá þeim á bekk og svalg drjúgum. Fann að þetta gerði mér svo gott að þegar ég stóð upp úr eigin svitapolli gat ég næstum stokkið af stað á ný og ef ég hefði ekki verið svona rennandi sveitt og subbuleg hefði þetta næstum verið eins og í auglýsingu á orkudrykk. Sem betur fer var bakríið lokað því um það bil sem ég var þar var svitinn farinn að leka niður úr buxunum mínum sem sveifluðust rennandi blautar um lærin og ég kunni eiginlega ekki við að fara inn neins staðar nema heima hjá mér.

Þannig er það. Ég skulda í þessari viku um 10 km en ætla að láta það sem komið er duga. Siggi Pé hlýtur að skilja að hér í hitanum er hver kílómetri á við tvo ... þannig að ég er eiginlega búin að hlaupa 102 km en ekki 51 í vikunni!

laugardagur, 3. júlí 2010

Er hundur í mér?

Jæja heldur ætla ég að renna á rassinn með hlaupaprógrammið þessa seinni Flórensvikuna. Þar leggst allt á eitt, það hlýnar og hlýnar og ég verð minna hlaupaviljug. Reyndar gleymist það í kílómetratalningunni að ég er ekki fyrr komin heim af hlaupum að við skötuhjú stefnum gangandi út í óvissuna og vöppum hér út og suður alla daga fleiri, fleiri kílómetra. Vaknaði í vikunni með endalausa krampa í hægri fæti og ákvað að það væri skilaboð að handan um að liggja flöt áfram í rúminu og sofa fram á miðjan morgun frekar en að fara út að hlaupa. En í morgun vaknaði ég snemma og var komin út að hlaupa kl. 7 (þ.e. ég var komin út á götu kl. 7 en svo tók næstum 10 mínútur fyrir garminn að finna sér túngl!). Núna var ég næstum ein á ferli utan sanntrúaðra sem kyrjuðu tíðasöng í þeim kirkjum og klaustum sem ég hljóp framhjá. Nú er ég eiginlega hætt að leita að nýjum leiðum og meira farin að búa til nýjar útgáfur með því að blanda saman gömlum leiðum. Það gerir ferðirnar minna spennandi og ég er t.d. alveg hætt að villast.

Í morgun tók ég strauið niður á Anconella garðinn. Þeir eru nokkrir garðarnir hér í Flórens sem ég hef kynnst á hlaupunum. Sumir eru ekki mjög hlaupavænir. Man að í fyrra ákváðum við Hannes að fara í Boboli garðinn í sólbað. Roguðust þangað með teppi, sólarolíu, vatn og reifara og höfðum ekki hugmynd um að það er álíka gæfulegt að ætla sérí sólbað þar og á Listasafni Íslands. Fyrir það fyrsta þarf maður að borga sig inn og þegar inn er komið gengur maður prúður um stíga og skoðar styttur. Við Hannes spiluðum okkur kúl og roguðumst með sólbaðsdótið um allar trissur. Mér hefur verið tíðrætt um Cascine garðinn enda er hann stærsti sinnar tegundar hér í Flórens (og þar er frábær markaður á þriðjudagsmorgnum) en Anconella garðurinn er samt í sérstöku uppáhaldi. Ég varð svo glöð að koma þangað í morgun að ég stoppaði úrið og leyfði mér að leika mér smá. Fyrst fór ég í röð við góðavatnsbrunninn en það er krani sem dælir úr sér sérstöku, freyðandi gæðavatni. Í morgun voru þrír á undan mér með stórar tuðrur og kassa fulla af 2 l flöskum sem þeir fylltu ár í gríð og erg. Maðurinn á undan mér hleypti mér svo fram fyrir sig með mína hálfslítra. Í garðinum eru svo tvær tjarnir, í annarri eru skjaldbökur en hinni gullfiskar og sumir vel matvænir að stærð. Stoppaði lengst við æfingatækin og gerði 10 magaæfingar og 10 armbeygur til að hafa nú að minnsta kosti prófað. Þetta var mikið morgunfjör. Kvaddi garðinn og bætti við einni auka Arnóbrú til að lengja smá og fór þá að hugsa um hunda. Við hlaupafélagar heima á Fróni erum stundum að ergja okkur á íslenskum hundaeigendum sem ítrekað brjóta allar reglur um að hafa hundana sína í bandi. Þeir koma svo blessaðir, flaðrandi og geltandi upp að hlaupandi fólki og sýni maður pirring er eins víst að hundaeigandinn setji upp undrunarsvip og segi: Ó ertu eitthvað hrædd við hunda? Minn er ótrúlega góður en hann bara hvolpur og finnst það bara leikur að hanga svona í buxnaskálmunum á þér! Þetta fer ótrúklega í taugarnar á mér en af því ég veit að þetta skrifast á heimska hundaeigendur en ekki hundana sjálfa hefur mér stundum dottið í hug að stökkva upp um hundaeigandann, fella hann ljúflega og sleikja hann svo og narta smá í hann og biðja hlaupafélagana mína að segja við eigandann þar sem liggur (vondandi skíthræddur á Ægissíðustígnum): Ó ertu hræddur við hana. Ekki vera það, hún er voða góð en bara í svolitlu stuði í dag. Hér í Flórens býr ógrynni af hundum af öllum tegundum og á morgnana hittir maður þá í hund(rað)avís hér í görðunum. Og út um alla borg. Og af þessum grilljón hundum sem ég hef hitt síðustu vikur hafa tveir gelt að mér. Tveir. Öllum hinum hefur verið kennt að lifa og búa í borg. Fái hundarnir að hlaupa frjálsir á skógarstígum eða í görðum bregst ekki að eigendur kalla eða blístra á sinn hvutta sem kemur skottandi til hans og stendur eða jafnvel liggur grafkyrr á meðan ég silast framhjá. Hér eru reglurnar einfaldar og skýrar og það er farið eftir þeim. Mikið held ég að íslenskir hundaeigendur gætu lært af því að skokka smá í Flórens.

fimmtudagur, 1. júlí 2010

Skuggabaldur fer í bakarí


Kominn júlí og enn hefur hitinn hækkað hér í Flórens. Það dugar mér að sitja á stól og anda til að svitna vel og rækilega. Í daglegum túr um borgina eru kirkjur, bankar og betri búðir orðið eina skjól mitt. Þar er skuggsælt og svalt. Í morgun lagði ég í hann upp úr hálfátta en þá hafði sólin haft eina þrjá tíma til að velgja þennan hluta heimsins og staðið sig frammúrskarandi. Ég ákvað að hlaupa niður í Cascine garðinn því þar er einna helst hægt að finna skjól undir trjákrónum. Reyndar voru þá borgaryfirvöld búin að loka drjúgum parti garðsins þar sem fallin tré liggja þvers og kruss eftir stórveður á 17. júní. Þeir eru seinni á sér hér að laga það sem aflaga fer en í Póllandi. Þar mátti maður varla missa kortið sitt á stéttina án þess að því hefði þrifalega verið sópað upp. Kannski er enginn vinnuskóli hér í Flórens? Samkvæmt prógrammi Sigga átti ég leika mér í fartleik sem felst í því að taka alls konar skemmtilega spretti inn á milli hefðbundins hlaups. Það gat ég bara engan veginn nema að maður megi kalla það fartleik að hlaupa silalega og standa svo grafkyrr þess á milli á gatnamótum. Það er auðvitað mismunandi hraði ef út í það er farið! Datt í hug að bæta aðeins við dagsskammtinn til að auðvelda mér restina af vikunni en þegar ég var búin að vinda úr hlaupatoppnum mínum á einum gatnamótunum ákvað ég að fara bara heim. Ég fann mér smá möntru að kyrja á heimleiðinni. Hún var svona: hiti er bara hugarástand- hiti er bara hugarástand - hiti er bara hugarástand (þetta er ný útgáfa af hefðbundinni möntru sem gengur út á að þreyta sé bara hugarástand) en mér kólnaði eiginlega ekkert við þetta. Ég fann hins vegar nýtt bakarí á heimleiðinni og er alveg að verða sérfræðingur í þeim. Í þessu bakaríi voru 168 tegundir af alveg eins hvítu brauði en svo tvær öðru vísi. Keypti þá til hægri sem reyndist heiðgult sojabrauð með hveitikjörnum - og reyndist við frekari kynni alveg ljómandi gott.