mánudagur, 30. apríl 2007

Hóst og hnerri og brotin sjálfsmynd



Mér finnst algjörlega óviðeigandi að vera með kvef og hálsbólgu í sól og blíðu – þetta eru vetrarveikindi sem eiga hreinlega ekki við á öðrum árstíðum – fussum svei og fari þau systkin hósti og hnerri nú í rass og rófu.

Fór með Michele og hálsbólgunni og Möru vinkonu Michele að punta á laugardaginn. Það var erfitt en mest fyrir sjálfsálitið. Hér hef ég alltaf staðið í þeirri trú að í sambandi okkar Michele sé ég íþróttaálfurinn sem get allt og hún svona meira sófakartaflan. Ég heimtaði því að fá að stjaka og eftir smá kennslustund á bakkanum héldum við þrjár á vit ævintýranna. Þau ævintýri fólust fyrst og fremst í því að ég stímdi á allt og alla sem var að finna á þeirri kílómetralangri leið sem mér tókst með herkjum að skikksakka. Michele og Mara voru ýmist hálfar upp í bátum hjá öðrum bytnuförum, klesstar upp við aldargamla veggi eða geirnegldar inn í tré og runna. Fuglar skræktu á mig og börn hlógu. Var orðin veruleg móð og uppgefin þegar að Michele baust til að taka við og viti menn – hér var kominn endurborinn gondólisti sem stýrði okkur mjúklega á leiðarenda – bara nokkuð hratt. Kom í land með brotna sjálfsmynd sem batnaði nú ekki við það að vakna næsta dag undirlögð í harðsperrum sem Michele kannast hvergi við að finna í eigin kroppi. Ansans árans!

Í gær buðum við Michele svo leigusölum til matarveislu. Hafði lengi staðið til en erfitt að finna stund og stað þar sem allir voru á sama stað á sama tíma. Borðuðum í garðinum og byrjuðum á íslensku brennivíni, þykku úr frystinum og mauluðum með flatkökur með hangikjöti og harðfisk. Þjóðarrétturinn vakti mikla lukku hjá hjónunum sem gáfu nágrönnunum smakk yfir garðvegginn. Michele bauð næst um á lúxembúrgska baunasúpu áður en við skelltum okkur í parmavafinn skötsel með sítrónu- og kaperssósu. Skötuselurinn átti að vera íslenskt dæmi og var góður. Að lokum toppuðum við kvöldverðinn með eftirrétti innfæddra - karamelluklístursbúðingi (Sticky Toffeee Pudding) sem er djúsí kaloríubomba sem ég á eftir að prófa einhvern tíma heima.

Fræðistörfum miðaði því miður lítið en það er mánudagur og því rétti tíminn til að byrja nýtt líf – ekki satt?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

guð hvað ég er fegin að hafa ekki farið með þér!:) þetta hefur nú verið fínt fyrir sjálfsálitið hennar michell:)

Nafnlaus sagði...

Já finnst þér það skipta einhverju þegar að móður þinnar er farið?